Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 12:59:43 (4355)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. forsrh. ætlar mér allnokkurn hlut. Það er rétt hjá hæstv. forsrh. að ég lýsti andstöðu minni við þetta mál og hvernig það var rekið í tíð fyrri ríkisstjórnar og dró ekkert af mér í þeim efnum. Það liggur fyrir skjalfest í mörgum greinum og þingræðum hvernig mín afstaða var þá. Á Alþingi var flutt tillaga að vantrausti á ríkisstjórnina, líklega í desember 1990, borin fram af Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu þá. Það var m.a. verið að kalla eftir mínu áliti í því efni. Ég er sannfærður um að þó ég hefði lagst gegn ríkisstjórninni í atkvæðagreiðsu um vantrauststillöguna, sem ég gerði ekki, ég hélt áfram stuðningi við ríkisstjórnina þrátt fyrir þessa málsmeðferð, hefði það ekki breytt því að málið hefði haldið áfram. Ég skal ekkert segja um ríkisstjórnina og hvað hefði gerst í sambandi við hennar stöðu. En það lá fyrir m.a. í þingræðum, sem ég hef þegar vitnað til, í þinginu á árinu 1989 að Sjálfstfl. studdi málsmeðferð hæstv. utanrrh. með ráðum og dáð. Og þó hluti þingmanna flokksins væri mjög hikandi og með heitingar um að taka upp tvíhliða viðræður við Evópubandalagið og hv. 4. þm. Reykv. bæri fram tillögu ásamt fleiri þingmönnum, þar á meðal úr Kvennalista, um að taka upp tvíhliða viðræður á afmörkuðu sviði þá var hitt alveg jafnljóst að Sjálfstfl. studdi með ráðum og dáð þessa samningsgerð og yfirlýsingar Þorsteins Pálssonar, m.a. í þingræðu 27. nóv. 1989, bera þessu glöggt vitni.