Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 17:17:49 (4317)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Mér þykir furðu sæta ef hv. 1. þm. Norðurl. v. heldur því fram að það lagafrv. sem við erum að fjalla um sé markleysa þegar til þess er horft að Finnlandsforseti lét sér vel sæma eftir að Svisslendingar höfðu fellt samninginn að fullgilda og staðfesta lög sem eru nákvæmlega þess efnis og þess eðlis sem við ræðum í dag. Á sama hátt má að sjálfsögðu benda á ákvörðun liechtensteinsku þjóðarinnar að tillögu stjórnar og þings í því landi að samþykkja samninginn óbreyttan, eftir að hann var felldur í Sviss, einmitt til þess að tryggja stöðu sína gagnvart framhaldinu. Það gerðu Finnar. Það gerðu Liechtensteinar. Íslendingar verða ekki menn að minni að samþykkja slíkt lagafrv. Því fer fjarri að hér sé um markleysu að ræða. Hér er einmitt um markvissa aðgerð að ræða til þess að tryggja íslenska hagsmuni í lengd og bráð. Þetta vil ég segja skýrt.
    Um orð þingmannsins um Landsbanka Íslands er ekki ástæða til að fjölyrða hér, en ég vil leyfa mér að halda því fram að sú skýring sem hann gaf á erfiðri stöðu bankans um sinn sé ekki rétt.