Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 17:18:55 (4318)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Nú hefur forseti óskað eftir því að utanrrh. komi í salinn og er það vel. Ég get aftur á móti ekki látið hjá líða að spyrja hvort utanrrh. hafi formlega tilkynnt forseta að hann hyggist ekki verða við þeim tilmælum. Ég minnist þess að stundum átti Alþingi Íslendinga hér áður forseta sem kunnu lag á ráðherrum sem sýndu þrjósku og ekki hlýddu. Þeir tilkynntu þeim einfaldlega að gert yrði fundarhlé og mönnum var leyft að kólna svo að þeir áttuðu sig á því að þeir hefðu þingskyldur og kæmu í salinn. Ég óska eftir því að hæstv. forseti upplýsi hvort utanrrh. hefur með formlegum hætti tilkynnt forseta að hann hyggist ekki vera við þessa umræðu.