Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 11:31:48 (4351)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Kannski fer nú mælendaskráin að styttast við 2. umr. þessa máls sem hefur verið rætt hér frá því um miðjan desembermánuð. Ég sá ástæðu til að biðja um orðið aftur vegna þess að þegar ég ræddi málið var hæstv. utanrrh. erlendis og ekki í kallfæri og ég nefndi þá að ég myndi taka tillit til þess. En áskil mér rétt til þess sem þingsköp heimila að taka aftur til máls í umræðunni til þess að fjalla um vissa þætti þar sem ég vildi að hæstv. ráðherra væri nærstaddur.
    Ég mun víkja að einhverjum atriðum hér sem eðlilegt væri að hæstv. ráðherra brygðist við og lýsa ánægju minni yfir því að hann skuli vera viðstaddur umræðuna. Ég saknaði hans m.a. í gær að hluta til þegar þegar þessari umræðu var fram haldið, en úr því má þó bæta nú.
    Ég ætla í upphafi að víkja svolítið að stöðu málsins, eins og hún kemur mér fyrir sjónir á þessum degi. Því að það er svo að þetta mál er að taka breytingum hvað snertir form og stöðu samningsins, sem hér er ræddur, og frv. um lögfestingu hans. Það er nánast eins og með veðrið, breytingarnar og sviftingarnar sem þar verða og hafa orðið á því ferli sem gengið hefur yfir frá því í mars 1989 að lagt var upp í þessa ferð.
    Það sem síðast gerðist til þess að setja þetta mál úr farvegi þeirra sem að því vinna er atkvæðagreiðslan í Sviss, 6. des. sl., sem varð til þess að setja samninginn enn á ný í uppnám og óvissu. Það er ekki harmsefni fyrir þann sem hér talar eða aðra þá sem varað hafa við þessum samningi og mæla gegn honum. Þvert á móti er enn von til þess að þetta mál leiði ekki til þeirrar niðurstöðu sem hæstv. utanrrh. ber hér fram. Þó vil ég ekki fullyrða neitt í því efni því að það er allt saman í óvissu. Hins vegar er ljóst að viðbrögð hæstv. utanrrh. við atkvæðagreiðslunni í Sviss, eins og þau birtust alþjóð, þar sem hann sagði að aðeins væri um að ræða tæknileg atriði sem þyrfti að leiðrétta, strika út Sviss og strika út EFTA hér og þar úr texta og stimpla þetta síðan, hefur ekki gengið eftir fram til þessa og samningurinn er í óvissu. Annar aðilinn að þessum samningi, Evrópubandalagið og framkvæmdastjórn þess, er án samningsumboðs þessa stundina og getur því ekki staðið að neinum ráðstefnum sem leiði til niðurstöðu í málinu á meðan að svo er.
    Það er satt að segja dæmalaust að hæstv. ráðherrar, hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh., skuli hér vera með vöndinn uppi gagnvart Alþingi Íslendinga, saka það um tafir í málinu, ásaka það fyrir að þessi viðamikli samningur skuli ræddur hér á sama tíma og staðan er raunverulega þannig að það frv. sem fyrir liggur og samningurinn að baki þess er í uppnámi. Það er eiginlega mál til komið að það berist til almennings í landinu gegnum fjölmiðla að sú er staðan og þannig ber að líta á þau högg sem þessir hæstv. ráðherrar láta ríða yfir Alþingi sem vindhögg. Því þau eru auðvitað ekkert annað og þeim sjálfum til minnkunar að standa að slíku gagnvart þinginu og auðvitað ekki til þess að stuðla að því að málin séu rædd hér með eðlilegum og efnislegum hætti. Það virðist í raun ekki ósk þessara manna. Þeir vilja minnst af Alþingi Íslendinga vita í rauninni. Það á að rétta upp hendur þegar þessum heiðursmönnum hentar og stimpla gerningana. Það er kannski eðlileg æfing sem þeir vilja fá á þinginu vegna þess að það verður hlutskipti Alþingis, ef þessi samningur verður lögfestur, í stórum hluta þeirra mála sem ber fyrir þingið í framhaldi af þessum samningi að stimpla lögin sem framkvæmdastjórnin í Brussel ein hefur rétt til þess að móta og leggja fram.
    Ég held að það sé rétt að rifja það upp fyrir hv. þm. enn og aftur að staðan verður sú að löggjafarstarfið á samningssviðinu, sem tekur yfir meiri hluta af þeim málum sem Alþingi Íslendinga hefur verið að fjalla um til þessa og talið sig bært að fjalla um og móta löggjöf um, verður í höndum 17 manna framkvæmdastjórnar í Brussel. Síðan er fjallað um það í ráðherraráði bandalagsins sem tekur afstöðu með samhljóða atkvæðum eða í vaxandi mæli með meiri hluta atkvæða. Hlutur EFTA-ríkjanna sem mega hanga aftan í þessum vagni er ekki annar en sá að segja já eða nei og ef þeir segja nei að sæta þá afarkostum. Að þurfa að grípa til öryggisákvæða samningsins og fá þá á sig gagnaðgerðir frá hinum aðilanum er staðan sem blasir við löggjafarþingi Íslendinga ef frv. sem staðfestir EES-samning, --- því að þetta frv. auðvitað nægir ekki til þess að leiða málið til lyktar --- verður að lögum. Í rauninni er þetta kjarni máls að því er snertir aðstöðu Alþingis að þessum samningi gerðum.
    En framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins hefur enn ekki umboð til þess að gera breytingar á samningnum. Og það er því fjarstæða sem hæstv. utanrrh. hefur verið að hafa yfir í desembermánuði í ræðum sínum og í fjölmiðlum að það sé hægt að koma á ráðstefnu stjórnarerindreka, sem hann kallar ríkjaráðstefnu, til þess að leiða þetta mál til lykta í þessum mánuði. Það er ekki neitt slíkt á dagskrá. Og þeir eru báðir jafnilla að sér hæstv. utanrrh. Íslands og danski utanríkisráðherrann, sérstakur kunningi þess íslenska, Uffe Ellemann-Jensen, svo ég segi ekki vinur, sem falla í þá gryfju að láta að þessu liggja. Hæstv. utanrrh. okkar Íslendinga vísar í þann danska máli sínu til stuðnings nú upp á síðkastið.
    Hvort það verður á dagskrá hugsanlega í febrúarmánuði að halda ráðstefnu stjórnarerindreka, um það veit enginn hvort tilefni gæti orðið til þess, er því háð að framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins fái umboð frá aðildarríkjum bandalagsins til þess að ganga til samninga og undirbúa tillögu til að leggja fyrir ráðherraráð Evrópubandalagsins. Það báðu utanríkisráðherrar EB um á fundi sínum 21. des. sl. Þeir báðu framkvæmdastjórnina um að undirbúa slíkt. En auðvitað getur framkvæmdastjórnin ekki gert það nema að hún fái samningsumboð. Það hefur hún ekki.
    Og á hverju stendur? Eins og staðan var 21. des. voru það Spánverjar sem neituðu að standa að slíku umboði til framkvæmdastjórnarinnar og spænska ríkisstjórnin hafði þremur dögum áður formlega dregið staðfestingarfrumvarp til baka úr höndum spænska þingsins til þess að undirstrika skýrt sína afstöðu. Þannig lá það fyrir. Hvað bera spænsk stjórnvöld fyrir sig í þessu máli sérstaklega? Ég vil ekki fullyrða að ekki séu uppi efasemdir hjá öðrum ríkjum Evrópubandalagsins þó þær hafi skýrast komið fram hjá Spánverjum. Það er þróunarsjóðurinn þar sem krafa er um það af þeirra hálfu að við honum verði ekki hróflað, þ.e. upphæðinni sem EFTA-ríkjunum er ætlað að greiða í þróunarsjóð til beltikerfisins og betliríkjanna innan Evrópubandalagsins, sem hæstv. utanrrh. kallar svo. Það eru ríkin Spánn, Portúgal, Írland og Grikkland, sem hæstv. utanrrh. Íslands hefur sæmt því heiðursheiti að vera fulltrúar betlikerfisins hjá Evrópubandalaginu. En svo kallaði hann þessa gagnaðila í desembermánuði. Þessi ríki með betlistafinn vilja fá þá upphæð sem EFTA-ríkin lofuðu en skiptu ekki með sér byrðunum með formlegum hætti. Þegar eitt ríkjanna stekkur af vagninum, þ.e. Sviss, vantar því gilda upphæð eða nærri því þriðjunginn í sjóðinn. EFTA-ríkin eru skuldbundin samkvæmt samningnum að standa skil á þessari upphæð. Og má segja að það séu EFTA-ríkin kannski engu síður en EB-ríkin sem eru að krefjast endursamninga. En þau hafa af einhverjum ástæðum ekki sett það fram með formlegum hætti, mér vitanlega, af sinni hálfu og eru að reyna að hengja það á Evrópubandalagið að kveða upp úr um að það verði þar sem málið strandar.
    Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. að því hvert mat hans er á þessari stöðu og með hvaða hætti þessi mál hafa formlega komið fram af hálfu EFTA-ríkjanna, þ.e. sú afstaða að vilja ekki standa skil á upphæðinni í þróunarsjóð að Sviss frágengnu. Hvernig var það lagt fyrir Evrópubandalagið af hálfu EFTA-ríkjanna? Hvernig liggur það fyrir framkvæmdastjórn og öðrum stofnunum Evrópubandalagsins af hálfu EFTA-ríkjanna? Það væri fróðlegt að heyra það. Hver verða viðbrögð EFTA að þessu leyti ef Evrópubandalagið segir fast og ákveðið: Það verður ekkert samið um það að lækka þessa upphæð. Við fáum ekki umboð til þess. Hver verða viðbrögð Íslands, því hæstv. ráðherra talar fyrir Ísland? Hvernig metur hann stöðu EFTA-hópsins sem eftir er að þessu leyti?
    Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra upplýsi okkur um það á þinginu. Því að það er kannski sá fleinn sem dýpst stendur í holdi þessa samnings að vitað er, þótt nefndir séu fleiri þættir af hálfu spænskra stjórnvalda. Eins og það að missa af Sviss sem aðila að samningnum og aðgangi vara frá Spáni, innflutnings til Sviss sem markaðar, sem þeir sjá eftir í þessu sambandi, og einnig að því er snertir erlent vinnuafl í Sviss sem þeir töldu sig vera að opna fyrir og vildu hafa opið fyrir samkvæmt samningnum af sinni hálfu. Þarna eru því nokkur atriði sem sérstaklega standa út af.
    Það er fyrst 1. febr. n.k. á fundi utanríkisráðherra Evrópubandalagsins, ráðsfundi, ,,counsil`` heitir það á enskunni, að það skýrist kannski hvort framkvæmdastjórnin fær umboð frá ráðherraráðinu. Fyrr verður það víst ekki að því er þeir upplýsa. Fái þeir umboð þá fara menn að taka á málum og undirbúa það ferli sem þar að lýtur. Hæstv. utanrrh. upplýsti það hins vegar í gær að í þessum mánuði, núna næstu dagana fram til 15. jan., væru nokkrir fundir embættismanna, bæði á vettvangi Evrópubandalagsins og á vettvangi EFTA og sameiginlegir fundir þessara aðila, til þess að kanna málin til undirbúnings fundinum 1. febr. sérstaklega. Það eru auðvitað engin tíðindi að slíkt sé í gangi.
    Ég hef af því spurnir að því er varðar afstöðu Finna til þróunarsjóðsins að þar hafi komið fram alveg sérstök andstaða við að axla byrðarnar fyrir Sviss í sambandi við greiðslur til þróunarsjóðsins. Hvort það eru staðfestar fréttir veit ég ekki, en nefni það hér. Málin eru því í óvissu að þessu leyti, ekki bara EB megin heldur líka í hópi þeirra sex EFTA-ríkja sem eftir standa sem aðilar að þessum samningi.
    Á Alþingi ræðum við frv. til laga um Evrópska efnahagssvæðið. Það er yfirskriftin á frv. sem er í fimm greinum. Hæstv. utanrrh. staðhæfir að það sé allt í lagi að staðfesta þetta frv. vegna þess að það gangi ekki í gildi fyrr en fullgildingarskjöl hafi gengið á milli. Vissulega er það rétt að auðvitað verður þessi samningur ekki til sem slíkur nema Evrópska efnahagssvæðið komi á því að væntanlega fara menn ekki á vettvangi EFTA að efna til eftirlitsstofnunar og dómstóls utan um ekki neitt eða gera þátt um fastanefnd EFTA-ríkjanna, sem er þriðji þáttur málsins og gert er ráð fyrir í 1. gr. frv., nema samningurinn gangi fram í reynd.
    En ég held að við hljótum að spyrja að því hvaða vit sé í því að afgreiða frv. sem þetta sem lög frá þinginu með þeirri óvissu sem varðar samninginn og ákvæðin þar sem hvort eð er þarf að koma til lögfesting á þeim breytingum sem hugsanlega verðar gerðar og samið kann að verða um. Ég segi lögfesting vegna þess að ég tel að ekkert annað geti komið til greina í sambandi við þennan samning og það segi ég að því tilefni að hæstv. viðskrh. var í gær að ýja að því að hugsanlega væri hægt með þáltill. að afgreiða afstöðu Alþingis í því formi í sambandi við samninginn. Hæstv. ráðherra hefur verið spurður um þetta atriði þegar í umræðunni. Ég tel nauðsynlegt að það liggi nokkuð skýrt fyrir hvert er viðhorf ráðherrans að þessu leyti að því er varðar afgreiðslu af hálfu Alþingis á viðbót við samninginn í hvaða formi sem svo kann að verða.
    Þessu máli tengist síðan staðfesting laganna af hálfu forseta Íslands. Í gær voru hér rifjuð upp ákvæði 26. gr. stjórnarskrárinnar að því er þetta varðar. Ekki mega líða nema 2 vikur, eins og kunnugt er, samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar eftir að frv. er samþykkt á Alþingi þangað til leitað er staðfestingar forseta lýðveldisins á slíkum lögum. Í þessari sömu grein er að finna ákvæðin sem lýsa stöðunni ef forseti Íslands synjar lagafrv. staðfestingar. Þá fer málið í þjóðaratkvæðagreiðslu sem verður þá bindandi varðandi úrslit málsins. Mér finnst það meira en lítið einkennilegt gagnvart forseta lýðveldisins að ætla að fara að knýja fram á Alþingi Íslendinga staðfestingu með lögum á samningi sem ekki er til í raun og er í uppnámi og þar sem ljóst er að þarf að leita til þingsins á nýjan leik eftir afstöðu. Ég tel það í raun ósæmilegt gagnvart ákvæðum stjórnarskrárinnar að ætla að halda þannig á máli.
    Ég ég spyr hæstv. utanrrh. að því hvort hann hafi ekki einhvern bakþanka varðandi slíka framgöngu að ætla að bera uppi í ríkisráði við forseta lýðveldisins lög frá þinginu hálfum mánuði eftir að þau yrðu samþykkt til staðfestingar. Lög sem eru þannig að

innihaldi að þau eru ekki gild í raun. Þau eru meiningarleysa. Eins og þau liggja fyrir þegar þau hefðu verið samþykkt eru þau meiningarleysa, markleysa. Og ætla í svona stóru og viðkvæmu máli að leita til forseta lýðveldisins um staðfestingu á slíkum lögum. Er það virkilega ásetningur hæstv. utanrrh. að standa þannig að máli, því það er hann sem ber þetta frv. fram og það er hann sem kemur til með að bera þetta frv. upp í ríkisráði ef til kemur?
