Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 17:11:22 (4313)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka það skýrt fram að þegar ég talaði um meiri hluta Evrópubandalagsríkja var ég á engan hátt að vísa til þeirra ákvörðunartökuaðferða sem við kunna að eiga hverju sinni innan þeirrar stofnunar. Ég var þar fyrst og fremst að tala um það sem kalla mætti ákvörðunarmótun í pólitísku ferli sem þar er að sjálfsögðu í gangi eins og í öllum slíkum stofnunum.
    Um hitt málið, það hvernig farið verður með viðbótina við EES þegar hún kemur inn á þing að nýju, þá vitna ég til þess að umræður um þetta efni fóru fram í þinginu fyrr í 2. umr. og ætti þess vegna ekki að hafa komið neinum þingmanni á óvart sem fylgst hefur með umræðunni.