Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 17:56:59 (4322)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ein mínúta, ég verð þá að takmarka mjög það sem ég hef að segja um þessa ræðu en það voru mjög margar athugasemdir sem ég hefði viljað gera. Ég hjó eftir að hv. þm. sagði að stjórnarandstaðan og stjórnin hefðu nálgast í málinu að því er varðaði stjórnarskrárþátt málsins. Þetta þótti mér óskiljanleg og alveg stórfurðuleg fullyrðing þar sem ljóst er að mikill vafi er á því að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði standist íslenska stjórnarskrá. Þess vegna var flutt hér frv. um það að ef um slíkt valdaframsal yrði að ræða eins og í honum felst þá þyrfti meiri hluta hér á Alþingi. Og túlkun þingmannsins var sú að þar með værum við að segja að ákveðið framsal væri heimilt samkvæmt núgildandi

stjórnarskrá. Það er alveg ljóst að allt alþjóðasamstarf felur í sér eitthvert mjög takmarkað valdaframsal, t.d. bara aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum. Það hlýtur hv. þm. að vita. Og þess vegna hlýtur að vera alveg óskiljanleg hans fullyrðing að stjórn og stjórnarandstaða hafi nálgast í þessu máli. Það skil ég alls ekki. Auk þess sem mjög margir stjórnarliðar hafa lýst efasemdum með stjórnarskrárþátt málsins. Þannig að það er ekki um það að ræða að allir sem styðja ríkisstjórnina telji að samningurinn standist stjórnarskrá.