Evrópskt efnahagssvæði

92. fundur
Mánudaginn 04. janúar 1993, kl. 13:36:26 (4248)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég leyfi mér nú að nota tækifærið með vísan til þess að ég er fyrsti ræðumaður hér í umræðum á nýbyrjuðu ári að óska forseta vorum gleðilegs árs, starfsfólki Alþingis og okkur öllum. Við mætum hér á nýjan leik til að ræða frv. til laga um Evrópskt efnahagssvæði, þetta EES sem staðið hefur nú í stöku manni að útskýra hvað væri. Manni verður nokkuð hugsað um aðdragandann allan að þessu máli á svona tímamótum, nýbyrjuðu ári. Það má segja að þetta mál sé að hefja enn eitt árið og enn er óvissa nokkur um afdrif þess. Það minnir mann á hið fornkveðna að allt er í heiminum hverfult og breytingum undirorpið og einnig þetta mál.
    Það er eins og einhver furðuleg álög hafi fylgt því gegnum tíðina. Þegar menn hafa talið niðurstöðu í sjónmáli, þá hafa nýir atburðir orðið sem sett hafa það í nýjan farveg. Slíkir gerðust enn í síðasta mánuði nýliðins árs þegar ein þátttökuþjóðin, þ.e. almenningur, hafnaði því að vera aðili að þessu svæði.
    Ég vil áður en ég ræði þá efnisþætti sérstaklega, sem ég ætlaði að koma hér inn á nú við 2. umr. málsins, gera þessar breyttu aðstæður í málinu lítillega að umræðuefni. Ég held að það muni verða niðurstaða sögunnar að árið 1992 hafi um margt verið merkt ár í sögu Evrópu og evrópskra stjórnmála. Það urðu að ýmsu leyti straumhvörf, leyfi ég mér að segja, í viðhorfum fólks til samvinnu Evrópuríkja. Það var skipt um gír ef svo má að orði komast. Menn áttuðu sig á því, að það sem af ýmsum var talin bein braut beinnar þróunar í átt til aukins stjórnmálalegs og efnahagslegs samruna Evrópuríkja, að þessi þróun rofnaði. Það var sem Evrópubúar hefðu almennt verið leystir úr álögum þegar frændur vorir Danir höfðu kjark til þess að hafa sjálfstæða skoðun á þessu máli og láta hana í ljós í kosningum. Fleiri stóratburðir á árinu 1992 munu óumdeilanlega hafa áhrif á bæði innihald þessa samstarfs og líka þróun þess eða þann hraða sem þeirri þróun verður samfara. Þá á ég auðvitað sérstaklega við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Sviss og ég á líka við þá miklu andstöðu sem kom fram í þeim fjölmörgu Evrópuríkjum, svo sem í þjóðaratkvæðagreiðslu í Frakklandi, á breska þinginu og víðar, þar sem þessi mál voru til umfjöllunar. Það er enginn vafi á því að niðurstöður þessara kosninga og þessara atburða á árinu 1992 sýna svo að ekki verður á móti mælt að evrópskir stjórnmálamenn og embættismenn voru upp til hópa komnir úr takt við sína umbjóðendur. Sumir mundu segja að þeir hafi verið komnir á undan þeim. Aðrir hafa tilhneigingu til að segja að þeir hafi einfaldlega farið í öfuga átt.
    Spurningin er hins vegar sú hvort menn draga af þessu einhverja lærdóma og bregðast við samkvæmt því eða ekki. Því miður gætir þess að menn berji höfðinu við steininn, neiti að horfast í augu við þau skilaboð sem komið hafa frá þjóðunum í gegnum atkvæðagreiðslur eða aðra atburði og það endurspeglast í orðanotkun af því tagi sem stjórnmálamenn, bæði íslenskir og erlendir, hafa viðhaft í kjölfar atkvæðagreiðslnanna í Danmörku og Sviss að þar séu á ferðinni sérstök vandamál. Með öðrum orðum, lýðræðislegur vilji fólksins í löndunum er orðinn sérstakt vandamál þeirra sem hafa ætlað sér og hugsað sér að hafa vit fyrir fólkinu.
    Ég tók eftir því að bæði hæstv. utanrrh. og einnig hæstv. forsrh. hafa viðhaft orðbragð af þessum toga um atburðina í Sviss og í Danmörku svo ekki sé nú minnst á það mikla vandamál sem það væri að leyfa íslensku þjóðinni að hafa skoðun á þessum málum.
    Það vekur einnig athygli að á þessu nýbyrjaða ári tala margir eins og það sé þegar orðinn hlutur að hin Norðurlöndin muni ganga í Evrópubandalagið þrátt fyrir að það liggi fyrir að í öllum skoðanakönnunum sem fram fóru á árinu 1992 reyndist meiri hluti Norðmanna andvígur aðild. Þarna er á ferðinni sami hugsunarhátturinn, að hafa að engu þau skilaboð sem koma með marktækum hætti, annaðhvort í gegnum kosningar eða vandaðar kannanir, frá íbúum landanna. Það er þessi mikla nauðhyggja að niðurstaðan geti samt sem áður, hvað sem líður vilja fólksins, aðeins orðið ein, að menn keyri áfram þessa braut stjórnmálalegs og efnahagslegs samruna í Evrópu hvað sem almenningi líður. En ég er bjartsýnismaður og leyfi mér með hækkandi sól á nýbyrjuðu ári að hafa þá skoðun, hvað sem þessu líður, að það sé ekki séð fyrir endann á þeim breytingum, þeim vatnaskilum, sem merkjanleg urðu á árinu 1992 í þessum efnum og við getum átt eftir að upplifa fleiri slíka atburði á þessu nýbyrjaða ári sem hafi varanleg áhrif á þróunina á þessu sviði.