    Annar þáttur þessa máls hefur komið hér inn í umræðuna af hálfu ýmissa ræðumanna. Það er sú staða sem blasir við ef þessi samningur yrði gerður að meiri hluti aðila að samningnum í hópi EFTA-ríkja er að leita eftir inngöngu í Evrópubandalagið. Talsmenn ríkisstjórna á Norðurlöndum, og ég hygg að það sé eins með Austurríki, leggja á það mikla áherslu og mikið kapp að samningum við Evrópubandalagið um inngöngu þessara ríkja í það ljúki sem fyrst og eru jafnvel að gera sér vonir um að það geti orðið frá byrjun árs 1995. Þá er staðan þannig að því er snertir þennan samning með þessari gildu stoð sem átti að bera uppi húsið öðrum megin, EFTA-stoð, að aðeins er tjaldað til einnar nætur. Aðeins er tjaldað til eins árs eða svo, ef að óskir þessara ríkisstjórna EFTA-ríkjanna ganga fram um hraðferð inn í Evrópubandalagið. Halda menn að staðið verði að undirbúningi undir þetta Evrópska efnahagssvæði af mikilli alvöru af hálfu ríkisstjórna þessara landa sem eru að búa sig í það að ganga inn í hópinn hinum megin og ætla að hafa rétt næturdvöl undir þessu þaki áður en húsið hrynur yfir þá sem eftir eru? Í þeim hópi eru, ef að marka má orð forsrrh. landsins nú upp á síðkastið, Ísland og menn segja kannski Liechtenstein.
    Því er hins vegar við að bæta í sambandi við þessa mynd og það ýtir kannski á eftir ríkisstjórnum Norðurlandanna þriggja, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands, sem hafa lagt inn umsókn um aðild að Evrópubandalaginu og eru auðvitað langt frá því að vera öruggar um að þær fái stuðning þjóða sinna þótt þær fengju samninga sem þær teldu aðgengilega að EB, því að allar hafa þær lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um málið áður en það verður til lykta leitt. Og staðan í þessum löndum þremur að því er snertir almenningsálitið er neikvæð fyrir þá sem strekkja inn í Evrópubandalagið, í Noregi alveg sérstaklega og búið að vera um langa hríð. Þeir sem eru að leita eftir aðild að Evrópubandalaginu eru því í bullandi minni hluta. Í Svíþjóð hefur upp á síðkastið andstaðan verið mjög vaxandi og sýnir meiri hluta almennings gegn og meira að segja stuðningsliðs sænska Verkamannaflokksins, sem áður var í stjórnarforustu og bar fram tillöguna um að sækja um aðild á þingi, þá í stjórnarforustu, meiri hluti af stuðningsmenn þess flokks lýsir sig andvíga hugmyndinni um inngöngu nú. Og Finnar eru einnig að vakna. Í vaxandi mæli eru menn að rumska þar í landi og herma fregnir nú upp á síðkastið frá finnska þinginu að ekki nema fjórðungur þingmanna sé öruggur um að vilja greiða aðild að Evrópubandalaginu atkvæði sitt. Og hefðu þótt tíðindi fyrir einu ári þegar hlutirnir lágu með allt öðrum hætti í finnska Ríkisdeginum. Það er þessi staða sem auðvitað er bakþankinn hjá ríkisstjórnum þessara landa sem strekkja inn og vilja þá a.m.k. ná því stóra skrefi inn í Evrópubandalagið sem felst í þessum samningi. En þessi samningur hefur að geyma um 3 / 4 af gerðum, þ.e. lögum, reglugerðum og samþykktum, Evrópubandalagsins. Hann nær yfir ekkert minna.
    Svo eru sumir hverjir sem styðja þetta mál að tala um það hér á Alþingi að hér sé um bara um ósköp venjulegan viðskiptasamning að ræða og þetta sé svo sem ekkert mikið meira en þegar við gengum inn í EFTA á sínum tíma. Slíkar eru blekkingarnar sem fram eru bornar í umræðum í þinginu um þetta mál af hálfu stuðningsaðila samningsins.
    Það er svo merkilegt að ríkisstjórnin hefur komist undan því, og þar getum við kannski öll kennt okkur um, að standa í rauninni reikningsskil varðandi sína afstöðu og mat á því hver staðan verður eftir að húsið hrynur yfir þá sem eftir eru EFTA megin innan Evrópska efnahagssvæðisins. Hæstv. utanrrh. er svona að tjá sín viðhorf eftir því sem menn toga upp úr honum álit í umræðum hér hvernig þessi staða verði. Nokkrir þingmenn Framsfl. í þeim hópi sem hefur verið að fjölga í undanfarna daga og ætlar að styðja þetta mál efnislega með því að sitja hjá við afgreiðslu þess en er í rauninni samþykkur málinu ef marka má málflutning þeirra. (Gripið fram í.) Þingflokksformaður Alþfl. segir hér að það

séu einhver sprek sem hann eigi eftir að safna í púkkið úr þingflokksherbergi Framsfl. Væri ágætt ef hv. þingflokksformaður upplýsti þingheim um það hvaða sprek það eru sem ekki eru komin til grafar, hvað kurl þarna vantar á. Hv. þm. hefur verið mjög ötull að spá í þetta og safna í þessa kolagryfju. Og Alþýðublaðið tekið svona fjórðunginn af sínu litla rúmi síðustu vikurnar til þess að lýsa niður í þessa gryfju og segja hvað upp úr henni muni koma að lokum. Því miður hefur þetta málgang Alþfl. verið helst til sannspátt í þessum efnum. Því miður. Það er ekkert óeðlilegt þó að formaður þingflokks Alþfl. sé nokkuð kampakátur í sambandi við þá stöðu mála. Ég lái honum það ekkert.
    En hæstv. utanrrh. hann hefur komið sér hjá því að leggja fyrir þingið greinargerð um það hvernig hann metur stöðu mála eftir að Ísland stæði eitt, eða svo gott sem, í hópi þeirra sem ættu að bera uppi Evrópska efnahagssvæðið. Kem ég þá aðeins að því, virðulegur forseti, sem ég óska eftir að hæstv. ráðherra svari, og ef hann treystir sér ekki til þess einn að kalla þá til forsrh. til þess að svara því sem varðar eitt atriði þessa máls, þ.e. um stöðuna í framtíðinni ef svo færi að vaxandi fjöldi EFTA-ríkja gengi inn í Evrópubandalagið.
    Um það atriði er fjallað í áliti meiri hluta utanrmn. á bls. 6. Ég leyfi mér að vitna til þess örstutt, virðulegur forseti. Þar segir: ,,Forsrh. hefur lýst yfir vilja ríkisstjórnarinnar til að kanna með bréfi og formlega hjá framkvæmdastjórn EB hver staða Íslands yrði á grundvelli EES kæmi til þess að önnur EES-ríki gengju í EB.``
    Þetta er að finna í meirihlutaáliti utanrmn. og ég hef skilið það svo að þetta tengist þeim þræði sem já-liðið í þingflokki Framsfl., þessir sem fara út um þann endann í afstöðu til málsins með því að sitja hjá við afgreiðslu þess, ætlar m.a. að hanga á. Mér sýnist þetta nú vera bláþráður a.m.k. enn sem komið er því að engar spurnir eru um að bréfið sé farið. Hvort sem það er nú vegna þess að þeir hjá ríkissjóði eigi ekki fyrir póstburðargjaldinu eða af hvaða ástæðum það er. Að minnsta kosti hefur það ekki verið kynnt í tengslum við þessa umræðu svo ég hafi tekið eftir.
    Ég spyr hæstv. utanrrh. að því: Hvar er þetta mál statt að koma þeim stórbrotna vilja ríkisstjórnarinnar fram að forsrh. Íslands kanni með bréfi og formlega hjá framkvæmdastjórn EB hver staða Íslands yrði á grundvelli EES kæmi til þess að önnur EES-ríki gengju í EB? Er búið að gera uppkast af bréfinu, hæstv. utanrrh.? Er búið að senda bréfið? Eru jafnvel komið fram viðbrögð við þessu bréfi? Og síðan hitt: Hver eru viðhorf ríkisstjórnar Íslands til málsins? Það er kannski ekki eðlilegt að varpa þessari spurningu yfir til Evrópubandalagsins í þessari stöðu mála. Satt að segja er þetta nokkuð kynlegt tiltæki og ég hef skilið það svo að þetta sé huggunarbréf sem eigi að létta þeim atkvæðagreiðsluna sem ætla að skila sér út um þann endann hjá Framsókn að styðja málið efnislega. En það skýrist væntanlega í framhaldinu.
