Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 13:06:22 (4280)

     Frsm. 3. minni hluta utanrmn. (Ólafur Ragnar Grímsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að mega koma hér áður en fundarhlé er gert en það er sérstaklega vegna þess að nauðsynlegt er þegar umræður halda áfram að hæstv. utanrrh. skýri það fyrir þinginu hvers vegna hann hefur farið með rangt mál varðandi ríkjaráðstefnu EFTA og Evrópubandalagsins um framhald samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Það kom fram í morgun, en þá var utanrrh. víst fjarverandi, að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson rakti að nú hefur það verið staðfest af hálfu Evrópubandalagsins að engin slík ríkjaráðstefna er fyrirhuguð í janúarmánuði. Hæstv. utanrrh. er hins vegar búinn að segja það hvað eftir annað á Alþingi og á opinberum vettvangi að Alþingi verði að afgreiða þennan samning nú vegna þess að slík ríkjaráðstefna sé fyrirhuguð í janúarmánuði og gott ef hann hefur ekki meira að segja dagsett hana á sínum tíma og nefnt dagsetninguna 9. eða 10. jan. í því sambandi. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál þegar hæstv. utanrrh. fer með rangfærslur af þessu tagi og sér ekki sóma sinn í því að leiðrétta þær á Alþingi.
    Ég vildi óska eftir því að það hlé sem skapast í umræðunni í kringum hádegisbilið verði notað til þess að forráðamenn ríkisstjórnarinnar gangi í það að hæstv. utanrrh. skýri frá hinu rétta þegar umræður hefjast á ný. Það er auðvitað ekki líðandi að utanrrh. lýðveldisins segi þjóðþinginu og þjóðinni rangt frá hvað eftir annað. Það kom fram í morgun að í fréttabréfi Evrópubandalagsins, sem kemur út daglega, frá 19. des. kemur fram að stefnt sé að því að halda þessa ríkjaráðstefnu í mars á næsta ári. Starfsmenn Evrópubandalagsins staðfestu það við hv. þm. Hjörleif Guttormsson í morgun eins og hann greindi frá að engin eru áform uppi um það að halda slíka ríkjaráðstefnu í janúar. Og þá fyrst verður hægt að ræða um dagsetningu hennar þegar utanríkisráðherrar Evrópubandalagsins hafa á ný komið saman til fundar í febrúarmánuði.
    Allt það sem utanrrh. hefur sagt á þjóðþinginu um málið, í fjölmiðlum, í viðræðum við forustumenn þingflokkanna þegar menn hafa verið að reyna að koma sér saman um vinnubrögð á þinginu, kemur í ljós að eru ósannindi, svo að maður noti rétta orðið yfir það. Eru bara hrein og klár ósannindi. Ég vil þess vegna mælast til þess að þetta mál verði tekið til skoðunar og hæstv. utanrrh. í framhaldi af því sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson óskaði eftir í morgun, en þá var utanrrh. ekki mættur, geri þinginu grein fyrir því hvers vegna hann greindi rangt frá, dragi fyrri orð sín til baka, biðjist afsökunar á framgöngu sinni og skýri frá hinu rétta í málinu. Því ef það er staðreynd, sem fram kemur í gögnum Evrópubandalagsins, að enginn slíkur fundur verður í janúar og líklegast ekki fyrr en í mars, þá er auðvitað allur málatilbúnaður ráðherrans í þessu á undanförnum vikum með ólíkindum.