Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 17:08:31 (4311)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Hæstv forseti. Það sem ég sagði í ræðu minni hér áðan var að verði þessi viðbótarbókun við EES-samninginn eingöngu þjóðréttarlegs eðlis, þ.e. feli hún ekki í sér nein bein réttaráhrif hér á landi sem festa þurfi í íslensk lög líkt og gildir um mjög marga alþjóðasamninga, þá ber enga nauðsyn til að bera slíkt mál upp á Alþingi í formi lagafrv. heldur eingöngu í formi þáltill. um staðfestingu alþjóðasamnings eins og venja er um slíkar samningagerðir. Fari hins vegar svo að einhver þau efnisatriði breytist sem segja megi að hafi hér bein réttaráhrif yrði form þingmálsins að sjálfsögðu að vera með öðrum hætti, þ.e. í formi lagafrv.
    Um það hvernig fer með skoðanamun milli Spánverja og hugsanlega einhverra annarra Evrópuríkja innan bandalagsins og meiri hlutans þar innan dyra þá ætla ég engu um þau viðskipti að spá, spyr þar eingöngu að leikslokum og segir reyndar hugur um að margt í því máli geti einfaldast og skýrst ef það er ljóst að EFTA-ríkin, þau sem standa eftir þegar Sviss hefur sagt sig úr félagi við þau um sinn, ná saman um afstöðu sína gagnvart bandalaginu. Þá mun málið allt einfaldast frekar.