    Ef hæstv. forsrh. er í þinghúsi væri ágætt að hann vissi einnig af því að að þessu hefur verið vikið og ég er reiðubúinn að endurtaka það ef að hæstv. forsrh. kemur í þingsal. ( Forseti: Forseti vill upplýsa hv. þm. um að forsrh. mun vera í húsinu og ég óska eftir að hann verði beðinn að koma til þingsalar). Já, takk fyrir.
    Þetta tengist auðvitað stöðu landsins í framtíðinni gagnvart Evrópubandalaginu. Í því samhengi verður ekki komist hjá því að minna á bók sem lögð var fram af hæstv. utanrrh. í þinginu í marsmánuði sl. sem er í raun, litið til baka, hæstv. utanrrh., kannski ein stærstu tíðindi ársins 1992 þó ég haldi að gleymst hafi að geta þeirra í flestum yfirlitsþáttum um árið, jafnt á síðum Alþýðublaðsins sem í ríkisfjölmiðlum. Það er hin gilda skýrsla utanrrh. Íslands til Alþingis í marsmánuði 1992 sem hefur að gleyma heljarstökk í viðhorfi eins ráðherra sem staddur er í miðri á að reyna að koma á samningi um Evrópskt efnahagssvæði en boðar það í skýrslu sinni til þingsins fyrir tæpu ári síðan að þetta sé líklega allt saman tóm vitleysa og geti verið stefna sem þurfi að endurmeta á stundinni hvort að eitthvað eigi að vera að þessu. Og í staðinn beri að taka það til alvarlegrar athugunar og fara að vinna að því með formlegum hætti að meta það hvort Ísland eigi ekki að slást í hóp EFTA-ríkjanna sem hafa verið að sækja um aðild að Evrópubandalaginu.

    Hæstv. utanrrh. varði í blóð þetta viðhorf sitt við umræðu um skýrslu sína í mars sl. En það sem á skorti að hæstv. ráðherra sneri við í ánni í stríðum streng í þessu máli var það að forsrh. Ísland veitti honum ekki stuðning til þess á þeim tíma. Ég skildi það svo að það hefði komið í veg fyrir að þær óskir utanríkisráðherrans gengju fram að fara strax í það fyrir tæpu ári síðan að sækja um aðild að Evrópubandalaginu og láta á það reyna.
    Ég held að það hafi verið hygginna manna ráð út frá stöðu þeirra sem hafa verið að sækja um aðild að Evrópsku efnahagssvæði að draga það við sig að taka þarna undir. Og í þeim hópi var hæstv. forsrh. Ég er smeykur um að erfitt hefði reynst fyrir ríkisstjórn landsins að fá fyrir því fylgi á þessari samkomu, Alþingi Íslendinga, að sækja um aðild að Evrópubandalaginu á því ári sem liðið er. Ég er hræddur um að hefði verið ansi snúið og jafnvel innan þingflokka ríkisstjórnarinnar. Þó efast ég ekkert um það að hæstv. utanrrh. hefði haft gott taumhald á sínum flokki í þessu máli, enda hefur Alþfl. í vaxandi mæli sótt í þessa áttina, strekkt í þessa áttina, og þingmenn úr hans röðum talað fyrir þessu með skýrum hætti í þingsölum og þarf ekki að fjölyrða um það.
    Ég held hins vegar að hvað sem líður þessari stöðu verðum við að horfa á það opnum augum að annar stjórnarflokkanna er þeirrar skoðunar að þarna eigi að sækja um aðild. Sjálfstfl. er tvíátta í málinu. Forsrh. var þeirrar skoðunar fyrr á árum að þetta ætti að gerast en hann hefur sem formaður flokksins ekki kveðið upp úr um það heldur þvert á móti borið á móti því að þetta geti verið á dagskrá í tíð sinnar ríkisstjórnar.
    En vegna þess að hæstv. forsrh. hefur orðið við beiðni minni að koma hér aðeins í þingsal vegna umræðunnar vil ég rifja það upp sem kemur fram í meirihlutaáliti utanrmn. á bls. 6, þar sem segir:
    ,,Forsrh. hefur lýst yfir vilja ríkisstjórnarinnar til að kanna með bréfi og formlega hjá framkvæmdastjórn EB hver staða Íslands yrði á grundvelli EES kæmi til þess að önnur EES-ríki gengju í EB.``
    Ég var að inna hæstv. utanrrh. eftir því hvar þetta mál væri statt og tel eðlilegt að beina því beint til hæstv. forsrh. sem er viðstaddur umræðuna. Þetta var erindið sem ég átti við forsrh. og ég vil ekki binda ráðherrann við önnur atriði nema eitthvað sérstakt beri við sem ástæða sé til, en þykir auðvitað betra að vita af nærveru hans hér í þessu máli sem svo mjög varðar stöðu ríkisstjórnar hans.
    Það er kannski ekki síst ástæða til að staldra við þessar horfur í sambandi við aðildina að Evrópubandalaginu og þær raddir sem mæla með slíkri aðild hér í þinginu og hefur þeim því miður heldur farið fjölgandi þar sem sumir, sem hafa lent upp á girðingu, hafa dottið niður í þann pyttinn, niður í EB pyttinn, þegar að þeir hafa hugleitt sína stöðu um hríð á girðingunni. Vegna Framsóknarflokksins, sem að byggði kosningabaráttu sína í síðustu alþingiskosningum alveg sérstaklega upp á því að það mætti aldrei verða að Ísland gengi í Evrópubandalagið, hlýtur það að vera ekkert lítið umhugsunarefni þegar leitað er eftir staðfestingu á samningi sem hefur að geyma um þrjá fjórðu hluta af samanlögðum gerðum Evrópubandalagsins, lögum, reglugerðum og tilskipunum Evrópubandalagsins. Og þar sem verið er að binda okkur við þennan vagn og það eru náttúrlega kannski langstærstu pólitísku tíðindin í sambandi við þetta mál að það sé að koma í ljós að hátt í helmingur af þingmönnum Framsfl. ætla að greiða götu þessa samnings í gegnum þingið tæpum tveimur árum eftir að flokkurinn reyndi að byggja upp kosningaáróður sinn á því að hann væri bakfiskurinn í andstöðunni við inngöngu í Evrópubandalagið. Það er satt að segja alveg með ólíkindum að hver þingmaðurinn eftir annan úr þessum flokki skuli ganga hér upp, mæla efnislega með samningnum og segja: Ég ætla ekki að beita mínu atkvæði gegn honum, ég ætla að sitja hjá í atkvæðagreiðslunni. Það er ótrúlegt hvað menn eru fljótir að gleyma og reyndar þarf ekki að fara aftur til kosninganna 1991 um vorið, því að mönnum er í fersku minni samþykktir flokksþings Framsóknarflokksins varðandi þetta mál, þar sem að formaður flokksins hafði ötullega unnið að því að reyna að skapa samstöðu um málið og eðlilega byggt brú þar sem hann taldi að flestir og helst allir gætu gengið yfir vegna stjórnarskrárþáttar málsins. En meira að segja það sund virðist vera lokað fyrir þá

sem hafa fengið trúna á því að framtíð Íslands eigi að liggja eftir þessari götu sem að hér er verið að varða með þessum samningi.