    Það er ekki orðin staðreynd að frændþjóðir okkar á hinum Norðurlöndunum, t.d. í Noregi og jafnvel Svíþjóð, gerist aðilar að Evrópubandalaginu, að meiri hluti almennings í þeim löndum einfaldlega samþykki það. Það er dálítið merkilegt að menn skuli tala eins og raun ber vitni þrátt fyrir þá staðreynd að yfirleitt er meiri hluti eða a.m.k. helmingur þeirra sem spurðir eru í könnunum í þessum löndum andvígur aðild. Meira að segja í Finnlandi, þar sem stuðningsmenn aðildar voru á þeim tíma sem Finnar ákváðu að senda inn umsókn í yfirgnæfandi meiri hluta, hafa hlutföll breyst verulega og nú skilur sáralítið að þá sem eru andvígir aðildarumsókn og hina sem hana styðja. Í þessu ljósi er augljóslega, að slepptum þeim augljósu eða tæknilegu vandkvæðum sem uppi eru í samningagerðinni um Evrópskt efnahagssvæði vegna brotthvarfs Sviss, óvissa mikil um framhaldið á nýbyrjuðu ári.
    Ég vil í því sambandi einnig bera fram eina spurningu til hæstv. forsrh. ef hann vildi vera svo góður, hæstv. forseti, að vera hér nálægur umræðuna. Hæstv. forsrh. sótti fund forsætisráðherra Norðurlanda milli hátíðanna og í framhaldi af þeim fundi viðhafði hann oftar en einu sinni í fjölmiðlum nokkuð breytta framsetningu á sínum orðum þegar hann fjallaði um Evrópubandalagið og stöðu Íslands í því sambandi. Það vakti sérstaka athygli mína að ummæli hæstv. forsrh. voru nú ekki með þeim afdráttarlausa hætti sem áður hafði stundum verið, blessunarlega, að aðild Íslendinga að Evrópubandalaginu kæmi ekki til greina, væri ekki á dagskrá eins og oft hefur verið sagt. Nú ræddi hæstv. forsrh. nokkuð um það að við yrðum að átta okkur á því, Íslendingar, eins og það lægi bara fyrir eins og óhrekjanleg staðreynd að við værum að afsala okkur besta tækifærinu og jafnvel eina tækifærinu til þess að slást í för með þeim þjóðum sem ætla að gerast fullir aðilar að Evrópubandalaginu.
    Ég vil leggja tvær spurningar fyrir hæstv. forsrh. af þessu tilefni og ég tel nauðsynlegt að þær komi hér fram við umræðuna. Er hæstv. forsrh. í fyrsta lagi að boða breytingar á afstöðu ríkisstjórnar sinnar til meintrar eða hugsanlegrar aðildar Íslendinga að Evrópubandalaginu með þessu breytta orðavali? Og í öðru lagi vil ég biðja hæstv. forsrh. að rökstyðja þá fullyrðingu að það sé endilega svo að Ísland sé þarna að missa af einhverju eina tækifærinu eða augljóslega hagstæðasta tækifærinu nú. Hvaðan kemur hæstv. forsrh. sá vísdómur, sú framsýni, að sjá það fyrir að það sé endilega núna sem það væri Íslendingum hagstæðast að skipta við eða nálgast þetta bandalag? Ég held að hæstv. forsrh. verði að gera betur en bara slá því fram sem sannaðri fullyrðingu að við séum með einhverjum hætti að missa af einhverju tækifæri eða einhverri lest. Við erum orðin vön að því sé haldið fram og það hefur ærið oft reynst haldlítill málflutningur. En hitt er þó mikilvægara sem ég spurði um í fyrra lagi að hæstv. forsrh. geri hreint fyrir sínum dyrum í þeim efnum. Er einhver breyting að verða á afstöðu hæstv. ríkisstjórnar? Er það komið á dagskrá í ríkisstjórninni að við Íslendingar sækjum um aðild að Evrópubandalaginu?
    Um ummæli hæstv. utanrrh. af ýmsum toga sem fallið hafa aðallega utan þings nú á síðustu dögum og vikum ætla ég ekki að hafa mörg orð, enda heiðrar hæstv. utanrrh. okkur ekki með nærveru sinni hér í salnum. E.t.v. neyðist þingið til að taka upp sömu samskiptahætti við utanrrh. og hann hefur tamið sér á undanförnum dögum og vikum, þ.e. að ræða við hann í gegnum fjölmiðla þar sem hæstv. utanrrh. sýnir þessari stofnun ekki þá virðingu að gera hana að vettvangi umræðunnar og koma sínum sjónarmiðum hér á framfæri, jafnvel ekki um svo skyld málefni þessari stofnun sem vinnubrögð á Alþingi eru. Jafnvel um slíka hluti kýs hæstv. utanrrh. að tjá sig í fjölmiðlum en ekki hér á Alþingi. Hæstv. utanrrh. hefur haft ýmis óviðurkvæmileg ummæli uppi um vinnubrögð hér, um afstöðu manna og jafnvel fært það fram sem sérstök rök máli sínu til stuðnings að viðhorf í öðrum löndum til Íslendinga geri það að verkum að menn eigi að breyta hegðun sinni hér á Alþingi.
