Evrópskt efnahagssvæði

92. fundur
Mánudaginn 04. janúar 1993, kl. 15:05:33 (4254)

     Frsm. 3. minni hluta utanrmn. (Ólafur Ragnar Grímsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er mjög athyglisvert ef hv. þm. Finnur Ingólfsson treystir sér ekki til þess að svara spurningu minni. Hann kaus í staðinn að ásaka mig fyrir það að ég væri nú með aðra afstöðu en ég hefði haft þegar ég var í ríkisstjórn. Það skeyti hittir ekki fyrst og fremst mig. Það skeyti hittir fyrst og fremst formann Framsfl., hv. þm. Steingrím Hermannsson, vegna þess að það vill nú svo til að við ætlum að greiða atkvæði eins í þessari atkvæðagreiðslu, ég og hv. þm. Steingrímur Hermannsson. Ef hv. þm. Finnur Ingólfsson vill velja mér þessi orð þá fara þau beint fram hjá mér og í það sæti í þingsalnum þar sem hv. þm. Steingrímur Hermannson situr og ég læt hann um að svara fyrir það.
    Fyrst að þingmaðurinn kaus að endurtaka hvað eftir annað í sinni ræðu að þar eð hér sæti ríkisstjórn undir forustu utanrrh. og forsrh. gæti hann ekki stutt samninginn spurði ég hann einfaldlega hvort hann væri reiðubúinn að styðja samninginn ef hér sæti önnur ríkisstjórn undir forustu manna sem honum væru geðþekkari. Hvort það væri virkilega þannig að persónurnar í ríkisstjórninni og þeirra afstaða réði því að þingmaðurinn kysi að sitja hjá og greiddi ekki atkvæði með samningnum. Þessu svaraði þingmaðurinn engu. Mér finnst það satt að segja alveg furðuleg afstaða og er ég þá ekki að bera neitt blak af hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. Þeir eru alveg einfærir um það. En það er satt að segja alveg furðuleg afstaða í þessu stórmáli að ætla að skjóta sér á bak við pólitískan persónuleika þeirra manna sem nú sitja í ráðherrastól í atkvæðagreiðslu um þetta mál. Menn verða að hafa dug til þess að vera með og á móti þessum samningi á efnisforsendum hans.