Evrópskt efnahagssvæði

92. fundur
Mánudaginn 04. janúar 1993, kl. 15:58:14 (4260)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. vakti máls á nokkrum spurningum um stöðu okkar Íslendinga í þessu samstarfi í ljósi þess að fyrir liggja aðildarumsóknir annarra EFTA-ríkja að Evrópubandalaginu. Þetta er mál sem hefur þegar verið ítarlega rætt og skoðað. Það er hægt draga upp af þessu þá mynd að ef langvarandi dráttur verður á því að Evrópska efnahagssvæðið komi til framkvæmda, að samningurinn um það nái gildistöku, þá gerist það einhvern tíma á þeirri vegferð að hagur hinna EFTA-ríkjanna af samkomulaginu um EES minnkar og gæti jafnvel horfið ef þau sjá fram á að aðildarsamningarnir gangi það greiðlega að

þeir geti komið í staðinn. Það er ástæðan fyrir því að við erum nú komin á seinasta snúning með þetta mál sem eina EFTA-ríkið sem ekki hefur þegar staðfest þennan samning þrátt fyrir ítarlegri umræður en dæmi eru um annars staðar.
    Staða málsins er núna þessi: Það er stefnt að því að ná samkomulagi um viðbótarbókun sem tekur á þeim málum sem varða brottfall Sviss. Ákvörðun um þessa bókun þarf að taka í þessum mánuði. Stefnt er síðan að því að halda ríkjaráðstefnu aðildarríkjanna til þess að ganga formlega frá henni. Þessa viðbótarbókun þarf að leggja fyrir öll þjóðþingin og Evrópuþingið til staðfestingar. Áhætta hinna ríkjanna af því að ganga frá þessari viðbótarbókun án þess að Ísland hafi staðfest samninginn er út frá þeirra bæjardyrum, eins og þau hafa gert grein fyrir, mjög veruleg. Þ.e. að fara í það að endurtaka þetta ferli og þurfa hugsanlega að endurtaka það aftur. Það er ástæðan fyrir því að tíminn er nú útrunninn.
    Ef þetta gengur hins vegar þannig að samningurinn nái gildistöku við fyrsta mögulegt tækifæri að lokinni slíkri viðbótarbókun, þá er ekki ástæða til að óttast að hagsmunir hinna ríkjanna séu ekki slíkir að þau vilji ekki ná EES-samningnum. Kostnaður þeirra við þessar stofnanir er þrátt fyrir allt það lítill í samanburði við þann kostnað sem þau hefðu af aðild.
    Málið er því einfaldlega það að samningurinn liggur fyrir og ef hann verður staðfestur verður þessum stofnunum komið á fót. Ég er ekki í nokkrum vafa um að kostnaðurinn mun ekki koma í veg fyrir að það verði. Ávinningur annarra EFTA-ríkja er þrátt fyrir allt mikill af því að ná þessum samningi ef það stenst að aðildarumsóknarferlið taki þá um það bil tvö ár hið skemmsta. Um ávinning okkar af því að ná þessum samningi þarf ég ekki að orðlengja, en hið alvarlegasta í stöðunni er það að við einir EFTA-ríkjanna eigum ekki annarra kosta völ. Eins og fram kom í svörum hæstv. forsrh. áðan þá höfum við ekki í hyggju að sækja um aðild. Ef þessi samningur nær ekki gildistöku, þá erum við án samningsgrundvallar um brýnustu hagsmuni okkar við Evrópubandalagið.