Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 11:28:01 (4349)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 15. þm. Reykv. beindi tvennu til mín í máli sínu. Hið fyrra var að hún undraðist hvers vegna til hefði verið nefndur Finnlandsforseti í sambandi við umræðu um það hvort þetta mál væri dautt eða þingtækt, eins og stjórnarnandstæðingar hafa orðað það. Skýringarnar eru þessar. Eftir að Sviss hrökk úr skaftinu gerðist tvennt á vettvangi EFTA-ríkja. Hið fyrra var að Finnlandsforseti staðfesti óbreytt staðfestingarlög, sem gild lög, ekki aðeins þingtæk, heldur gild lög, fyrir hönd Finnlands. Hið annað var, að Liechtenstein gekk til þjóðaratkvæðagreiðslu um óbreytt lög. Samkvæmt mati stjórnarandstæðinga var hvort tveggja þá óþingtækt eða dautt mál. Að vísu eru þeir ekki sjálfum sér samkvæmir í því efni, vegna þess að þeir hafa nú farið hamförum dag og nótt gegn dauðum málum, og þá lítt skiljanlegt hvernig frelsisbaráttan á að snúast um baráttu við dauð hross.
    Seinna atriðið var um það, hvort nauðsynlegt væri eða hvort heimilt væri að flytja viðbótarbókunina inn á Alþingi í formi þáltill. Svarið við því að það fer eftir því hvert er inntak bókunarinnar. Ef hún er einungis tæknileg atriði, eins og að hefur verið vikið, þá munu þau atriði ekki hafa nein réttaráhrif hér á landi og þá væri sjálfsagður hlutur að flytja þetta í formi þáltill. Ef um væri að ræða efnislega breytingar sem gætu varðað réttaráhrif hér á landi þyrfti það að vera í formi frv. Það á eftir að koma á daginn.