Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 17:01:28 (4307)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi er meginreglan um fullt fjármagnshreyfingafrelsi hvað varðar langtímafjármagnshreyfingar bundin í íslensk lög, nánar tiltekið þau sem samþykkt voru 11. nóv. 1992. Í þeim lögum er heimild til þess að fresta þessu þar til samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur gengið í gildi eða til loka ársins 1993. Það er rétt hjá hv. þm. að það var ákveðið að nota þetta heimildarákvæði laganna nú um áramótin með vísun til þess að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði hefur ekki tekið gildi. Það er að sjálfsögðu líka gert í varúðarskyni og ég get sannarlega ítrekað að mikil ástæða er til að fara hér fram af fyllstu varúð. Það verður líka gert, bæði í gjaldeyrismálum og í málefnum ríkisbankanna sem og hv. þm. vitnaði til.
    Í öðru lagi kom það fram í máli mínu áðan að til þess að fullnægja þeim kröfum um eiginfjárhlutfall sem Alþingi hefur í lög fest fyrr á þessu ári, reyndar samhljóða eins og gjaldeyrislögin, var vissara að haga málum svo að Landsbankinn tæki víkjandi lán. Það kann að vera að við þurfum að huga betur að því hvernig hægt er að ganga enn betur frá því máli. Að því vinna stjórnendur Landsbankans, bankaráð hans og bankastjórn og munu leggja fyrir ríkisstjórnina skipulega áætlun um umbætur og hagræðingu í rekstri bankans, bæði hvað varðar rekstur og efnahag þannig að hann fullnægi öllum slíkum kröfum.