    Einn er sá þáttur þessa máls, virðulegur forseti, sem hefur lítið komið til umræðu um þetta mál og í raun allt of lítið til skoðunar en tengist því ekkert lítið. Það er afstaða okkar til lögsögu dómstóls Evrópubandalagsins að því er varðar túlkun og dóma á samningssviðinu. Þá er ég ekki að tala um það sem að mikið hefur verið rætt og eðlilega undirstrikað, það stjórnarskrárbrot sem felst í því afsali dómsvalds sem er í samningnum sjálfum, heldur tengsl 6. gr. samningsins við stöðu þeirra sem að gerast aðilar að samningnum í EFTA-ríkjunum og verða bundnir nánast með sama hætti og um Evrópubandalagsríki væri að ræða.
    Og til þess að koma aðeins að þessu máli með skipulegum hætti, virðulegur forseti, þá leyfi ég mér að vitna til 6. gr. samningsins. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Með fyrirvara um þróun dómsúrlausna í framtíðinni ber við framkvæmd og beitingu ákvæða samnings þessa að túlka þau í samræmi við úrskurði dómstóls Evrópubandalaganna sem máli skipta og kveðnir hafa verið upp fyrir undirritunardag samnings þessa, þó að því tilskyldu að þau séu efnislega samhljóða samsvarandi reglum stofnsáttmála Efnhagsbandalags Evrópu og stofnsáttmála Kola- og stálbandalagsins og gerðum sem samþykktar hafa verið vegna beitingar þessa tveggja sáttmála.`` Það er nú ekkert minna sem í þessu felst. Og við erum að lögtaka þennan samning í heild og 119. gr. þessa samnings njörvar það niður. Það var gengið eftir því á síðasta þingi, af minni hálfu, að fá fram afstöðu hæstv. utanrrh. að því er þetta varðar. Hæstv. ráðherra hefur vikið úr þingsal og ég vona að það verði ekki lengi því að ég inni hann eftir afstöðu til þessa þáttar málsins, virðulegur forseti. Bið forseta að láta þingmanninn vita um það, ef hann ekki birtist fljótlega. Í svari hæstv. utanrrh. við fyrirspurn minni á síðasta þingi um úrskurði dómstóls EB um EES-samninginn segir, það eru tveir þættir. Ég leyfi mér að vitna í svarið, virðurlegur forseti. Fyrri liður fyrirspurnarinnar var: ,,Hvaða athuganir og úttektir hafa verið gerðar á vegum íslenskra stjórnvalda eða EFTA á úrskurðum EB-dómstólsins frá upphafi, sbr. 6. gr. EES-samningsins?`` Og svar ráðherrans var:
    ,,Hátt í eitt hundrað sérfræðingar Stjórnarráðsins og undirstofnana hafa tekið þátt í samningagerð við EES-samninginn á undanförnum árum. Þegar ákvörðun var tekin hverju sinni um að taka inn í EES-samninginn samhljóða ákvæði og er í stofnsáttmála Evrópubandalagsins var það kannað hverju sinni hvaða þýðingu ákvæðið hefði með hliðsjón af dómaframkvæmd EB-dómstólsins. Var það gert með því að kanna eitt eða fleiri hinna fjölmörgu fræðirita eða handbóka sem eru til um þetta efni, með munnlegum samtölum við aðra sérfræðinga, bæði innan og utan samningafunda, eða með því að skoða einstaka dóma eftir atvikum.``
    Annar liður fyrirspurnarinnar var: ,,Með hvaða hætti verða þessir dómsúrskurðir kynntir Alþingi og almenningi áður en umræða hefst á þingi um EES-samninginn?`` Og svarið var:
    ,,Þeir dómar, sem skipta máli, eru þeir sem fjalla um ákvæði stofnsáttmála Evrópubandalagsins sem eru efnislega samhljóða í EES-samningnum. Í viðbæti við frumvarp til laga um Evrópska efnahagssvæðið verður yfirlit yfir þessi ákvæði. Þessu yfirliti er ætlað að auðvelda lesendum að kynna sér þá dóma, sem hér um ræðir, í þeim ritum sem til eru um Evrópurétt, t.d. Evrópurétti Stefáns Más Stefánssonar (392 bls., Reykjavík 1991), svo eitt dæmi sé tekið. Að auki er ætlunin að gera grein fyrir helstu dómum í athugasemdum við einstakar greinar við samninginn í fyrrgreindu frumvarpi. Þetta er sú leið sem hefur verið valin annars staðar á Norðurlöndum.
    Rétt er að taka fram í þessu sambandi að framangreindir dómar eru ekki hluti af EES-samningnum, heldur aðeins lögskýringargögn til þess að samræma túlkun. Það breytir því ekki að æskilegt er að allir þessir dómar séu bæði aðgengilegir og þýddir. Finnar ráðgera að taka ákvörðun í því efni eftir að EES-samningurinn tekur gildi. Fellur það í hlut Alþingis að ákveða fjárveitingar í þetta verkefni hvað Ísland varðar, en vert er að hafa í huga að aðildarlöndin í Evrópubandalaginu, Danmörk, Grikkland og Portúgal, hafa ekki látið þýða dóma EB-dómstólsins sem féllu fyrir inngöngu þeirra í bandalagið.``
    Þetta er svar utanríkisráðherra við fyrirspurn minni á síðasta þingi um þetta mál. Nú síðan gerðist það á ráðstefnu sem haldin var á vegum Lögfræðingafélags Íslands í júnímánuði sl. að þetta mál kom nokkuð til umræðu. Það var haldið á vegum Lögfræðingafélagsins og Ríkisútvarpsins 20. júní 1992. Þar var þetta mál nokkuð til umræðu og ég vil vitna hér til ummæla eins þeirra lögfræðinga sem tóku þátt í pallborðsumræðu um málið. Það er Ragnar Aðalsteinsson. Hann tjáði sig um þetta efni með svofelldum hætti, og nú fer ég að sakna hæstv. utanrrh. dálítið, virðulegur forseti. ( Forseti: Forseti skal sjá til þess að hann verði beðinn að koma í sal). Það er orðrétt tilvitnun í ummæli Ragnars Aðalsteinssonar hrl.: ,,Ef ég mætti bæta við þetta því sem áður hefur komið fram að meðal réttarheimilda íslenskra eftir 1. janúar 1993, ef fram fer sem horfir, eru dómar dómsstóls Efnahagsbandalagsins. Og strax á næsta ári þá þurfa þeir sem flytja mál fyrir íslenskum dómstólum að geta vitnað til þeirra réttarheimilda. Samkvæmt alveg ljósum fyrirmælum íslenskra laga er dómsorð íslenska og það verður að vitna til þessara réttarheimilda á íslensku og dómstólarnir munu ekki taka við lélegum þýðingum og óljósum okkar lögmannanna, heldur krefjast þess að við vitnum í réttarheimildirnar á dómsmálinu og þess vegna eru þessar réttarheimildir ekki fram komnar og það er óhjákvæmilegt að þær verði lagðar fyrir Alþingi áður en afstaða verður tekin til samningsins, því annars er þetta allt saman unnið fyrir gýg því það stæðist ekki okkar lagafyrirmæli, bæði í stjórnarskrá og í almennum lögum um lagasetningu, þannig að þetta er bara verk sem þarf að vinna sem fyrst.``
    Sem betur fer hefur hæstv. forsrh. hlýtt á mál mitt að því er þetta varðar. Ég var, hæstv. utanrrh., að þér fjarstöddum að rekja stöðuna að því er varðar 6. gr. samningsins, þ.e. úrskurði dómstóls Evrópubandalagsins fram að þessu sem verður í rauninni hluti af íslenskri löggjöf að samþykktum þessum samningi að því er alla túlkun varðar, samkvæmt efni 6. gr. samningsins og enn frekar vegna ákvæða 119. gr. Og ég vitnaði til ummæla Ragnars Aðalsteinssonar á fundi 20. júní 1992 að þessu leyti, þar sem hann með skýlausum hætti segir það sitt álit að þessir úrskurðir verði að liggja fyrir í vandaðri íslenskri þýðingu áður en að samningurinn verði lögfestur og áður en á það reyni að taka þurfi afstöðu til eða fjalla um mál sem að tengjast samningssviðinu fyrir íslenskum dómstólum. Og því spyr ég hæstv. utanrrh.: Hver er staða þessa máls, hvað er komið því verki að þýða þetta dómasafn til þess að uppfylla ákvæði íslenskra laga og íslensku stjórnarskrárinnar? Svo að ég noti tilvitnun í ummæli hæstaréttarlögmannsins sem ég vitnaði til hér áðan. Í svari hæstv. utanrrh. við fyrirspurn minni á síðasta vetri er vísað til fjárveitinga sem þurfa að liggja fyrir. Ég vænti að að því hafi verið hugað af hálfu ráðherrans að tryggja að ekki strandaði á því, annað væri mikil ósamkvæmni. Og ég spyr því hæstv. ráðherra og bið um skýrt svar, helst nákvæmt svar hér eftir því sem ráðherrann getur gefið. Hvar er það verk statt sem að þarf að vinna til að íslenskt réttarkerfi geti gengið fyrir sig að samþykktum samningi um Evrópskt efnahagssvæði?
