Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 15:29:57 (4296)

     Eyjólfur Konráð Jónsson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Hv. þm. Tómas Ingi Olrich fór að kenna okkur ný þingsköp að mér virtist vera og gagnrýna málflutning hv. þm. Stefáns Guðmundssonar algerlega að ósekju. Hann gerði ekkert það sem við gerum ekki öll, að reyna að skýra mál sitt sem gleggst og best einmitt með tilvitnunum í helstu fræðimenn. Ég tel ekki að það hafi verið neitt athugavert við þau vinnubrögð. Það er sagt að þetta sé eitt viðkvæmasta og mikilvægasta mál þjóðarinnar og það er rétt. Þess vegna er sjálfsagt að reyna að skiptast á skoðunum öfgalaust og nota þau gögn til þess sem handhægust eru og nærtækust. Það er algerlega úr lausu lofti gripið að gagnrýna hvort heldur forseta eða við gagnrýnum hvert annað á þeim forsendum að við notum ekki eðlileg gögn til þess að greina frá okkar sjónarmiðum.
    Ég skal ekki tala mikið lengur um það. Þessi þingsköp tel ég eðlileg. Hitt er alveg sjálfsagt að þingmenn hafi verulegar áhyggjur. Það hef ég svo sannarlega og við ábyggilega öll sem hér erum inni. Sumir mæta nú lítið og sjaldan og kannski þeir sem síst skyldu og hefðu mesta þörf fyrir að læra eitthvað en eru fyrir fram búnir að ákveða hvernig þeir ætla að nota sitt atkvæði þegar að þeirri örlagastund líður við 3. umr. málsins, ef það kemst til hennar, að menn verða að gera upp við sig hvort þeir skilja jafneinfaldan hlut og 2. gr. stjórnarskrárinnar. Hver einasti maður sem tekur hana upp og les hana hann veit að það er verið að fremja stórkostlegt brot á stjórnarskránni. Hann veit það í hjarta sínu. Ætlar hann engu að síður að styðja málið?