Evrópskt efnahagssvæði

93. fundur
Þriðjudaginn 05. janúar 1993, kl. 19:14:44 (4343)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál núna, en ef hv. þm. óttast það sem ég virkilega óttast einnig að hluti af íslenskum stjórnmálamönnum vilji róa inn í EB þá bið ég hv. þm. að hugleiða það í nokkrar mínútur hvort hættan á því að höfnin yrði EB fyrir hið íslenska þjóðfélag væri meiri að samningnum um EES samþykktum eða að honum höfnuðum. Það er mín skoðun að ef Íslendingar mundu á þessu stigi hafna viðskiptaþætti samningsins um EES þá mundi þrýstingurinn um aðild aukast um allan

helming.
    Þetta voru m.a. þau rök sem ég hygg að við hv. þingmenn höfum verið sammála um þegar við vörðum ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar falli á haustdögum 1989 gegn því vantrausti sem var byggt á því að við ættum frekar að fara strax í tvíhliða samninga, en ekki í samninginn um EES, ekki í þá vinnu. Það var mín skoðun þá að það væri ákveðin vörn gegn því að við yrðum leiddir inn í EB og ég er þeirrar skoðunar enn þann dag í dag.