Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 17:10:02 (4312)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst það dálítið sérkennilegt og merkilegt að það skuli vera hæstv. viðskrh. sem greinir þinginu frá þessu mati á því hvernig hugsanlega yrði farið með viðbótarbókun við EES-samninginn. Ekki ætla ég að hafa á móti því að hann viðri sínar skoðanir um það við þingið.
    Í sambandi við stöðuna að því er varðar sjónarmið einstakra EB-ríkja til þessa máls, þá er það ekki meiri hlutinn sem þar ræður heldur hvert og eitt ríki af því, að hæstv. ráðherra nefndi meiri hluta EB-ríkjanna. Hvert eitt ríki hefur neitunarvald og það algert neitunarvald.
    Við heyrðum það hjá hæstv. utanrrh. í desember eftir atkvæðagreiðsluna í Sviss að þetta væri allt saman lítið mál en Alþingi Íslendinga yrði að afgreiða þennan samning eftir það til þess að við fengjum samningsstöðu. Það er satt að segja afar sérkennilegur málflutningur ef íslensk stjórnvöld ætla sér ekki meira en það að þurfa að vera með fullfrágengið mál af hálfu Alþingis til þess að telja sig vera marktæk gagnvart Evrópubandalaginu sem viðræðuaðila.