Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 19:11:15 (4341)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að almenningur á Íslandi mun gera kröfu til sömu lífskjara, ég sagði ekki eins og er í Evrópubandalaginu, ég sagði eins og væri í okkar nágrannalöndum, tiltók Norðurlöndin og nokkur önnur lönd sem okkur er tamast að bera okkur saman við og við höfum mest samskipti við. Við þessi ummæli stend ég.
    Varðandi það annað, þegar hann vitnar í ummæli sem höfð eru eftir forustumönnum ungra jafnaðarmanna í Alþýðublaðinu í dag, þá var þar rétt í vitnað. Það var rétt tilvitnun. Það staðfestir mína skoðun sem ég lét koma fram við 1. umr. að það verður ekkert hlé á umræðunni um samninga við Evrópubandalagið eftir að búið er að staðfesta samninginn um EES. Umræðan mun byrja strax aftur af fullum þunga og hún mun snúast um það á þeim tíma hvert framhaldið eigi að vera. Þess vegna skiptir það öllu máli, og það skiptir að mínu mati ekki minna máli en samningurinn sjálfur, að Alþingi marki það ákveðið hvaða stefnu á að fylgja í framhaldinu. Að við látum ekki unga jafnaðarmenn ráða, við látum þann vilja sem ég er sannfærður um að meiri hluti sé fyrir í hinu íslenska þjóðfélagi, við látum þann vilja ráða sem vill að við förum í viðræður um að snúa samningnum um EES í tvíhliða samning okkar við Evrópusamfélagið.
    Ég vil taka þátt í þeim leik, ég vil taka þátt í þeim umræðum. Ég vil ekki eftirláta ungum jafnaðarmönnum og utanrrh. það alfarið.