    Ég ætla mér ekki að setjast í neitt kennarasæti gagnvart hæstv. utanrrh. Hann verður tæplega siðaður úr þessu, og verður manni hugsað til ákveðins máltækis í því sambandi, en ég vil leyfa mér að beina þeirri spurningu til hæstv. forseta þingsins hvort hæstv. forseti þingsins hafi fylgst með því sem sagt hefur verið um Alþingi og vinnubrögð á Alþingi í fjölmiðlum undanfarna daga af hæstv. ráðherrum í ríkisstjórn. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. forseta, ég bið ekki um svar nú. Vænst þætti mér um að fá svarið í formi aðgerða af hálfu hæstv. forseta en ég vil leyfa mér að spyrja a.m.k. fyrir mitt leyti. Hefur hæstv. forseti ekki velt því fyrir sér að halda uppi einhverjum vörnum fyrir Alþingi? Hefur hæstv. forseti ekkert hugleitt að bregðast við með einhverjum hætti fyrir hönd okkar þingmanna og fyrir hönd þessarar stofnunar vegna þeirra ásakana af ýmsu tagi og þeirra hörðu ummæla sem höfð hafa verið um Alþingi Íslendinga, bæði innan lands og utan á undanförnum dögum og vikum?
    Og þá að dagskrárefninu beint, hæstv. forseti, og einstökum efnisatriðum þess sem ég ætla að gera hér að umtalsefni og þá aðallega þeim sem með einhverjum hætti hafa tekið breytingum eða eru nú í öðru samhengi en þau voru þegar málið var til 1. umr. í haust. En meginniðurstaða mín er óbreytt og get ég í þeim efnum vísað til þegar framkomins rökstuðnings. Ég er þeirrar skoðunar að þessi samningur sem slíkur sé okkur Íslendingum ekki nógu hagstæður, með honum séu of miklar fórnir færðar og of mikil áhætta tekin í samanburði við þá ávinninga sem þar er að finna og okkur kæmu til góða við gildistöku samningsins.
    Það er nú dálítið merkilegt varðandi þá hliðina, ávinningana, að enn stöndum við að mestu leyti í sömu sporum og við höfum gert allt frá því að samningarnir voru undirritaðir fyrir meira en hálfu ári síðan. Ósköp lítið liggur fyrir um það annað en fullyrðingar, órökstuddar fullyrðingar í fyrirsagnastíl í hverju þessi ávinningur eigi að vera fólginn. Jú, það er bent á og jafnvel reynt að tölusetja ávinninga sem við höfum vegna tollaniðurfellingar á sjávarafurðum en að öðru leyti fer næsta lítið fyrir rökstuðningi eða útreikningum á því í hverju ávinningarnir munu birtast okkur Íslendingum. Það er t.d. athyglisvert að þrátt fyrir það atvinnuleysi sem nú er og vaxandi, þá hafa næsta litlar tilraunir verið gerðar til þess að reyna að kryfja áhrif EES-samningsins á atvinnuástandið á Íslandi, á atvinnustigið. Á því eru mjög skiptar skoðanir. Þeir eru margir sem óttast að ýmsar greinar íslensks atvinnulífs sem standa veikt muni láta undan síga í samkeppni á hinum opna markaði og þar með geti tapast störf, jafnvel fleiri en þau sem hugsanlega kunna að vinnast vegna ávinninga á öðrum sviðum. Reynsla okkar af þátttöku í samstarfi EFTA-ríkjanna og fríverslun með iðnaðarvörur á grundvelli þeirrar þátttöku bendir nú satt best að segja til þess að það sé ástæða til að hafa áhyggjur af ýmsum þeim greinum íslensks atvinnulífs sem standa höllum fæti í samkeppninni við innfluttar vörur. Við höfum horft á þúsundir starfa tapast í almennum iðnaði á undanförnum missirum. Hvað kemur okkur þá til að halda að enn opnari samkeppni og óheftari breyti þeirri þróun sem þar hefur verið í gangi? Einhver hundruð störf sem e.t.v. kynnu að skapast við aukna úrvinnslu sjávarafurða, sem þó er ýmsum til efs að mundu yfirleitt falla til, eru fljót að tapast ef mörg hundruð störf á ári hverju hverfa út úr iðnaði og þjónustu.
    Ég get nefnt eina atvinnugrein þar sem ég held að áhættan sé tvímælalaust nánast öll á okkar hlið og það er ferðaþjónustan. Það er nú svo, þrátt fyrir allt, að að yfirgnæfandi meiri hluta eru öll störf í rekstri ferðaþjónustunnar innan lands í höndum Íslendinga í dag. Því er það bara ósköp einfaldlega eðli málsins samkvæmt þannig að áhættan er á okkar hlið. Við búum t.d. við þá einstöku aðstöðu að allt millilandaflug til og frá landinu, jafnt með Íslendinga sem útlendinga, er í okkar höndum. Það er hverfandi sem er í höndum annarra aðila enn sem komið er. Þar hlýtur auðvitað áhættan að vera á okkar hlið, á þá hliðina að störfin færist yfir í hendur erlendra aðila. Ég er algerlega sannfærður um að tapast munu störf úr íslensku ferðaþjónustunni yfir í hendur erlendra aðila, sérstaklega í rekstri ferðaskrifstofa og ýmiss konar ferðaheildsölu og þjónustu við hópa. Það er enginn vafi á því að erlendar ferðaskrifstofur sem á undanförnum árum hafa haft tilburði til þess að sjá um meira af þjónustunni við sína farþega, eins mikið af henni og þeim hefur verið kleift samkvæmt íslenskum lögum og reglum, munu reyna að ganga áfram og lengra á þeirri braut og sjá eins mikið og þær geta um sína viðskiptavini. Engin sérstök úttekt hefur mér vitanlega farið fram á því hvernig samkeppnisstaðan er þarna og hvaða líkur eru á því að við næðum að halda okkar hlut á komandi árum. Auðvitað gæti einhver vöxtur fylgt aukinni starfsemi og aukinni innkomu útlendinga á þessu sviði og það væri náttúrlega vel því að einhverju skilar það þá hér upp á skerið, en það væri mikill barnaskapur að gera ekki ráð fyrir hinu að þetta gæti líka þýtt töpuð störf og útstreymi fjármagns úr landi sem áður hefur dreifst til innlendra aðila.
    Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum hvað stjórnvöld hafa svo á sama tíma verið að gera til undirbúnings þessari auknu samkeppni. Því verður tæplega haldið fram að það bendi til þess að menn séu að öllu leyti með réttu ráði ef við tökum ferðaþjónustuna sem dæmi. Einmitt um sömu tímamót og hún er að mæta þessari samkeppni þá sé henni íþyngt með nýjum sköttum, alveg sérstökum, sérmerktum sköttum á ferðaþjónustuna. En það er það sem er að gerast eða gerðist hér fyrir áramótin við afgreiðslu skattafrv. ríkisstjórnarinnar og á að ganga í gildi á þessu ári eða í árslok. Þetta er mér nokkurt umhugsunarefni, hæstv. forseti, að þrátt fyrir allt eru af hálfu stjórnvalda a.m.k. ekki meiri undirbúningsráðstafanir á ferðinni. Ég benti á það í umræðum hér fyrr í haust að ekkert hafði verið gert til þess að kortleggja möguleika íslensks sjávarútvegs, þaðan af síður auðvitað að styðja við bakið á þeim aðilum sem vildu nýta sér þá möguleika sem eiga að opnast á grundvelli samningsins. Stjórnin brá nú við og einhvern tíma var talað um að setja einhverjar 50 eða 100 millj. kr. í ný tækifæri sem gætu skapast um EES. Nú man ég ekki lengur hvað varð um þær. Ætli þær hafi ekki . . .  ( Forsrh: Helmingaðar.) Þær hafa verið helmingaðar, upplýsir hér hæstv. forsrh. Það var mikið happ þó að þær skyldu ekki hverfa út með öllu en það var eins og fleira hjá hæstv. ríkisstjórn að það var lagt fram með annarri hendinni og tekið með hinni ýmist allt eða hálft eins og á víst við í þessu tilviki. Mér datt í hug að þessir peningar hafi farið sömu leið og 500 millj. góðu sem sjávarútvegurinn átti að fá og var lofað á Flateyri á fundi, að sjómenn fengju eða útgerðarmenn fengju sendar í ávísunarformi innan skamms og hafa nú nokkuð látið á sér standa. Þannig hefur stefnufestan verið í þessu hjá hæstv. ríkisstjórn.
    Eitt atriði var það, hæstv. forseti, sem mikið var til umræðu hér á haustþinginu og það voru réttindi útlendinga á móti landsmönnum sjálfum til landakaupa eða jarðakaupa hér í tengslum við eða á grundvelli samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Af því varð heilmikil umræða sem óþarft er að endurtaka hér alla en nú liggur þó eitt nýtt gagn fyrir í málinu sem ekki gerði þá og það er frv. hæstv. landbrh. um aðgerðir í þessu sambandi, frv. til laga um breytingu á jarðalögunum, lögum nr. 65/1976, með síðari breytingum. Það frv. er dálítið merkilegur pappír, ekki síst í ljósi sögunnar. Það verða örugglega skrifaðar prófritgerðir í Háskólanum um þetta merka mál, einhverjir áhugasamir námsmenn á komandi árum munu örugglega gera það því að þetta er orðið hið merkasta viðfangsefni, þ.e. bæði umræðan og þróunin í sambandi við þetta jarðakaupamál og EES-samninginn. Og kórónan á sköpunarverkinu er svo auðvitað frv. landbrh. í sinni endnalegu gerð eins og það birtist. Það er margs að gæta í sambandi við það frv. Það fyrsta sem mér er náttúrlega hvað mest umhugað er að frv. staðfestir að lokum algerlega það sem ég og margir fleiri höfðum haldið fram að allt tal manna um beinar girðingar gagnvart útlendingum sem mundu gera það að verkum að Íslendingar nytu áfram með einhverjum hætti sérstöðu eða forréttinda í eigin landi afsannaðist vegna þess að frv. hæstv. landbrh. viðurkennir þá staðreynd að engar slíkar girðingar er hægt að reisa. Þær eru óheimilar samkvæmt samningnum og þeir sem muna að hæstv. landbrh. hélt ræðu á aðalfundi Stéttasambandsins, þar sem hann var enn að boða ýmsar ráðstafanir af því tagi sem gagngert mismunuðu útlendingum á móti Íslendingum í þessu sambandi, sjá að þarna hafa orðið sinnaskipti og útkoman er sú að lagt er til að engar ráðstafanir af neinu tagi séu gerðar gagnvart réttarstöðu erlendra manna við kaup á jarðnæði, engar. Hins vegar er því snjallræði samkvæmt frv. bætt inn í lögin að heimilt sé að leggja kvaðir á menn um búsetu á jörðunum í svo og svo langan tíma eftir jarðakaup. Og þetta segir auðvitað allt sem segja þarf um það að girðingar af því tagi sem menn ræddu mikið um að setja og tækju t.d. til þess að menn hefðu búið á Íslandi í svo og svo langan tíma áður en þeir gætu öðlast rétt til þess að kaupa jarðir, þeir hefðu með einhverjum öðrum hætti skapað sér slíka réttarstöðu, eru slegnar af og því hafði verið haldið fram og það stutt rökum að allt slíkt væri í reynd brot á staðfesturéttarákvæðum Rómarsamningsins og þar með samningsins um Evrópskt efnahagssvæði og stæðist ekki þegar betur væri að gáð. Frv. hæstv. landbrh. staðfestir þetta. Svo geta menn velt því heilmikið fyrir sér hversu skynsamleg þessi aðferð síðan er, hvaða hald er í henni sem frv. gengur út frá. Og ég vek athygli á því að þetta er lagt upp sem heimildarákvæði í lögunum sem engin skylda hvílir á um að beita.
