Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 18:00:28 (4324)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er alveg greinilegt að hv. þm. vill skilja málið með ákveðnum hætti og hann verður þá að hafa það fyrir sig. En það er alveg ljóst að í EES-samningnum er fólgið valdaframsal. Það eru allir sammála því. En að það sé svo mikið valdaframsal að sjálfstæði íslensku þjóðarinnar sé búið með samþykkt samningsins, það hef ég t.d. aldrei sagt. Það getur vel verið að einhverjir hafi þá skoðun. Það er greinilegt að þingmaðurinn telur að það geti meira að segja svo verið úr því að hann heldur þessu svo stíft á lofti.
    Ég ætlaði hins vegar að nota seinni mínútu mína í það að benda hv. þm. á að það er að mínu mati mjög ýkt, sem hann heldur, að við getum haft einhver áhrif á ákvarðanaferli innan EB. Lýsingu hans hér tel ég vera langt frá raunveruleikanum. Íslendingar munu hafa óveruleg ef nokkur áhrif á ákvarðanaferlið innan EB ef EES-samningurinn verður staðfestur á Alþingi.