Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 18:13:45 (4334)

     Sigurður Þórólfsson :
    Herra forseti. Mig langar að koma aðeins inn í þessa umræðu um EES-málið þótt margt sé búið að ræða um það á undanförnum dögum og vikum og að sumra dómi sé nú mál að linni. Ég vil þó láta afstöðu mína til málsins koma fram því að það er óvíst að mér endist þingseta til þess að vera við endanlega afgreiðslu málsins þar sem ég sit hér sem varamaður hv. 2. þm. Vesturl., Ingibjargar Pálmadóttur.
    Það hefur margt verið rætt um þetta stóra mál á undanförnum vikum og mánuðum, mál sem réttilega hefur verið kynnt sem eitt afdrifaríkasta mál íslenska lýðveldisins frá upphafi og ég hygg að svo muni rétt vera. En mér finnst að því miður hafi mjög skort á hlutlausa kynningu allt frá því að hæstv. utanrrh. sagði okkur frá því með nokkru stolti að við hefðum fengið allt fyrir ekkert með þessum samningi. Í framhaldi af því voru okkur óspart kynntir kostir samningsins en minna gert úr þeim ágöllum sem honum e.t.v. fylgdu.
    Það hefur verið gagnrýnt hve langur tími hefur farið í þessa umræðu á Alþingi en það staðfestir einungis það sem vitað var að mikill ágreiningur er um þetta mál, ekki einungis hér á þingi heldur meðal þjóðarinnar sjálfrar. Menn eru eðlilega uggandi um afleiðingar af aðild að EES. Við Íslendingar erum engan veginn einir um að efast um ágæti þeirrar stórveldisstefnu sem í þessu felst. Með öðrum þjóðum er mikil andstaða gegn EES-samningnum og ég tala nú ekki um Maastricht-samkomulaginu. Víða hefur þetta verið barið í gegn með litlum meiri hluta þannig að það er ljóst að það eru víðar uppi miklar efasemdir um nauðsyn og ágæti þessa fyrirkomulags en hér á landi. Samkvæmt fréttum má ætla að sú andstaða fari vaxandi í sumum löndum.
    Ég ætla ekki að ræða hérna alla þætti samningsins, það væri kannski nokkuð tímafrekt, en ég vil aðeins koma inn á örfá atriði sem mér finnst mestu skipta þegar tekin er afstaða til samningsins í heild. Ég vil þá víkja aðeins að einu atriði í áliti meiri hluta utanrmn. í sambandi við þetta mál. Á bls. 2 og 3 segir um afstöðu ríkjanna í Mið- og Austur-Evrópu að það sé ljóst af málflutningi forustumanna þessara ríkja að þeir átti sig á því hve nauðsynelgt er að efla samstarf milli þjóða og ríkja í því skyni að tryggja frið, uppræta tortryggni, ríg og drottnunarhneigð sem er undirrót spennu og blóðugra átaka.
    Já. Víst er nauðsyn að efla gott samstarf milli þjóða og það eykur skilning. En að slíkt samstarf uppræti ríg og drottnunarhneigð held ég því miður að sé draumsýn sem eigi langt í land með að rætast. Ég tel einmitt að ein aðalhvötin að stofnun svona samtaka sé drottnunarhneigð. Það sé viðleitni þjóða til að ná meiri völdum en þau hafa innan ákveðins svæðis og kannski ekki síður sterkra fyrirtækja, viðskiptarisa, til að skapa sér öryggi og fótfestu á þessum stóra markaði. Það er peningavaldið sem er að ná þarna tökum. Og hvað sem líður fögrum fyrirheitum um jafnan rétt þjóða, stórra sem smárra, bókunum um þetta og hitt, vilja til að stefna að þessu eða hinu svo fremi sem það er hægt, held ég að lítil þjóð eins og Íslendingar eigi eftir að sjá að ráð okkar og tillögur verða lítils metnar í hinum stóra faðmi samsteypunnar. Þegar um er að ræða heild sem 1.400 sinnum stærri, 1.400 sinnum fjölmennari en við, gæti hugsanlega komið til þess ef til ágreinings kæmi að minni hagsmunir yrðu látnir víkja fyrir meiri. Mér finnst eins og ég hafi heyrt þessu einhvern tíma fleygt jafnvel hér á Alþingi að minni hagsmunir yrðu að víkja fyrir meiri.
    Erum við þá ekki komin kannski í spor Þorgils skarða, ef ég má vitna svo langt aftur í tímann, þegar hann var á valdi Sturlu og Kolbeins í Stafaholti forðum og þeir vildu þröngva honum til eiða. Hann vildi ekki sverja þeim eiða og geta í knefa þeim til launanna. Ég held að við ættum að huga að þessu nú, því að eftirkaupin geta oft orðið erfið ef ekki er hugað að þeim í tíma.
