Ferill 519. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 519 . mál.


961. Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um samninga Íslands við Evrópubandalagið samkvæmt Lúxemborgaryfirlýsingunni frá 1984.

    Hvaða samningar hafa verið gerðir milli Íslands og Evrópubandalagsins á grundvelli Lúxemborgaryfirlýsingarinnar frá 1984 og hvert er meginefni hvers þeirra?
    Sem svar við 1. spurningu fylgir hér skrá um samninga Íslands við Evrópubandalagið samkvæmt Lúxemborgaryfirlýsingunni frá 9. apríl 1984 og stutt lýsing á meginefni hvers þeirra.
    Nánari upplýsingar um samningana er að finna í C-deild Stjórnartíðinda. Hafi samningur ekki verið birtur er þess sérstaklega getið.

    Hvaða samningar eru á undirbúningsstigi á grundvelli sömu yfirlýsingar?
    Hvað varðar 2. spurningu skal upplýst að engir samningar eru á undirbúningsstigi á grundvelli þessarar yfirlýsingar.

Skrá yfir samninga Íslands og Evrópubandalagsins


samkvæmt Lúxemborgaryfirlýsingunni ásamt


lýsingu á meginefni hvers þeirra.



20.5.1987.    Samningur um einföldun formsatriða í vöruviðskiptum (C 23/1987).
    Samningur þessi mælir fyrir um ráðstafanir til að einfalda formsatriði í vöruviðskiptum milli Efnahagsbandalags Evrópu og EFTA-ríkjanna, svo og milli EFTA-ríkjanna sjálfra, sérstaklega með því að taka upp samræmt stjórnsýsluskjal til hvers kyns notkunar við útflutning, innflutning og flutning vara um lönd samningsaðila án tillits til tegundar eða uppruna varanna.

20.5.1987.    Samningur um sameiginlegar umflutningsreglur (C 24/1987).
    Samningur þessi kveður á um umflutning vara milli Efnahagsbandalags Evrópu og EFTA-ríkjanna, svo og milli EFTA-ríkjanna sjálfra, m.a. þar sem það á við, umskipun, endurútflutning eða geymslu í vörugeymslum, með því að setja sameiginlegar umflutningsreglur án tillits til tegundar eða uppruna varanna.

19.12.1989.    Samningur milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu til að koma á samstarfi á sviði starfsþjálfunar í tengslum við framkvæmd á COMETT II (1990–1994) (C 6/1990).
    Samningur þessi mælir fyrir um að koma á samstarfi milli bandalagsins og Íslands á sviði tækniþjálfunar í tengslum við framkvæmd COMETT II. COMETT II áætlunin nær til fjölda samstarfsverkefna þjóða í milli sem eiga að efla og örva samstarf milli háskóla og fyrirtækja innan Evrópu að því er snertir byrjunar- og framhaldsþjálfun, einkum á sviði hátækni, til að bregðast við tæknilegum og þjóðfélagslegum breytingum sem verða þegar innri markaðurinn kemst á og eins til að efla efnahagslega og félagslega einingu innan hans. Aðgerðum er beint til starfsþjálfunarnema, þar á meðal til þeirra sem lokið hafa byrjunarþjálfun sinni, og til fólks sem þegar er virkt á vinnumarkaði, þar á meðal til fulltrúa atvinnurekenda og launþega og viðkomandi þjálfunarstjóra.

15.12.1990.    Samningur milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu um tölvugagnaskiptakerfi fyrir viðskipti (C 8/1990).
    Samningur þessi kveður á um þátttöku Íslands í áætlun bandalagsins á sviði tölvugagnaskiptakerfis fyrir viðskipti, iðnað og stjórnsýslu, svonefndri TEDIS-áætlun. Þátttaka Íslands í þessari áætlun mun m.a. stuðla að því að sneitt verði hjá myndun nýrra tæknilegra hindrana í viðskiptum milli bandalagsins og aðildarríkja EFTA og stuðla að samræmdri þróun í tölvuvæddri sendingu viðskiptagagna.

