Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 13:16:57 (4284)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það þjónar satt að segja ákaflega litlum tilgangi að birta upplýsingar á Alþingi Íslendinga ef þær eru aðeins tilefni til þess að snúa út úr þeim og leggja þær út á allt annan veg heldur en tilefni er til. Það hefur legið fyrir frá upphafi að ríkjaráðstefnan sem slík með vísan til samningsins sjálfs verður ekki boðuð fyrr en fyrir liggur að undirbúningi hennar er lokið með samkomulagi um tillögur til þess að leggja fyrir hana. Hún er staðfesting á niðurstöðu á ferli.
    Ég endurtek að það hefur aldrei af minni hálfu verið neitt fullyrt um það hvenær þessi ríkjaráðstefna yrði haldin, en því var lýst yfir af hálfu formennskulands EB að það stefndi að því að halda hana eins fljótt og unnt væri og jafnvel í janúar.
    Að því er varðar stöðu málsins og stöðu Íslands hér heima þá er það líka alrangt að þeir fundir sem ég var að vísa til væru einhverjir reglubundnir, venjubundnir embættismannafundir sem kæmu þessu máli nánast ekkert við. Það sem ég var að segja var einfaldlega það að það er stefnt að því á þessum fundi sem boðaður er 14. jan. að aðalsamningamenn geti þá gengið frá samkomulagi að texta viðbótarbókunar sem fær síðan framhaldsumfjöllun á fundi fastafulltrúa og þarf síðan að leggja fyrir ráðherraráð Evrópubandalagsins. Það þarf verulegan undirbúning áður en það er gert.
    Þannig að ég endurtek, virðulegi forseti, það er lítil ástæða til þess að birta upplýsingar um áformaða fundaröð ef það er hv. þm. einungis tilefni til þess að snúa út úr, rangfæra og mistúlka.