    Hæstv. ráðherra hefur, til þess að standa við loforð gefið á síðasta þingi, skilað til þingsins í formi handrits frá utanrrn. kveri sem heitir Dómareifanir vegna EES-samningsins. Það er merkt sem handrit og ber undirfyrirsögnina: Dómaframkvæmd EB-dómstólsins vegna ákvæða Rómarsamningsins sem eru ,,efnislega samhljóða`` ákvæðum EES-samningsins. Ég veit ekki að hve miklu leyti utanrmn. þingsins hefur farið í gegnum þetta plagg í meðferð sinni yfir samninginn en vek athygli á því að þetta er auðvitað jafngilt og hefur nákvæmlega sömu þýðingu og hvað annað sem að snertir þetta mál sem alveg ákvarðandi atriði. Alveg ákvarðandi fyrir stöðu þeirra sem gerast aðilar að þessum samningi. Ég teldi út af fyrir sig þörf á því að vísa til dæma úr þessu handritasafni utanrrn. um þessar dómareifanir, en ég skal hafa það í styttra lagi. En rétt til að gefa mönnum forsmekk að því ef mönnum er það ekki ofarlega í huga og skal fara yfir fáein dæmi af fyrstu blaðsíðum þessa handrits til að varpa svolitlu ljósi á þetta. Á bls. 2 í þessu kveri er vitnað í fyrsta lagi, undir fyrirsögninni: Meginreglan um bann við mismunun, til máls 167 frá 1973 sem heitir: Framkvæmdastjórnin gegn aðildarríkinu Frakklandi. Það er varðandi frjálsan

flutning fólks milli landa samkvæmt ákvæðum Rómarsamningsins og niðurstaðan er hjá Evrópudómstólnum með orðum handritsins, með leyfi forseta: ,,Óheimilt er að halda í gildi í landsréttinum ákvæðum um mismunun á grundvelli þjóðernis. Engu skiptir þó sönnuð séu munnleg fyrirmæli til stjórnvalds frá æðra stjórnvaldi um að beita ekki ákvæðunum. Á meðan að ákvæðin eru ekki numin úr gildi þurfa borgararnir að búa við óviðunandi réttaróvissu. Því er hvers konar hindrun á jöfnum aðgangi að vinnu talin brjóta í bága við 7. gr. sbr. 48. gr. Rómarsamningsins, jafnvel þótt hún teljist minni háttar eins og í þessu tilviki.``
    Ég nefni þetta vegna þess að þetta varðar auðvitað eitt af þessum fjórum frelsum og stöðu þeirra sem hugsanlega eru t.d. að verja sinn rétt hér, þ.e. íslenskra borgara. Og menn hafa látið að liggja að í ákveðnum tilvikum þá njóti Íslendingar þar forgangs. En hér liggur fyrir dómur sem að þrengir undanþágurnar og er eitt dæmið um slíkt.
    Nú hér er dómur sem er nr. 61 frá 1977, Framkvæmdastjórnin gegn aðildarríkinu Írlandi. Málvextir eru reifaðir þannig: Samkvæmt ákvæðum írskra laga var skipum af ákveðinni lengd og vélastærð óheimilt að veiða í írskri lögsögu. Bannið snerti afar fá írsk skip en verulegan hluta erlendra skipa sem voru að veiðum í írskri landhelgi. Og niðurstaða Evrópudómstólsins varðandi málið: ,,EB löggjöfin bannar ekki einungis beina mismunun á grundvelli þjóðernis heldur einnig óbeina mismunun, sem leiðir til sömu niðurstöðu. Landsrétturinn brýtur í bága við 7. gr. Rómarsamningsins þegar forsendur þær sem liggja að baki landsréttinum leiða í framkvæmd til þess að erlendum skipum er haldið utan lögsögu ríkisins.`` Ég vil ekki staðhæfa að þetta ákvæði gildi eða komi mikið inn í mál, eins og staðan er núna, en gæti þó gert það vegna tvíhliða samnings, sem er annað mál á dagskrá þessa þings, milli Íslands og Evrópubandalagsins. Ég tala nú ekki um hugsanlega frekari samskipti á sjávarútvegssviði.
    Þá nefni ég hér annað efni sem að vakti mjög mikla athygli og snertir okkur hugsanlega í framtíðinni einmitt vegna samskipta á sjávarútvegssviði sem er mál 221 frá 1989 og heitir ,,Factortame``. Málavextir, sem eru væntanlega nokkuð í fersku minni þegar lesið er: ,,Með breskum lögum frá 1988 var það gert að skilyrði þess að unnt væri að nýta breskan fiskveiðikvóta að eigendur skipa ættu lögheimili í Bretlandi og væru breskir ríkisborgarar. Lögaðilum í útgerð var gert að hafa heimilisfesti í Bretlandi og 75% af hlutafé varð að vera í eigu breskra ríkisborgara. Fyrirtækið Factortame, sem er í eigu Spánverja, sætti sig ekki við löggjöfina.``
    Niðurstöður dómsins sem var Spánn gegn Bretlandi eru reifaðar hér þannig: ,,Samkvæmt núverandi löggjöf EB á hvert aðildarríki að ákveða nauðsynleg skilyrði fyrir skráningu í skipaskrá viðkomandi ríkis. Ríkið verður þó að gæta þess að skilyrðin séu í samræmi við meginreglu EB-réttar.
    Ákvæði bresku laganna eru andstæð reglum EB og þá sérstaklega 52. gr. Rómarsamningsins um staðfesturétt. Það er hins vegar ekki andstætt EB-rétti að aðildarríki bindi skráningu fiskiskips í skipaskrá þeim skilyrðum að úthaldi þess og útgerð sé stjórnað frá viðkomandi ríki.``
    Þarna tapaði Bretland fyrir dómnum að þessu leyti og þarna er miklu meiri opnun á veiðum útlendinga í breskri landhelgi en bresk lög gerðu ráð fyrir. Ég held að við Íslendingar eigum að gera okkur ljósa grein fyrir stöðu okkar, einmitt gagnvart dómstólnum að því er varðar öll mál er undir samninginn heyra en einnig á sjávarútvegssviði vegna frekari samskipta.
    Ég vil nefna dæmi sem er mál 132 frá 1980 og mál 46 frá 1976 sem heita United Foods og Bauhuis og varða svokölluð þjónustugjöld vegna heilbrigðisrannsókna á fiski, það fyrra, og hið síðara varðandi heilbrigðisrannsóknir á nauta- og svínakjöti. Þarna dæmir dómurinn það ólöglegt að innheimta sérstök þjónustugjöld vegna slíkra skoðana. Ég held að það sé svolítið umhugsunarefni fyrir íslensk stjórnvöld sem eru í vaxandi mæli að fara inn á braut þjónustugjalda í sambandi við ýmis efni að Evrópudómstóllinn hefur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar kveðið upp dóma sem í rauninni telja að um viðskiptahindranir sé ræða sem eru óheimilar og telur að slík gjaldtaka geti leitt til viðbótahindrana á viðskipum innan bandalagsins sem þetta varðar.