    Hér er líka skilgreiningaratriði á ferð sem þyrfti að útfæra. Talað er um ,,innan eðlilegrar fjarlægðar frá viðkomandi fasteign``. Spurningin er sú hver ætlar að skilgreina þá hina eðlilegu fjarlægð o.s.frv. Ég er ekki í þeim hópi sem telur að lögfesting þessa ákvæðis mundi hafa í för með sér neinar óskaplegar breytingar. Í fyrsta lagi vegna þess að þarna eru þá heimildarákvæði á ferð og í öðru lagi vegna þess að ef einhvers samræmis á að gæta milli þess ástands sem er og hins sem við á að taka munu menn komast að raun um að það virðist ærið vandasamt að útfæra þessa nýju lagasetningu í framkvæmd og í reynd. Ætli mönnum þyki þá ekki nokkuð harðir kostir settir þeim sem kaupa sér jarðnæði eftir þessa breytingu borið saman við hina sem jarðnæðið fengu áður en hún gekk í gildi?
    Svo kemur að því sem menn hafa gjarnan gleymt í þessu sambandi og það er að það er ekki bara lagabókstafurinn sjálfur sem þarf að standast ákvæði samninganna, hvort heldur er sérákvæða EES-samningsins eða Rómarsamningsins eða Evrópuréttarins þar sem hann gildir, framkvæmdin þarf líka að vera í sama dúr. Það er alveg jafnmikið brot á EES-samningnum að framkvæma jarðalög þannig að þau mismuni eins og það væri beinlínis að setja slík mismunandi ákvæði í lög. Skylda stjórnvalda er að sjálfsögðu sú að virða ákvæði samningsins í reynd í framkvæmd. Menn hafa kannski hugsað sér að þessi 3. gr. yrði vörn því hægt væri að framkvæma hana á þann hátt að ef útlendingar keyptu jarðnæði, þá yrðu menn stífir á þeirri kröfu að þeir byggju á jörðinni næstu fimm árin. En menn sæju í gegnum fingur ef það væru Íslendingar, þá mun það aldrei ganga lengi því að sjálfsögðu munu menn kæra þá mismunun sem þar með er í reynd í framkvæmd og fá ákvæðinu hnekkt. Og þá er auðvitað kominn sá kjarni málsins með eins skýrum hætti fram í dagsljósið og yfirleitt getur orðið að þessi samningur afnemur hvers kyns sérstöðu eða forréttindi Íslendinga sjálfra gagnvart eigin landi. Það er sú óhrekjanlega niðurstaða sem frv. hæstv. landbrh., svo kostulegt sem það er að ýmsu leyti, staðfestir þannig að vonandi þarf ekki frekar um það að deila og verður vonandi ekki gert.
    Þetta er nú hins vegar það sem mönnum hefur gengið mjög illa að kyngja. Menn hafa svona platað sjálfa sig og farið í ýmsar skógarferðir til þess að reyna að halda því fram að eftir sem áður yrði með einhverjum hætti, annaðhvort í lögum eða í framkvæmd, unnt að tryggja Íslendingum sjálfum einhver forréttindi eða einhverja sérstöðu í þessum efnum. Það er ekki, frv. hæstv. landbrh. sýnir að það gengur ekki. Þá er auðvitað sömuleiðis komið að þeirri niðurstöðu í þessu máli að það eina sem með fullnægjandi hætti gat nokkurn tíma verið okkur Íslendingum sú vörn sem við þurftum í þessum efnum var varanlegur fyrirvari. Allt tal um lagasetningu fyrr eða síðar sem tryggði Íslendingun sérstöðu umfram útlendinga í þessu sambandi var á misskilningi byggt vegna þess að menn hafa þá ekki sett sig nægilega vel inn í málið eða ekki áttað sig nægilega vel á þessum grundvallarforsendum. Þá verða nú í sagnfræðiritgerðum eða lögfræðiritgerðum framtíðarinnar enn broslegri öll þau skoðanaskipti og þær deilur sem uppi hafa verið um það hvort menn hafi misst af einhverjum tækifærum á undangengum árum með því að hafa þá ekki breytt ákvæðum laga til að undirbúa hugsanlega gildistöku þessa samnings. Niðurstaðan í raun liggur fyrir jafnskýrt og hún getur gert með þessu frv. hæstv. landbrh. Það hefði að sjálfsögðu engu breytt. Það hefði verið jafnóheimilt þá eins og það er í dag eða væri jafnóheimilt í dag eins og það verður á komandi tímum að hafa nokkur þau ákvæði í gildi í lögum sem brjóta í bága við jafnræðisreglur samningsins við staðfestuákvæðin o.s.frv. Gildistaka þeirra frumvarpa, hvort hún hefði orðið á árinu 1991, 1992 eða 1993, breytir engu í því sambandi.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa öllu fleiri orð um þennan þátt málsins. Hann er á ýmsan hátt merkilegur. Það er ljóst að þarna er komið inn á svið sem er nokkuð tilfinningabundið. Mönnum er þrátt fyrir allt kannski ekki alveg sama um landið og réttindin í landinu og mönnum finnst ýmsum að þjóðin hafi ekki hokrað í 1100 ár til þess eins að gefa svo 360 eða 380 milljónum manna fullan borgarrétt með sér í landinu bara si svona með einum samningi sem ekki fæst einu sinni borinn undir þjóðina. En það er það sem í reynd gerist.
