Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 17:16:18 (4316)


     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Í andsvörum er ekki tækifæri til að
fara nákvæmlega út í hvort þetta voru skynsamleg viðskipti með Útvegsbankann en ég tel að svo hafi ekki verið. Erfiðleikar Landsbankans, sem hér hefur líka borið á góma, skapast náttúrlega af þeim bága fjárhag sem Reykjavíkurborg býr við. Ef Reykjavíkurborg væri ekki með svona mikinn yfirdrátt í Landsbankanum þyrfti Landsbankinn ekkert á því láni að halda sem hann fær frá Seðlabanka.
    Öll þessi málsmeðferð sem við höfum verið að vinna hér undanfarna daga fyrir tilverknað ríkisstjórnarinnar er markleysa. Það var ekki rétt hjá hæstv. viðskrh. að okkur ræki nein nauður til að afgreiða þetta lagafrv. hér og nú. Endanleg lög verða að vera öðruvísi. Við vitum að í þingskjölunum stendur ekki hinn endanlegi samningur sem við þurfum að lögtaka. Ef hæstv. utanrrh. taldi sig þurfa meira umboð en hann hefur frá ríkisstjórninni og vildi láta reyna á það á Alþingi hvort meiri hluti væri fyrir þessari samningagerð, þá átti auðvitað að gera það með þáltill. en vera ekki að samþykkja einhver lög út í loftið sem ekki standast og eru hrein markleysa.