    Þá er hinn frægi dómur sem er genginn inn í orðasafnið sem tengist Evrópsku efnahagssvæði og umræðunni um það og þrengir kosti okkar Íslendinga að ræða málin í raun, ég tala nú ekki um almenning sem hefur ekki aðstöðu til að setja sig inn í þessi efni í hólf og gólf, en það er málið 120 frá 1978 sem gengur undir heitinu ,,Cassis de Dijon`` og hv. 5. þm. Norðurl. e. mundi bera fram betur en ég. Þetta er kennt við franska víntegund, að ég hygg, og er orðið eitt af þeim meginhugtökum í EB-rétti sem gengur yfir Ísland að samþykktum þessum samningi, þ.e. ,,Cassis de Dijon prinsippið`` sem svo er kallað og byggir einmitt á niðurstöðu dómsins. Málavextirnir voru þeir að stefnendur hugðust flytja til Þýskalands franska drykkinn Cassis de Dijon og af því spratt málið. Niðurstöður málsins, svo ég hraði för minni yfir þetta, eru reifaðar þannig:
    ,,Þegar ekki eru fyrir hendi EB-reglur um framleiðslu og markaðssetningu á áfengi þá setja aðildarríki hvert fyrir sig reglur um þessa hluti. Viðskiptahindranir sem rætur sínar eiga að rekja til ólíkra reglna aðildarríkja verða að teljast leyfilegar ef þær eru nauðsynlegar til að framfylgja lögmætum markmiðum. Þau markmið geta verið virkt skattaeftirlit, opinberar heilbrigðiskröfur, sanngjarnir viðskiptahættir og neytendavernd.
    Hafnað var að heilsuverndarsjónarmið gætu réttlætt þessa löggjöf um lágmark vínandainnihalds, enda stæði neytendum þegar til boða mikið úrval veikra og meðalsterkra drykkja. Ekki var heldur talið að neytendavernd gæti réttlætt löggjöfina, þar sem krafa um lágmark vínandainnihalds gæti ekki talist nauðsynleg trygging fyrir sanngjörnum viðskiptaháttum. Einfaldara væri að krefjast þess að upplýsingar um uppruna vörunnar og vínandainnihald drykkjarins kæmu skýrt fram á umbúðum.
    Umræddar kröfur um lágmark vínandainnihalds byggja ekki á lögmætum markmiðum og geta því ekki gengið framar meginreglunni um frjálsa vöruflutninga. Í tilviki sem þessu er því um að ræða brot á 30. gr. Rómarsamningsins.``
    Þessi dómsniðurstaða hefur síðan orðið mjög víðfræg því á henni er byggð þrenging á rétti stjórnvalda hvers ríkis til þess að koma við sérkröfum á grunni innlendrar löggjafar, í þessu tilviki um heilsuverndarsjónarmið, en getur gilt um fjölmörg önnur svið og teygir sig yfir þau. Þetta má víða finna í undirgögnum þessa máls og vitnað í Cassis de Dijon dómsúrskurðinn, sem er frekari rýmkun á hinu frjálsa streymi á vöru óhindrað af sjónarmiðum eins og deilt var um í Cassis de Dijon málinu.
    Það er líka fróðlegt að líta á mál 249 frá 1981 sem er framkvæmdastjórnin gegn aðildarríkinu Írlandi. Ekki síst í ljósi þess sem hefur borið við eyru okkar talsvert að undanförnu þar sem reynt er að bæta ögn úr hraklegri markaðsstöðu íslensks iðnvarnings með auglýsingum og áskorun til almennings um að kaupa íslenskar vörur umfram erlendar. Þetta mál er reifað þannig í upphafi varðandi málavexti, virðulegur forseti:
    ,,Írsk stjórnvöld skipulögðu þriggja ára kynningarherferð þar sem landsmenn voru hvattir til kaupa á írskum vörum. Einkafyrirtæki var fengið til að stjórna herferðinni og fékk það umtalsverðan opinberan stuðning. Írsk stjórnvöld skipuðu menn í framkvæmdastjórn fyrirtækisins, greiddu stóran hluta herferðarinnar með almannafé og skilgreindu í grófum dráttum markmið hennar.``
    Það þarf kannski ekki að fara mörgum orðum um niðurstöðuna. Allt var þetta slegið niður af Evrópudómstólnum sem ólögmætt samkvæmt 30. gr. Rómarsamningsins.
    ,,Herferð af þessum toga fellur undir bannákvæði 30. gr. þótt um sé að ræða hvatningu en ekki bindandi ráðstafanir svo sem löggjöf. Herferðin getur haft áhrif á samskipti seljenda og neytenda og brotið gegn þeim markmiðum bandalagsins sem lýst er í 2. gr. sbr. 3. gr. Rómarsamningsins.``
    Þannig mætti lengi telja. Þessir dómar eru auðvitað af misjöfnu vægi en þeir eru margir og snerta með beinum hætti það mál sem hér er verið að leita lögfestingar á.
    Eitt sem talið væri af spaugilegra taginu en er auðvitað tengt alvöru málsins er mál 12 frá 1985 og heitir ,,Conegate``. ,,Málavextir: Conegate flutti inn til Bretlands --- nú kemur innan gæsalappa --- ,,hjálpartæki ástarlífsins``. Bresk yfirvöld töldu vörur af þessu tagi vera ósiðlegar eða klámfengnar og falla undir löggjöf sem bannar innflutning þess kyns

varnings.`` ( ÓÞÞ: Hvar er heilbrrh.?) Hvar er heilbrrh.? Það er kannski ekki bara hann sem þyrfti að skoða þetta.
    ,,Niðurstöður: Dómurinn vitnar til Henn og Darby-málsins (reifun nr. 3.3.7) og endurtekur meginregluna um að hverju aðildarríki sé í sjálfsvald sett að ákvarða hvaða reglum er fylgt um almennt siðferði innan lögsögu sinnar. Hins vegar teljist það eitt að tilteknar vörur valda hneykslun ekki nægilega alvarlegt til að réttlæta takmarkanir á frjálsum vöruflutningum. Engin viðurlög eða takmarkanir séu í gildi til að sporna við framleiðslu eða sölu sömu vöru í Bretlandi. Því geti yfirvöld ekki bannað innflutning varnings frá öðrum aðildarríkjum á grundvelli almenns siðferðis þegar í löggjöf innflutningsríkis eru engin ákvæði um bann við framleiðslu eða sölu sama varnings á eigin landsvæði.``
    Þetta mál, 121 frá 1985, sýnist mér ærið umhugsunarefni fyrir hæstv. ráðherra.
    Ég nefni þetta til að gefa til kynna að það kennir margra grasa í þessu kveri og segir þetta kver þó ekki hálfa sögu, því bæði er það takmarkað sem valið er af málum og það er utanrrn. sem velur úr. Ég skal engan dóm leggja á það úrval út af fyrir sig. En ákvæði 6. gr. EES-samningsins er mjög ákvarðandi að því er snertir stöðu samningsaðila að Evrópsku efnahagssvæði gagnvart dómsuppkvaðningum Evrópudómstólsins fram á þennan dag og verður það auðvitað áframhaldandi því dómar sem falla á samningssviðinu verða ekki síður ákvarðandi fyrir þátttökuríkin þó þau kunni að geta reynt að verja sig með öryggisákvæðum í einhverjum tilvikum. Á það skal ég ekki leggja mat hér og nú.
    En spurning mín til hæstv. utanrrh. var: Hver er staða á þýðingum þessa mikla dómasafns Evrópudómstólsins fram til þessa dags? Hvar er því verki komið á vegum utanrrn.?