    Í öðru lagi, hæstv. forseti, ætlaði ég að nefna aðeins sjávarútvegssamninginn, fylgifisk, það fer vel á því að orða það svo, fylgifisk þessa samnings um Evrópska efnahagssvæðið, er till. til þál. um staðfestingu á samningi við Efnahagsbandalag Evrópu um fiskveiðimál og lífríki hafsins og síðan aðrar gerðir sem því fylgja og tengjast skiptum á veiðiheimildum o.s.frv. Nú er það svo að það mál er hér á dagskrá þingsins og er hjá hv. utanrmn. og kemur eflaust hér til umræðu þannig að ég mun ekki ræða það efnislega í einstökum greinum en það er auðvitað óhjákvæmilegt að það komi hér til umræðu þegar heildarsamhengi þessa máls er rætt og tengist þessu frv. um staðfestingu á samningnum sjálfum. Ég er í hópi þeirra sem telja að þessi samningagjörð við Evrópubandalagið um samskipti á sviði sjávarútvegsmála hafi tekist afspyrnuilla. Þar hafi menn samið hrikalega af sér og í raun og veru svo illa að manni er það til efs að menn hafi nokkurn tíma ætlað sér að semja þar á neinum jafnréttisgrundvelli. Auðvitað hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort þarna hafi ekki bara opnum augum eða vísvitandi og viljandi verið færðar fórnir sem hafi verið gagngert hugsaðar sem framlag af okkar hálfu inn í heildarsamhengi málsins. Svo afspyrnuilla hefur á málunum verið haldið þegar um samningana um fiskveiðimálin er að ræða.
    Það mun koma fram í nál. minni hluta sjútvn., sem sent hefur verið utanrmn., ítarlegur rökstuðningur fyrir afstöðu okkar í minni hlutanum til þessa samnings sem við teljum með öllu óásættanlegan fyrir Íslands hönd og er þar þó ekkert smámál á ferð þar sem eru samningsbundin samskipti Íslendinga og Evrópubandalagsins á þessu sviði. Menn hafa vissa tilhneigingu til að segja að þarna sé nú ekki það magn eða þær stærðir um að tefla sem skipti sköpum, en menn verða að hafa það hugfast að hér er um að ræða upphaf samningsbundinna samskipta þessara aðila á sviði sjávarútvegs og að þau skuli hefjast með jafnógæfulegum hætti og raun ber vitni þar sem öll gagnkvæmni er látin lönd og leið boðar ekki gott vegna þess að þarna er fitjað upp á framtíðarsamstarfi sem á að endurnýjast með reglubundnum hætti. Þar með er auðvitað boðið upp á það að af hálfu samningsaðilanna verði knúið á um breytingar eða útfærslu þessara samskipta með einum eða öðrum hætti, allt eins í auknu magni eins og að öðru leyti. Og það er að því leyti til sem ég held að þessi samningur eigi eftir að reynast mönnum dýrkeyptastur, ekki í sjálfu sér vegna beinna efnisáhrifa á fyrsta ári eða e.t.v. fyrstu árum heldur vegna hins að þarna er ýtt úr vör þessum samningsbundnu samskiptum Íslendinga og Evrópubandalagsins sem engin hafa verið allt frá dögum útfærslu landhelginnar og gerðar bókunar 6 þrátt fyrir umræður þar um af þeirri einföldu ástæðu að það gekk ekki saman. Íslendingar neituðu þeim kröfum Evrópubandalagsins sem uppi voru og það leiddi til þess að engir samningar voru gerðir. Og hér er auðvitað farið inn í nýjan kafla, nýja öld í þessum samskiptum með því að gera slíkan samskiptasamning og hrinda honum í framkvæmd. Ég er í engum vafa um það að væru menn spurðir að því, þeir sem hagsmuna eiga að gæta, hvort þeir vildu gera þennan samning sem sjálfstæðan gjörning ef nú svo færi, eins og ég leyfði mér nú reyndar að spyrja hæstv. utanrrh. fyrir áramót, að enginn yrði EES-samningurinn. Hann yrði sjálfdauður með einhverjum hætti að lokum sem væri nú verðugur dauðdagi eftir allt sem á undan er gengið. Hann félli ekki fyrir vopnum heldur yrði sjálfdauður að lokum, ja, hvað yrði þá með þennan samning á sviði sjávarútvegs? Vildu menn gera hann eftir sem áður? Mér liggur nú við að spyrja: Er einhver hér inni sem treystir sér til að koma í þennan ræðustól og mæla með því að þessi samningur um samskipti Íslands og Evrópubandalagsins á sviði sjávarútvegsmála yrði gerður ef okkur ræki ekki nauður til? Ég hefði gaman af að heyra þann málflutning og þann rökstuðning sem ætti að færa fyrir því að þessi samningur væri af sjálfu sér þess eðlis að við ættum að gera hann. Það er auðvitað fjarri öllu lagi og ég er alveg sannfærður um að t.d. í hópi hagsmunaaðila í sjávarútvegi fyrirfinnst ekki nokkur maður sem vill að þessi samningur verði að veruleika ef ekki verður af samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Það er svo annað mál og sjálfstætt matsatriði hvort menn líta svo á að hann geti verið réttlætanlegur fórnarkostnaður vegna ávinninga sem felist í samningnum um Evrópskt efnahagssvæði á öðrum sviðum að öðru leyti. Ég er ekki þeirrar skoðunar að sjálfsögðu. Mín afstaða liggur skýrt fyrir í þeim efnum. Ég tel að ásamt með ókostum þessa sjávarútvegssamnings og öllu hinu sem mælir gegn afgreiðslu EES-samningsins fyrir Íslands hönd þá sé það engin spurning að þessi fórnarkostnaður er of mikill.
