Ferill 456. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 456 . mál.


941. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um skipulag ferðamála, nr. 79/1985, sbr. lög nr. 59/1988.

Frá minni hluta samgöngunefndar.



    Fyrir löngu er tímabært að heildarendurskoðun fari fram á lögunum um skipan ferðamála. Fyrir 113. löggjafarþingi lágu tvö mjög mikilvæg þingmál sem ekki tókst að koma í gegnum þingið. Þar var um að ræða frumvarp til laga um ferðaþjónustu og tillögu til þingsályktunar um ferðamálastefnu. Nefndir þingsins lögðu mikla vinnu í bæði málin og full ástæða hefði verið fyrir ráðherra að endurflytja þau nú á þessu þingi. Minni hlutinn hvetur samgönguráðherra til að leggja þessi mál tímanlega fyrir næsta þing svo að örugglega takist að ljúka umfjöllun um þau.
     Þess vegna er óeðlilegt að endurskoða nú sérstaklega skipan stjórna Ferðamálaráðs og Ferðamálasjóðs. Sú afstaða, sem fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu, þ.e. að nauðsynlegt sé að gera þessa breytingu svo að fullur trúnaður geti ríkt milli ráðherra annars vegar og stjórna Ferðamálaráðs og Ferðamálasjóðs hins vegar, er ekki studd neinum rökum. Það verður að gera þá kröfu til ráðherra að hann styðji mál sitt veigamiklum rökum þegar hann lýsir yfir vantrausti á stjórnir Ferðamálaráðs og Ferðamálasjóðs með þeim hætti sem hér kemur fram.
     Það að taka einstakar stjórnir eða nefndir, setja þær af og skipa nýjar með þessum hætti verður ekki skilið nema á einn veg, þ.e. sem vantraust á þá einstaklinga sem eiga hlut að máli. Beri að líta svo á að hér sé stefnubreyting á ferðinni og hugmynd ríkisstjórnarinnar sú að endurskoðun fari fram á skipan stjórna og ráða með svo handahófskenndum hætti sem þessum er hér um forkastanleg vinnubrögð að ræða.
     Minni hlutinn telur að heildarendurskoðun á því með hvaða hætti skipan stjórna, nefnda og ráða á vegum hins opinbera fer fram komi vel til greina. En slík endurskoðun er mikið vandaverk og getur ekki farið fram á þann máta sem hér er lagt til.
     Með vísan til þess sem að framan er sagt leggur minni hlutinn til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinna r.

Alþingi, 14. maí 1992.



Jóhann Ársælsson,

Guðni Ágústsson.

Stefán Guðmundsson.


frsm.



Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.