Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 18:07:42 (4330)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef veitt því athygli að hv. þm. Tómas Ingi Olrich hefur haft allnokkrar áhyggjur af þessu máli. Ég deili sannarlega þeim áhyggjum með honum. Það hefur birst m.a. í því, sem vakin hefur verið athygli á, að hv. þm. hefur haft þörf til að tala um þetta mál en af hálfu stjórnarforustunnar hefur verið lagst á hann. Það er nú fyrst þegar hæstv. utanrrh. er fjarri sem hann fær að koma í stólinn, geri ég ráð fyrir.
    Hv. þm. gengur í kringum þetta mál hins vegar á dálítið sérkennilegan hátt, einhver mundi segja eins og köttur í kringum heitan graut, þegar kemur að stjórnarfarsþætti málsins og því valdaafsali sem felst í þessum samningi. Auðvitað nagar það samvisku hv. þm. sem við blasir í þessum samningi. Hann er hér með mjög sérkennilega leikfimi í þá átt að skýra hvers vegna hann treystir sér til að greiða þessum samningi atkvæði og er að hugga sig við það að fyrir liggi hugmyndir af hálfu stjórnarandstöðunnar um að fullveldisskerðing í þessum samningi sé vel afmörkuð og takmörkuð.
    Auðvitað eru allir sammála um að ekki er verið að leggja af Ísland sem sjálfstætt ríki í eitt skipti fyrir öll. Þetta er auðvitað á takmörkuðu sviði sem hér er um að ræða. Hvort þau eru vel afmörkuð hef ég ekki metið út af fyrir sig, en mér finnst það ekki auðvelda hv. þm. á nokkurn hátt að ganga gegn íslensku stjórnarskránni.