Evrópskt efnahagssvæði

92. fundur
Mánudaginn 04. janúar 1993, kl. 16:04:21 (4262)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. gefur sér þá forsendu að önnur aðildarríki EFTA en Ísland nái samningum við Evrópubandalagið og verði þar fullgildir meðlimir í náinni framtíð. Það er út af fyrir sig afar líkleg niðurstaða. Spurningin er: Hvenær ná þeir þessari niðurstöðu? Verður það á árinu 1995 eða verður á því frekari dráttur? Eða er jafnvel hugsanlegt að samningum verði hraðað enn frekar, eins og yfirlýsingar hafa heyrst um af hálfu formennskulands EB núna, Danmerkur, að þeirri pólitíski vilji standi til? Hvenær sem það verður, og við því er ekkert svar, þá gerum við ráð fyrir því að eftir að hin EFTA-ríkin eru orðnir fullgildir aðilar, þá breytist samningurinn að því er Ísland varðar í það að vera í reynd tvíhliða samningur. Í stað ákvæða samningsins um eftirlitsstofnun og dómstól komi annað fyrirkomulag, einhvers konar eftirlit í líkingu við það sem við þegar þekkjum við framkvæmd fríverslunarsamnings við Evrópubandalagið. Um leið og þessar þjóðir væru orðnir fullgildir aðilar væri með öðrum orðum þeirra kostnaður við rekstur þessara stofnana lagður af og stofnanirnar reyndar sjálfar líka og miklu viðaminna kerfi tæki við svo sem eðli málsins segir sjálft.
    Þetta hefur verið rætt bæði við fyrrv. utanríkisráðherra framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins, Andriessen, og þetta hefur verið rætt við fyrrv. forseta ráðherraráðs Evrópubandalagsins, Douglas Hurd. Þeir hafa gefið þau svör að þetta sé skilningur þeirra á því hvernig líklegast er að verði á þessum málum tekið í framtíðinni að gefnum forsendum um þessar breytingar.