    Ég gat þess, virðulegur forseti, að ég teldi að þessi þáttur málsins hefði fram til þessa ekki fengið þá athygli sem hann verðskuldar vegna þess hversu gífurlega gildur hann er í þessu máli og hversu sterk staða Evrópudómstólsins er í sambandi við þessi efni. Hér er auðvitað heil fræðigrein á ferðinni og gífurlega stórt málasvið og ég efast um að íslensk stjórnvöld hafi gefið þessu þann gaum sem vert er. Það er verið að vinna í svona málum í norrænu samhengi og ég veit ekki hvort hæstv. utanrrh. hefur nýtt sér þann vettvang sem vert væri miðað við ætlan hans um að Ísland gerist aðili að EES. T.d. var 2.--3. nóv. sl. haldið sérstakt ,,seminar`` á vegum ,,Nordic Council for Research on European Integration Law``, eins og það heitir á enskunni, í Svíþjóð um þetta. Þar er ýmsan fróðleik að finna og væri út af fyrir sig vert að reifa sumt af því sem kom fram á þessu ,,seminari`` hjá sérfræðingum einmitt varðandi réttarstöðuna. Tímans vegna ætla ég að spara mér það en minni á að fyrir liggja margháttuð gögn um þetta efni þar sem menn hafa verið að reyna að lýsa inn í þetta. Ég er hér með svolítinn útdrátt úr þessu. Ég hafði áhuga á því að sækja þetta ,,seminar`` en ég lagði ekki í að fara það á eigin vegum, jafnlítið og ég tengist lögfræðisviði. Hins vegar er þetta auðvitað afar gilt efni í samhengi og gildir þá einu hvort menn verða aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu eða ekki því auðvitað þurfum við að fylgjast með réttarþróun í Evrópu á sem flestum sviðum. Ég held það hafi verið mjög fátt um Íslendinga á þessum vettvangi í Svíþjóð, því miður.
    Þá skal ég, virðulegur forseti, fara að huga að því að ljúka minni ræðu við þessa umræðu þó mjög langt sé frá því að það sé tæmt sem ég hefði viljað ræða um. Ég vil aðeins koma að því undir lok míns máls að það er hörmulegt til þess að vita að við Íslendingar skulum vera í þeirri stöðu að knúið er á um aðild landsins að Evrópsku efnahagssvæði og búið að gera það um árabil en sáralítil vinna hefur verið lögð í að kanna stöðu okkar utan þessa svæðis. Þá á ég við sáralitla vinnu af stjórnvalda hálfu. Ég tel það einn mestan ljóð á í sambandi við þetta mál og málsmeðferð alla hversu lítið hefur verið sinnt því sjálfsagða verki að huga að stöðu Íslands meðal þjóðanna utan þessa svæðis og viðskiptahagsmunum okkar og öðrum tengslum óháð því hvort EES verður að veruleika eða ekki.
    Hver væri staða stjórnvalda hér á landi ef þetta mál færi á þann veg sem æskilegast væri, að það sigldi í strand? Þá hefðu menn að baki þrjú ár, bráðum fjögur, frá því að farið var að leggja meginkraft í þetta eina efni og það er búið að taka upp krafta Stjórnarráðsins og að verulegu leyti Alþingis Íslendinga á sama tíma án þess að menn hafi verið að hyggja að hinu. Hvað ef þetta gengur ekki upp? Ef þetta verður ekki að veruleika? Þessi vanræksla er auðvitað stórkostlega alvarlegt efni og það þrönga sjónarhorn sem tengsl okkar út á við eru lögð undir.
    Ég nefni í þessu samhengi, virðulegi forseti, að á fundi í utanrmn. Alþingis, þar sem ég átti sæti árið 1989 og reyndar um margra ára skeið, daginn sem hæstv. forsrh. og utanrrh. héldu til fundarins í Ósló, gerði ég bókun sem ég hef vitnað til áður í þessum umræðum þar sem ég réði hæstv. forsrh. frá því að leggja nafn sitt undir þessa yfirlýsingu og leggja upp í þessa ferð. Þar flutti ég tillögu um víðtæka athugun á viðskiptalegum hagsmunum Íslands. Hún hlaut ekki byr í utanrmn. en er þar í málsgögnum og má kannski rifja hana upp, með leyfi forseta:
    ,,Utanrmn. telur miklu skipta að sem best samstarf geti haldist innan EFTA sem fríverslunarsamtaka og í samskiptum EFTA-ríkjanna og Íslands við Evrópubandalagið. Nefndin telur hins vegar að margt af því sem nú er á döfinni í samskiptum EFTA og EB þurfi mun nánari athugunar við áður en Ísland geti tekið til þess afstöðu. Það er álit nefndarinnar að jafnhliða eigi að kanna alla möguleika á viðskiptum Íslands við önnur svæði og ríki þar sem um gagnkvæma hagsmuni getur verið að ræða. Í því sambandi bendir nefndin sérstaklega á hugsanlega fríverslunarsamninga við Bandaríkin og Kanada, aukin viðskiptaleg tengsl við Austur-Evrópu og lönd í Austur-Asíu og Suður-Ameríku.
    Utanrmn. skorar á ríkisstjórn og Alþingi að tryggja að þegar í stað verði hafin markvissari vinna en verið hefur til að leiða í ljós þá kosti sem þjóðin á besta í utanríkisviðskiptum. Með öflugu starfi að þessum málum á að vera unnt á næstu missirum að draga upp skýra mynd af viðskiptalegum hagsmunum landsins í víðu samhengi og opna nýjar leiðir í þeim efnum.``
    Þetta var tillagan sem ég flutti í utanrmn. 13. mars 1989. Efni hennar tel ég vera í fullu gildi. Ég hef síðan reynt að líta á einstök atriði þessa máls og minnt á þörfina á því að skoða sviðið undir allt öðru og víðara sjónarhorni en gert er með þessum samningi. Ég get í því sambandi vísað til sérálit míns sem fulltrúa Alþb. í Evrópustefnunefnd vorið 1990, þar sem ég gerði grein fyrir öðrum kostum og sýn minni til þessara mála, hvernig ætti að halda á þessum málum og hver væri hinn kosturinn. Það er oft verið að spyrja: Hvað ef ekki EES? og segja: Það eru engar tillögur um það. Ég bið menn um að kynna sér það sem í álitinu stendur varðandi möguleika Íslands utan slíkra efnahagsheilda og bindandi bandalaga eins og hér er um að ræða.
    Ég er alveg sannfærður um að sú tillaga sem hér liggur fyrir og það frv. til lögfestingar á samningi, sem raunar er enginn samningur enn sem komið er til fullgildingar, er ekki hin farsæla leið fyrir Ísland, hvorki í pólitískum skilningi máls né í efnahagslegu samhengi þó að látið sé að því liggja að í gegnum þennan samning verði okkur best séð farborða í efnahagslegu tilliti. Svo er því miður ekki. Aðild Íslands að þessum samningi mun leiða til þess að staða þjóðarinnar í samfélagi annarra þjóða fer stórlega versnandi hvað snertir pólitíska stöðu landsins, sjálfstæði landsins og möguleika okkar á því að halda utan um hagsmuni okkar í víðtæku samhengi og auðlindir landsins og einnig að því er snertir efnahag okkar og möguleika á að halda fólki í landinu til lengri tíma litið. Eftir mun standa fátækara og fámennara Ísland að nokkrum tíma liðnum.
    Þessi samningur mun ekki breyta öllu í vetfangi. Hann mun ekki breyta því að Íslendingar munu að sjálfsögðu takast á um þessi efni nú og í framtíðinni því að við tekur, ef samningur þessi gengur fram á Alþingi og Íslendingar verða aðilar að Evrópsku efnahagssvæði, samfellt samningaþóf við Evrópubandalagið undir hatti þessa samnings. Það verða því nóg tilefni á Alþingi til að takast á um þetta mál svo ekki þurfi að minna á hitt sem er við sjóndeildarhringinn í höfði þeirra manna sem bera þennan samning fram, þ.e. hugmyndirnar um aðild Íslands að Evrópubandalaginu. Það mun skemmra undan að þær tillögur líti dagsins ljós en marga grunar og látið er að liggja. Ég hef nefnt hér að það kæmi ekki á óvart þó það yrði eitt aðalmál komandi alþingiskosninga, hvort sem þær verða við lok kjörtímabilsins eða fyrr.