Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 13:23:13 (4286)

     Frsm. 3. minni hluta utanrmn. (Ólafur Ragnar Grímsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þetta hér vegna þess að kjarni málsins hefur alveg komið fram. Ég hef ekki rangtúlkað hæstv. utanrrh. Málið hefur snúist um það hvort það væri einhver ákveðin dagsetning sem væri þess eðlis að fyrir þá dagsetningu yrði Alþingi Íslendinga að hafa lokið staðfestingu EES-samningsins ef fulltrúar Íslands ættu að hafa fullt umboð á viðkomandi fundi. Utanrrh. byrjaði fyrst að segja að þetta yrði að gerast fyrir jól, síðan sagði hann fyrir áramót, svo sagði hann fyrir 9. eða 10. janúar.
    Nú er það komið fram að það er engin slík dagsetning. Það er enginn slíkur fundur ákveðinn. Það er kjarni málsins, hæstv. utanrrh. Það sem ég sagði um vinnuferlið var það að þeir fundir sem hæstv. utanrrh. lýsti eru eðlilegir vinnufundir embættismanna í aðdraganda þess að einhver slíkur formlegur fundur verði haldinn á næstu vikum eða mánuðum. Það liggur fyrir.
    Þess vegna er það auðvitað mjög mikilvægt varðandi störf þingsins að menn átti sig á því að þessi eilífi dagsetningaleikur utanrrh. er bara sjónarspil. Hann hefur verið að ,,terrorisera`` þingið, svo ég noti það orðalag, frá miðjum desember, heimtað hér afgreiðslu mála fyrir jól fyrst, svo fyrir áramót, núna fyrstu dagana í janúarmánuði, í skjóli einhverra slíkra dagsetninga. Nú er það komið fram að það eru engar slíkar dagsetningar. Nú heldur hann sig við dagsetninguna 14. jan.
    Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Getur hann sagt það hér skilyrðislaust að sendiherra Íslands, samningamaður, Hannes Hafstein, fái ekki aðgang að þessum fundi 14. jan. nema Alþingi sé búið að staðfesta EES-samninginn? Hefur einhver sagt það af hálfu EFTA eða EB? Nei, það hefur enginn sagt það af hálfu EFTA eða EB.
    Þannig að þessi nýjasta dagsetning í leikritinu, 14. jan., hún er auðvitað jafnmarklaus og allt hitt.
    En hvað segir Evrópubandalagið? Það kemur fram 19. des. í fréttablaðinu Europe. Þar stendur undir dálknum ,,Evrópubandalagið, EFTA og Evrópska efnahagssvæðið`` að ríkjaráðstefnan til þess að ræða hvað gerist varðandi EES-samninginn í framhaldi af þjóðaratkvæðagreiðslunni í Sviss verður haldin í mars, virðulegi þingheimur. Það hefðu þótt tíðindi á Íslandi þegar menn voru búnir að hlusta á utanrrh. á undanförnum vikum.