Ferill 436. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – . mál.


969. Nefndarálit

436.

um frv. til l. um breyt. á höfundalögum, nr. 73 29. maí 1972, sbr. lög nr. 78 30. maí 1984.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk um það umsagnir frá Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar, Bandalagi íslenskra listamanna, Námsgagnastofnun, Myndstefi, Sambandi íslenskra myndlistarmanna, Miðlun hf., Tónskáldafélagi Íslands, Bandalagi íslenskra listamanna, Samtökum íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja, Verslunarráði Íslands, Sambandi hljómplötuframleiðenda, Sambandi íslenskra hljómlistarmanna, Ríkisútvarpinu og Félagi íslenskra rithöfunda. Þá fékk nefndin á sinn fund um frumvarpið Þórunni Hafstein, deildarstjóra í menntamálaráðuneytinu.
    Við umfjöllun um 10. gr. frumvarpsins fékk nefndin einnig á sinn fund Knút Bruun, Svölu Lárusdóttur og Úlfar Þormóðsson. Samkvæmt 10. gr. er lagt til að svokallaður fylgiréttur verði lögfestur, en inntak þess réttar er að við endursölu myndverka í atvinnuskyni renni tiltekinn hundraðshluti endursöluverðs til rétthafa. Slík ákvæði eru þegar í gildi í þágu höfunda í lögum um listmunauppboð o.fl., nr. 36/1987, þannig að frumvarpið felur aðeins í sér nýmæli við endursölu utan slíkra uppboða, þ.e. í svokölluðum galleríum. Sá munur er hins vegar á sölu listaverka á listmunauppboðum og í galleríum að virðisaukaskattur leggst ekki á listaverk sem eru til endursölu á listmunauppboðum en slíkur skattur leggst á sölu í galleríum. Undanþága listaverka, sem seld eru á listmunauppboðum, frá virðisaukaskatti var heimiluð með lögum nr. 119/1989, um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, og í því sambandi vísað til laga nr. 36/1987, en skv. 3. gr. þeirra laga skal ekki leggja sölugjald á málverk, myndir og listmuni heldur 10% gjald er renni til rétthafa listaverka. Samkvæmt upphaflegum virðisaukaskattlögum, nr. 50/1988, var sala á listmunauppboðum hins vegar ekki undanþegin virðisaukaskatti.
    Nefndin vill vekja athygli á að sá mismunur, sem er á aðstöðu listmunauppboða og gallería, getur ekki talist eðlilegur.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali. Um er að ræða orðalagsbreytingu í fyrri efnismálsgrein 8. gr. til að taka af öll tvímæli um efni greinarinnar.
    Ólafur Þ. Þórðarson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. maí 1992.



Sigríður A. Þórðardóttir,

Rannveig Guðmundsdóttir.

Kristín Ástgeirsdóttir.


form., frsm.



Hjörleifur Guttormsson.

Sturla Böðvarsson.

Björn Bjarnason.



Valgerður Sverrisdóttir.

Árni Johnsen.