Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 13:59:59 (4289)

     Hjörleifur Guttormsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ég hafði óskað eftir að fá orðið um þingsköp áður en matarhlé var gert. Ég hélt að ég væri á skránni hjá hæstv. forseta. Ég hef í máli mínu á þessum fundi beint orðum mínum til hæstv. forseta varðandi þetta efni, en af því að hæstv. utanrrh. hefur tengst því máli og kom hér inn í umræðuna áðan, þá fyndist mér nú nokkur rök fyrir því að hæstv. utanrrh. væri við til þess að hlýða á mál mitt ef forseti telur það ekki óeðlilega ósk af minni hálfu. ( Forseti: Samkvæmt þingsköpum mundi hv. þm. eiga að beina orðum sínum til forseta um gæslu þingskapa, það sem snýr að forseta, en forseti getur svo sannarlega látið hæstv. utanrrh. vita að hv. þm. vilji gjarnan að hann sé hér staddur og meira getur forseti ekki gert í þeim efnum.) Ég þakka virðulegum forseta. Má ræðumaður doka við hér í stólnum þangað til sést hvort utanrrh. er væntanlegur í þingsal? ( Forseti: Hæstv. utanrrh. veit af þessu máli.) Er hæstv. ráðherra væntanlegur í þingsalinn? ( Forseti: Forseti fékk þau skilaboð að hæstv. utanrrh. viti af því að hv. þm. vilji gjarnan að hann sé hér í salnum. --- Forseta sýnist nú allt útlit fyrir að hæstv. utanrrh. komi ekki í salinn og vildi því biðja hv. þm. að fara nú að hefja sína ræðu um gæslu þingskapa svo forseti geti farið að setja tímaklukkuna af stað og við getum nýtt betur tímann.)
    Virðulegur forseti. Ég skal fúslega verða við þeirri ósk forseta. Ég hef dokað hér við með samþykki forseta að ég tel og er að sjá hvort hæstv. ráðherra sem ber ábyrgð á því máli sem er hér á dagskrá, eina dagskrármáli fundarins, láti sjá sig. Ég á frekar von á því að það verði óskað nærveru hans af þeim ræðumönnum sem eru hér næstir á mælendaskrá þannig að við tefjum ekki tímann mikið, en ég lýsi nokkurri undrun yfir því að hæstv. ráðherra skuli ekki vera hér við framhaldsumræðu málsins.
    En það sem ég vildi ræða við hæstv. forseta varðar þær staðhæfingar sem fram hafa verið bornar af hæstv. ráðherra við þingið og við forustu þingsins að það sé nauðsyn á því að ljúka staðfestingu þessa samnings af hálfu Alþingis vegna væntanlegrar ríkjaráðstefnu. Ég vísaði til ummæla ráðherrans 21. des. sl. í morgun þegar ég vakti athygli á þessari stöðu málsins en nú hef ég litið í ræðu ráðherrans frá 15. des. við 2. umr. þar sem ráðherrann talaði alllangt mál og ég vil beina því til hæstv. forseta að forseti kynni sér það sem þá var sagt af hálfu hæstv. ráðherra um hina brýnu nauðsyn að lögfesta málið fyrir jól og fyrir áramót í öllu falli vegna væntanlegrar ríkjaráðstefnu í byrjun janúarmánaðar eða snemma í janúarmánuði. Það liggja hér fyrir ummæli ráðherrans og áherðingar og brýningar gagnvart þinginu að ljúka þessu máli vegna þessarar ríkjaráðstefnu. Ég ætla ekki að taka hér tíma til þess að rekja öll þau ummæli. Þau er víða að finna í ræðu ráðherrans. Hann talar þar um að hér séu eingöngu tæknilegar breytingar á ferðinni og hann segir um ráðstefnuna og ég leyfi mér að vitna í það.
    ,,Það er efni þeirrar ríkjaráðstefnu sem væntanlega verður kölluð saman í janúar. Fjöldi þeirra ríkja verður að liggja fyrir á þeirri ráðstefnu stjórnarerindreka sem fyrirhuguð er til þess að unnt sé að ganga

frá þessari bókun. Svo einfalt er nú það. Það er ástæðan fyrir því að það er nauðsyn að við höfum lokið þinglegri afgreiðslu þessa máls fyrir áramót til þess að vera við því búin ef þessi ríkjaráðstefna verður haldin snemma í janúar.``
    Og síðan er þetta áfram í ræðu ráðherrans staðhæfingar af þessu tagi um hina brýnu nauðsyn. Ég taldi nauðsynlegt að vekja athygli hæstv. forseta á þessu um leið og ég minni á að þetta frv. yrði ekki marktækt sem lög frá þinginu vegna þess að samningurinn er markleysa á meðan hann hefur ekki verið endurskoðaður og lagður fyrir að nýju. Og í 26. gr. stjórnarskrárinnar segir, ég leyfi mér að vitna í hana að lokum, virðulegur forseti:
    ,,Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrv., skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrv. staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sín.``
    Ég vek, virðulegur forseti, athygli á þessari grein stjórnarskrárinnar og þar með í rauninni alvöru þess að hugmyndin er að knýja hér fram og lögfesta frv. sem ekki er marktækt og síðan ber samkvæmt stjórnarskránni að leita staðfestingar forseta lýðveldisins á lögunum innan hálfs mánaðar frá samþykkt þess á Alþingi.
    Ég treysti því, virðulegur forseti, að forseti og forusta þingsins, forsætisnefnd, taki þetta mál til gaumgæfilegrar yfirvegunar nú þegar.