    Það er auðvitað nokkuð vandasamt, hæstv. forseti, að ræða um þetta að sumu leyti því að hér er um að ræða býsna viðkvæma hagsmuni og samningagerð fyrir hönd Íslands í samskiptum við erlenda aðila. Það er auðvitað mjög bagalegt að um þessi mál skuli þurfa að vera sá ágreiningur sem raun ber vitni sem m.a. gerir það að verkum að ekki verður undan því vikist að ræða þá hluti opinberlega. Ef menn hefðu með einhverjum hætti getað lent þessum stóru hagsmunamálum sameiginlega og í nefndum þingsins eða annars staðar náð samstöðu, þá hefðu menn að sjálfsögðu jafnframt getað komist hjá því að umræðan opnaðist upp um viðkvæm hagsmunamál eins og þessir milliríkjasamningar eru. En ég held að það sé því miður komið fram yfir það stig og réttinum til þess að hafa skoðun á málinu og styðja hana rökum geti menn ekki afsalað sér og þess vegna verður ekki undan því vikist að þessi samningur með öllum sínum göllum, og þá er ég að tala um samninginn um fiskveiðimál, verði ræddur hér ofan í kjölinn þegar hann kemur sem dagskrármál á dagskrá þingsins væntanlega innan skamms. Ég læt þá nægja að vísa til þeirrar umræðu en vil að það komi hér fram við þetta tækifæri af því að það lá ekki fyrir með jafnskýrum hætti og það gerir nú þegar málið var til 1. umr. að þær áhyggjur sem menn höfðu af þessum þætti málsins, þ.e. samningnum um sjávarútvegsmál, reyndust því miður síður en svo of miklar. Niðurstaðan er á margan hátt verri en maður gerði sér þá vonir um að yrði.
    Að lokum, hæstv. forseti, ætlaði ég að ræða lítillega meðferð þessa máls sem meiri hluti á Alþingi eða a.m.k. hæstv. ríkisstjórn hyggst knýja fram til afgreiðslu á næstu dögum ef marka má yfirlýsingar og að sjálfsögðu hefur það sinn gang. Vilji meiri hlutans ræður hér ferðinni og endurspeglast væntanlega að lokum í atkvæðagreiðslum um málið. Enn eru þó tækifæri til þess, ef menn hafa yfir höfuð áhuga á því að reyna að ná að einhverju leyti saman eða a.m.k. draga úr átökunum um þetta mál, þá eru auðvitað enn færar leiðir í þeim efnum. Og sú leið sem ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um að væri farsælust, skynsamlegust og stórmannlegust á allan hátt væri sú að Alþingi Íslendinga sameinaðist um það við afgreiðslu frv. um gildistöku samningsins að setja þar inn gildistökuákvæði sem væri skilyrt þannig að samningurinn öðlaðist þó ekki gildi fyrr en hann hefði verið samþykktur í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrir því eru auðvitað fordæmi að ganga þannig frá málum. Það er á ýmsan hátt ekkert síður rökrétt að form þjóðaratkvæðagreiðslunnar sé með beinum hætti þannig úr garði gert að það sé kosning um hvort gildistökuákvæði viðkomandi máls hefjist eða ekki. Það er auðvitað líka hægt að ganga frá því með sjálfstæðri ályktunartillögu að málið sé borið undir dóm þjóðarinnar, og er ekkert óvenjulegt að gildistökuákvæði séu skilyrt með einum eða öðrum hætti. Ein skilyrðing af því tagi væri einfaldlega meiri hluti í almennri atkvæðagreiðslu meðal þjóðarinnar.
    Nú liggur það fyrir eins vel og yfirleitt getur orðið að skoðanir eru ákaflega skiptar með þjóðinni um þetta mál, ekki bara hér á Alþingi og ekki bara meðal hagsmunasamtaka og fjölmargra slíkra aðila, heldur meðal almennings sjálfs. Það liggur fyrir bæði samkvæmt skoðanakönnunum og væntanlega eru menn það dómbærir á það í gegnum ósköp einfaldlega samtöl sín við fólk úti í þjóðfélaginu að þeir fallast þó a.m.k. á það og geta samþykkt það að um málið eru ákaflega skiptar skoðanir. Og ég held að það liggi nú þannig að þegar svo ber við og á ferðinni eru jafngeysilega afdrifarík mál eins og hér er, þá sé reynslan sú að langfarsælasta leiðin fyrir eina þjóð til þess að ganga frá slíkum málum séu kosningar. Ég er alveg viss um að þær kosningar yrðu tvísýnar og ætla enga spádóma að hafa uppi um það á hvorn veginn þær færu. Mér hefur virst að það lægi frekar á þá hliðina að meiri hluti þjóðarinnar væri andvígur þessu máli, að meiri hluti þjóðarinnar vildi fara varlegar í þessum efnum heldur en hér er gert ráð fyrir. Og ég væri tiltölulega bjartsýnn á það að mín sjónarmið eða sambærileg þeim sem ég hef talað fyrir yrðu þar í meiri hluta. En það er ekki aðalatriði málsins. Ég held að við séum að komast á það stig með þetta mál, ef það þá einhvern tíma verður, að það sé ekki seinna vænna en að spyrja sig þeirrar spurningar hvernig við getum best farið með þann ágreining sem uppi er með þjóðinni um þetta mál, hvernig getum við leitt hann til lykta. Það er enginn vafi í mínum huga að skynsamlegasta ráðstöfunin væri þjóðaratkvæði. Við ætlum okkur væntanlega að búa áfram við niðurstöðuna á hvorn veginn sem hún verður. Við þurfum að reyna að ná saman á nýjan leik um okkar hagsmunamál og það mun að sjálfsögðu verða léttara ef allir hafa það á hreinu að gripið var til þeirrar lýðræðislegustu aðferðar sem til er til þess að ráða hinni endanlegu niðurstöðu í málinu. Nú hafa aðstæðurnar sömuleiðis skapast til þess að framkvæma slíka kosningu. Nú