30.10.1989.    Rammasamningur um samvinnu á sviði vísinda og tækni milli Íslands og Evrópubandalaganna (C 15/1990).
    Samningur þessi skilgreinir ramma um þróun vísinda- og tæknisamstarfs Íslands og Evrópubandalaganna á sameiginlegum hagsmunasviðum sem rannsókna- og þróunaráætlanir samningsaðilanna falla undir. Fyrirtæki og framkvæmdaraðilar á vegum hins opinbera eða einkaaðila, sem taka þátt í rannsóknaáætlunum á Íslandi eða í Evrópubandalögunum, geta stundað þetta samstarf.

19.12.1989.    Samningur milli EFTA-ríkjanna annars vegar og Efnahagsbandalags Evrópu hins vegar um upplýsingaskipti vegna tæknilegra reglugerða (C 18 og 30/1990).
    Samningur þessi kveður á um að Efnahagsbandalag Evrópu skuli tilkynna EFTA-ríkjunum, fyrir milligöngu EFTA-ráðsins, um drög að tæknilegum reglugerðum sem Efnahagsbandalagi Evrópu er tilkynnt um af aðildarríkjum þess í samræmi við viðeigandi lagasetningar bandalagsins. Aðildarríki EFTA skulu sömuleiðis fyrir milligöngu EFTA-ráðsins tilkynna bandalaginu um drög að tæknilegum reglugerðum sem tilkynntar eru innan EFTA í samræmi við viðeigandi ákvæði EFTA.

9.10.1991.    Samningur milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu til að koma á samstarfi á sviði menntunar og þjálfunar innan ramma ERASMUS-áætlunarinnar (C 28/1991).
    Samningur þessi mælir fyrir um að komið skuli á samstarfi milli bandalagsins og Íslands sem byggir á samstarfi milli háskóla og nemendaskiptum í tengslum við framkvæmd ERASMUS. Markmið ERASMUS-áætlunarinnar er að styrkja samstarf háskóla, örva nemendaskipti, stuðla að gagnkvæmu mati háskóla á prófskírteinum og námstíma og kennaraskipti.

18.7.1991.    Samstarfssamningur milli Efnahagsbandalags Evrópu og Íslands um starfsáætlun til að örva alþjóðasamstarf og nauðsynleg samskipti evrópskra vísindamanna í rannsóknum (SCIENCE) (C 29/1991).
    Samningur þessi kveður á um aðild Íslands að framkvæmd vísindaáætlunarinnar. Ísland skal taka þátt í fjölda aðgerða til að efla þjálfun og stuðla að auknum möguleikum vísindamanna í aðildarríkjunum til að flytja sig til og til að þróa, styðja og efla vísinda- og tæknisamstarf innan Evrópu, svo og samskiptanet á öllum sviðum er varða nákvæmnivísindi og náttúruvísindi.

16.3.1992.    Samstarfssamningur milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu um rannsóknir og þróun á sviði umhverfismála: Vísindi og tækni til verndar umhverfinu (STEP) og evrópsk áætlun um veðurfarsfræði og náttúruvá (EPOCH) 1 (óbirtur).

    Samningurinn kveður á um aðild Íslands að tveimur áætlunum bandalagsins um rannsóknir, tækni og þróun á sviði umhverfismála (1989–1993): Vísindi og tækni til verndar umhverfinu (STEP) og Evrópsk áætlun um veðurfarsfræði og náttúruvá (EPOCH). Aðild Íslands að áætlunum bandalagsins getur stuðlað að því að efla gagnsemi þeirra rannsókna sem samningsaðilarnir standa fyrir á sviði umhverfisverndar og geta komið í veg fyrir óþarfa tvíverknað. STEP-áætlunin fæst við eftirfarandi rannsóknasvið: Umhverfi og heilsa almennings, mat á áhættu í tengslum við efni, ferli í gufuhvolfi og loftgæði, vatnsgæði, verndun jarðvegs og grunnvatns, rannsóknir á vistkerfum, verndun evrópskrar menningararfleifðar, tækni í þágu umhverfisverndar og stórfelld tæknileg vá og öryggi gegn eldhættu. EPOCH-áætlunin fæst við eftirfarandi rannsóknasvið: Veðurfar fortíðarinnar og veðurfarsbreytingar, veðurfarsferli og reiknilíkön, veðurfarsleg áhrif og hættur tengdar veðurfari og jarðskjálftavá.

1 Ekki enn í gildi.