    Þegar við gerðumst aðilar að EFTA um eða upp úr 1970 átti það að styrkja stöðu okkar á mörkuðum Evrópuþjóða og vissulega gerðist það á vissum sviðum. En sumar greinar íslensks iðnaðar stóðust ekki þá hörðu samkeppni sem þar mætti þeim og nægir að nefna skipaiðnaðinn og húsgagnaiðnaðinn. Sannleikurinn er því miður sá að uppbyggingu iðnaðar á Íslandi hefur alls ekki verið sinnt sem skyldi. Ég er þar ekki að ásaka einn ákveðinn flokk en þetta er bara sú staðreynd sem við stöndum frammi fyrir núna. Mér finnst það satt að segja óraunhæft, svo ekki sé meira sagt, að ætla að okkar vanþróaði iðnaður hafi möguleika til jafns við iðnað annarra þjóða Evrópu á þessum sameiginlega markaði a.m.k. næstu árin. Ég held að við verðum að gera okkur þetta ljóst þegar um þetta er verið að ræða.
    Annað atriði sem mig langar að víkja að snertir landbúnaðinn og innflutning á landbúnaðarvörum og stöðu innlendu framleiðslunnar gagnvart innflutningi. Ég vildi víkja að örfáum atriðum. Í fyrsta lagi er það staða garðyrkjunnar en ég óttast mjög að staða hennar versni verulega verði samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið samþykktur.
    Árið 1990 var framleiðsluverðmæti grænmetis og blóma tæplega 1 milljarður kr. Heilsársstörf voru 350, sumarstörf voru 200 og auk þess voru fjölmörg störf í þjónustu sem tengdust þessari atvinnu. Það er því um verulega atvinnustarfsemi þarna að ræða og enginn vafi að atvinna mundi dragast stórlega saman ef til innflutnings á þessum búvörum kæmi.
    Garðyrkjubændur hafa á síðustu árum gert stórátak til að auka lýsingu í gróðurhúsum og lengja með því ræktunartíma blóma og grænmetis þannig að t.d. rósir eru nú ræktaðar allt árið. Fyrir þessa þróun mundi eflaust taka ef innflutningur á blómum og grænmeti yrði óheftur til landsins eins og gert er ráð fyrir á vissum tímum ársins. Garðyrkjubændum er líka áhyggjuefni hvernig staðið verður að heilbrigðiseftirliti og vöruskoðun og ekki síður hvernig fylgst verður með upprunavottorðum grænmetis og blóma. Allt eru þetta atriði sem þarf nánari útfærslu á.
    Annað atriði sem ég vil nefna er taka jöfnunargjalda skv. 9. gr. í bókun 3. Þar kom inn í textann ákvæði um að ekki skyldi leggja hærra jöfnunargjald á innfluttar vörur en sem nam tolli eða fastagjaldi 1. jan. 1992. Þann 4. des. 1991 var þessu þó breytt og gengið var frá undanþágu við greinina svohljóðandi: ,,Gjöld sem lögð eru á innflutning til landsins skulu þó aldrei vera hærri en það sem Ísland leggur á innflutning á samningsaðilann árið 1991.`` Með þessu átti að setja undir þann leka sem kominn var í 9. gr. samningstextans en orðalagið er óljóst og ófullnægjandi og þar sem texti samningsins er undirritaður er ekki hægt að breyta honum héðan af. Hugsanlegur ágreiningur um þetta atriði verður því að bíða úrlausnar sameiginlegrar nefndar EFTA og EB þegar og ef hún tekur til starfa.
    Þriðja atriðið varðandi landbúnaðinn, sem snertir reyndar fleiri aðila er varðandi jarðakaup og lóðir. Þar held ég að muni reynast erfitt að standa gegn ásókn erlendra aðila um að kaupa eignir hér á landi, jafnvel þótt stjórnvöld hafi til þess vilja. Það mun reynast erfitt að setja girðingar, eins og rætt hefur verið um, til að hamla gegn því.
