Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 13:26:00 (4287)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég vek athygli hæstv. forseta á því að þessi umræða fer fram undir dagskrárliðnum gæsla þingskapa og væntanlega er tilgangurinn sá af hálfu hv. þingmanna Alþb. að beina því til forseta að þinghald sé óþarft af þeirri einföldu ástæðu að ekki sé búið að negla niður dagsetningu á ríkjaráðstefnu.
    Ég endurtek að það er til lítils að flytja úr ræðustóli upplýsingar um áformaða röð funda til þess að leysa það mál sem við öll vitum að bíður lausnar ef jafnframt er sagt: Það er bara ekkert að marka, það er bara ekkert að marka.
    En það eina sem ég get sagt af því tilefni er þetta: Í gær fól ég embættismönnum mínum að hafa samband við utanríkisviðskiptaráðuneyti hinna EFTA-ríkjanna og sérstaklega forustulands EFTA, Svíþjóðar, sem og við fulltrúa okkar gagnvart framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins. Ég hef þegar nefnt hvaða fundir eru áformaðir. Meginverkefni þess fundar sem haldinn verður um miðjan mánuðinn er, samkvæmt þeim upplýsingum, að staðfesta að framkvæmdastjórn stefnir að því að staðfesta og leggja formlega fram tillögur sínar um lausn fyrir aðildarríki Evrópubandalagsins. Ef það á að takast þá verður það að liggja fyrir að EFTA-ríkin séu öll á sama báti, þ.e. að þau hafi staðfest þetta mál, ella getur þetta ekki gengið fyrir sig. Það sem þeir hv. stjórnarandstæðingar vilja þess vegna reyna að sanna, þ.e. að ekki er búið að finna dagsetningu fyrir ríkjaráðstefnu, sannar nákvæmlega ekki neitt. Það verður ekki boðað til neinnar ríkjaráðstefnu til þess að staðfesta formlega orðið samkomulag fyrr en samkomulagið er orðið á undirbúningsfundum og að því er stefnt um miðjan mánuðinn. Ef Íslendingar eru þá enn í sömu sporum í framhaldi af þeirri umræðu sem hér hefur farið fram, þannig að Alþingi hafi ekki náð því að afgreiða þetta mál fyrir þann fund, þá endurtek ég að þá hefur það auðvitað keðju afleiðinga. Auðvitað er öllum ljóst að þessum hv. málþófsmönnum er mjög í mun að koma í veg fyrir það að Ísland geti notið þeirra kosta sem fylgja aðild Evrópsks efnahagssvæðis. En menn eiga að gera greinarmun á einu, þ.e. þeirri pólitísku afstöðu hv. þm. sem liggur fyrir, að þeir eru andvígir þessu samkomulagi, og hins vegar spurningunni um viti borin vinnubrögð á Alþingi Íslendinga, og spurningin um hvort meiri hluti á Alþingi Íslendinga fær yfirleitt fram komið því að mál verði afgreidd leiði til niðurstöðu. Ég tala nú ekki um þegar um er að ræða mál sem varðar einhverja mestu þjóðarhagsmuni Íslendinga í samstarfi við aðrar þjóðir.