Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 17:06:02 (4310)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get undir það tekið sem fram kom hér að það er nokkur munur á því hver rósemi hugarfarsins er annars vegar hjá hæstv. utanrrh. og hins vegar hæstv. viðskrh. Þó fannst mér að ekki bæri mikið á milli ráðherranna í mati á samningsstöðunni og stöðu þessa máls. Hæstv. viðskrh. túlkaði það svo að í rauninni væri einvörðungu um tæknilegar breytingar að ræða sem gera þyrfti á þessum samningi og síðan þyrfti að staðfesta þær. Ég veit ekki hvort ég tók rétt eftir að það yrði hugsanlega með þáltill. Mér fyndist gott ef hæstv. ráðherra útlistaði það nánar því að ég hef satt að segja ekki heyrt það fyrr frá ráðherrum að staðfesting á breyttum samningi kæmi til greina í þinginu með þáltill. heldur hafði ég haldið að þeir sem með þetta mál fara af stjórnvalda hálfu ætluðu sér að fara fram með svipuðum hætti, þ.e. í formi lagafrv.
    Hitt er annað mál að ég átta mig ekki á því hvernig hæstv. viðskrh. kemst að þeirri niðurstöðu að hér geti einvörðungu orðið um tæknilegar breytingar að ræða í ljósi þeirra krafna sem uppi eru, m.a. frá spænsku ríkisstjórninni í þessu máli, með kröfum um endursamning að því er varðar þróunarsjóðinn og þá

upphæð sem EFTA-ríkjunum er ætlað að greiða til þessara --- ég man ekki hvaða orð hæstv. utanrrh. notaði, það var betlilið held ég. ( Gripið fram í: Betliríkja). Betliríkja innan Evrópubandalagsins, sem hæstv. utanrrh. kallaði svo og sem þyrfti að greiða til í formi þessa þróunarsjóðs. ( Viðskrh.: Hvaða ríki?) Hann nafngreindi þau, hæstv. ráðherra. Það liggur fyrir í ræðum, Spánn, Írland og Grikkland voru þessi betliríki. Það væri ágætt ef hæstv. viðskrh. greindi nánar frá mati sínu á þessari stöðu því að mér sýnist mjög tvísýnt um það hvort Spánn ætlar að una þessu og hvort ekki þarf að koma til endursamnings af þeim sökum.