    Atvinnumálin hafa verið mjög til umræðu að undanförnu og það er að vonum þar sem langt er síðan við höfum búið við svo mikið atvinnuleysi sem nú er. Því hefur verið haldið fram að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið mundi efla hér atvinnu og bæta lífskjör. Gott ef rétt væri. Sjálfsagt mun það geta gerst á einhverjum afmörkuðum sviðum. En ég hef mínar efasemdir um réttmæti þessa og það gefur auga leið að þó að við, sem búum við mikið atvinnuleysi núna, tengjumst atvinnusvæði sem er með tvisvar eða þrisvar sinnum meira atvinnuleysi en hér er eykur það ekki atvinnu hér fyrir alla þá sem nú ganga um án atvinnu. Fjölskyldufólk fer ekki til útlanda til að leita sér að vinnu sem er þá kannski torfengin. Og eftir fréttum í útvarpi eða sjónvarpi í gærkvöldi að dæma er ekki neinn morgunroði fram undan í Evrópu á þessu sviði því við tilkomu hins innra markaðar EB, sem gekk í gildi núna 1. jan., er talið að atvinnuleysi fari vaxandi og nái jafnvel 15%. Mér telst til að þetta samsvari því einn þingflokkur með svo sem 9--10 menn þurrkaðist út ef sama hlutfall yrði atvinnulaust á þinginu, svo maður taki sér nærtækt dæmi. Þá geta menn reiknað út hverjir það yrðu sem færu þar fyrstir frá borði. (Gripið fram í.)
    Þetta er nú alvörumál og ekki rétt að vera með flimtingar um það því að atvinnumálin eru eitt stærsta mál sem við er að fást og ég óttast því miður að vonir ýmissa stjórnmálamanna um að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið leysi úr þeim vanda eigi langt í land með að rætast. Ég óttast að við séum sífellt að fara lengra og lengra út á braut misréttis og misskiptingar þeirra lífsgæða sem þjóðin hefur til skiptanna fyrir þegnana. Þessi þáttur mála á kannski betur heima við aðrar umræður og önnur mál en þetta, en ég get ekki látið hjá líða að víkja aðeins að þessu því að þetta er eitt stærsta mál sem við stöndum frammi fyrir núna.
    Mikið hefur verið rætt um það hvort þessi samningur stæðist stjórnarskrána og hefur þar sýnst sitt hverjum. Sumir lögfræðingar segja að samningurinn standist stjórnarskrána og aðrir lögfræðingar segja að hún standist hana ekki. Mér sýnist því að á þeim velli sé staðan einn á móti einum. Ég er ekki lögfræðingur og mér skilst á lögskýringum hv. 5. þm. Norðurl. e., sem talaði hér áðan, að hann sé ekki lögfræðingur heldur. Ég vil láta það koma fram að ég er algjörlega ósammála því sem hann kom þar með því að ég tel að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið feli í sér verulegt valdaafsal hjá íslensku þjóðinni, bæði með löggjafarvaldið og eins hitt að við erum settir undir alþjóðlegt vald á ýmsum sviðum sem við höfum engin tök á að hafa þar áhrif á. Ég er sannfærður um að löggjafarvaldið færist óbeint til annarra þegar við erum komin í þá stöðu að verða að samþykkja lög og reglur sem aðrar þjóðir hafa sett sér og höfum nánast engan tillögurétt þar um.
    Nýlegt dæmi er frv. sem var lagt fram á Alþingi fyrir jólin um flutninga á járnbrautum og skipgengum vatnaleiðum o.fl. Hver trúir því að íslenskt löggjafarþing hefði ótilneytt farið að setja lög um járnbrautir og skipgengar vatnaleiðir? Ég trúi því ekki. Við höfum til skamms tíma lög um friðun á snæhéra. Þau voru sett á sínum tíma. Ég man ekki hvort það var 1847 eða 1797. Það voru þó rök fyrir þeirri lagasetningu því að það stóð til að flytja þá skepnu til landsins þó að hún kæmi aldrei. Snæhérinn kom aldrei en lögin stóðu áfram. En þessa lagasetningu skil ég ekki, því miður.
    Virðulegi forseti. Mér er ljóst að margir þættir í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eru jákvæðir okkur Íslendingum. Vissulega veit ég það og því ber ekki að neita. Sérstaklega þó á afmörkuðum

viðskiptasviðum. En mörg ákvæði þessa samnings eru óljós og neikvæð fyrir okkur, m.a. í sambandi við fiskveiðar í íslenskri landhelgi, landbúnaðarþáttinn, löggjafarvaldið og margt fleira. Neikvæðu atriðin vega þyngra í mínum huga þegar ég geri upp afstöðuna til þessa samnings og þess vegna mun ég, ef ég kem til með að vera hér við endanlega afgreiðslu þessa máls, greiða atkvæði gegn EES-samningnum.
    Ég vildi aðeins í stuttu máli láta afstöðu mína koma hér fram. Ég ætla ekki að lengja umræðuna og hef lokið máli mínu.