liggur það fyrir að samningurinn tekur ekki gildi fyrr en um mitt þetta ár í fyrsta lagi. Þar af leiðandi er ekkert tæknilega eða efnislega því til fyrirstöðu að taka sér þann tíma sem þarf til að undirbúa og framkvæma þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Niðurstaða úr slíkri atkvæðagreiðslu getur legið fyrir löngu fyrir þann tíma að aðrar þjóðir þurfa að ganga frá málinu hjá sér og hvort Ísland yrði þarna með eða ekki með mundi þá engin áhrif þurfa að hafa á það að samningurinn gæti tekið gildi gagnvart öðrum. Þetta hefur niðurstaða atkvæðagreiðslunnar í Sviss gert að verkum að nú eru ekki þau rök gegn kosningum um málið að það gæti tafið gildistöku þess eða orðið öðrum sem í samningaferlinu standa með okkur til trafala á nokkurn hátt. Og það er auðvitað mjög merkilegt ef það er virkilega þannig að í röðum stjórnarmeirihlutans hér á Alþingi, ég ætla nú að hafa hæstv. ríkisstjórn svona utan við sviga í þeim efnum, en ég segi nú í röðum stjórnarmeirihlutans, þingmannastjórnarliðsins hér á Alþingi, eru engar efasemdir í þessum efnum eftir að þeir hlutir hafa gerst sem raun ber vitni á sl. ári, bæði í Danmörku, Sviss og voru næstum orðnir í Frakklandi af öllum löndum þar sem Evrópusamruninn hefur líklega átt mestan hljómgrunn allra ríkja og var Maastricht--samkomulagið nærri fallið. Er mönnum það ekkert umhugsunarefni gagnvart því spori sem þeir eru á að keyra svo svona hluti jafnumdeildir og þeir eru hér í gegn með mjög tæpum meiri hluta á Alþingi ef hann verður fyrir hendi og án þess að bera þetta í dóm þjóðarinnar sem vill fá að kjósa um þetta og hefur ályktað um það? Ég held að allar þessar aðstæður í málinu mæli fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðslan færi fram. Ég er alveg sannfærður um að það mundi verða farsælast fyrir Íslendinga að ráða málinu þannig til lykta, það mundi veitast þeim málsaðilanum sem undir yrði ef svo má að orði komast miklu auðveldara að sætta sig við þá niðurstöðu og jafna sig á henni ef það lægi fyrir að hún hefði orðið, hún hefði ráðist í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu allrar þjóðarinnar.
    Efasemdirnar um stjórnarskrána verka auðvitað á menn í þessu sambandi. Þó að þeim efasemdum verði ekki eytt í sjálfu sér með kosningum til eða frá, þá er það nú þó þannig að þá bæri meiri hluti þjóðarinnar ábyrgð á því með tilteknum hætti hvernig málið hefði verið afgreitt og sá stuðningur lægi þó a.m.k. fyrir. Ég held að menn hljóti auðvitað í ljósi breyttra aðstæðna og nú þegar málið verður rætt á komandi dögum hér á þinginu fyrir endanlega afgreiðslu þess að fara enn á ný yfir þennan möguleika. Ég er alveg viss um það að ef maður ætti að ráða hæstv. ríkisstjórn og hæstv. forsrh. heilt og það væri eitthvað sem maður gæti bent á sem gæti nú e.t.v. virkilega blásið lífsanda í nasir stjórnartetursins, þá væri það auðvitað það að hafa manndóm í sér til að leggja þetta mál að lokum í þjóðaratkvæði og ef stjórnin ynni, þá mundi hún auðvitað stórkostlega styrkja sína stöðu með því. Ég get að vísu ekki flutt þetta sem hollráð af minni hálfu vegna þess að ég tel það miklar líkur á því að stjórnin mundi tapa, að í þeim skilningi sagt

get ég ekki sagt við hæstv. forsrh.: Þarna átt þú stóran leik. En þá er maður líka kominn að hinni hlið málsins og hún er: Vill hæstv. forsrh. leiða ríkisstjórn og stjórnarmeirihluta hér sem með naumum meiri hluta knýr í gegn svona mál, hafandi það á samviskunni e.t.v. að meiri hluti þjóðarinnar sé andvígur því? Er hægt að óska nokkrum manni slíks hlutskiptis? Ég vil það a.m.k. ekki þannig að ég tel að það sé í raun og veru holl ráð í öllum skilningi að leyfa þjóðinni að lokum að ráða niðurstöðu málsins.
    En það hlýtur svo að hafa sinn gang. Við getum ekki annað gert hér af okkar hálfu en að flytja okkar rök í málinu. Hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi verður svo að lokum að taka sína ákvörðun.
    Hæstv. forseti. Ég held að ég geymi mér það sem ég hafði ætlað að öðru leyti að ræða um sérstaklega þangað til samningurinn um sjávarútvegsmál kemur á dagskrá. Ég tel að þá sé að mörgu leyti eðlilegra að ræða við það tækifæri ýmis önnur atriði þessa máls sem tengjast sjávarútveginum sérstaklega og mér er nokkuð umhugað um. Ég held að þrátt fyrir að hagsmunir sjávarútvegsins séu nú gjarnan tíndir til og nefndir sem helsta röksemdin fyrir því að við eigum að ganga inn í þetta samstarf, þá hafi sorglega lítið farið fyrir beinum rökstuðningi, tillöguflutningi eða aðgerðum í því sambandi og ég hef sjálfur miklar efasemdir um að það mál sé jafneinfalt og einhliða í þágu íslensks sjávarútvegs eins og stundum er látið. En ég held að ég geymi mér að ræða um þá þætti málsins þangað til sjávarútvegssamningurinn liggur fyrir. Ég vil einnig gjarnan heyra svör hæstv. forsrh. fyrr en seinna í umræðunni varðandi það sem ég spurði hann um og áskil mér þá rétt til þess að taka þátt í umræðunni á nýjan leik ef þau kynnu að gefa tilefni til slíks.