Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 13:05:14 (4358)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég bar fram fleiri fyrirspurnir til hæstv. ráðherra en hann vék að hér. Ég spurði hann hvort það væri hans ásetingur að keyra þetta mál til staðfestingar á þessum samningi sem leiðir það af sér að forseti lýðveldisins fær í hendur til staðfestingar innan 14 daga frá samþykkt slíkra laga frv. til staðfestingar, lög sem eru í raun efnisleg markleysa.
    Ætlar hæstv. utanrrh. að ganga þannig fram gagnvart stjórnarskrá landsins og því sem um er fjallað í 26. gr. stjórnarskrárinnar? Ég vara við að svo sé gert.
    Í öðru lagi spurði ég hæstv. ráðherra varðandi þróunarsjóðinn og hvernig EFTA-ríkin --- ég spurði nákvæmlega að því hvernig EFTA-ríkin stæðu þar að máli gagnvart framkvæmdastjórninni, hverjar tillögur þeirra væru og hvernig lægju þær tillögur um endurskoðun á sjóðnum fyrir. Því það hefur verið greint frá því að EFTA-ríkin vilja fá endurskoðun á þessu atriði. Því var ekki svarað.
    Varðandi svörin þá segir hæstv. utanrrh. að það sé sitt sjónarmið að það þurfi ekki að þýða niðurstöður dóma Evrópudómstólsins, sbr. 6. gr. samningsins. Ég er honum ósammála að þessu leyti. Ég tel að það gangi ekki að þessir dómar liggi ekki fyrir í opinberri viðurkenndri þýðingu. Ég vitna til þeirra ummæla Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns enn og aftur þar sem hann segir, svo ég grípi niður í það sem ég hef áður vitnað til:
    ,,Samkvæmt alveg ljósum fyrirmælum íslenskra laga er dómsorð íslenska og það verður að vitna til þessarar réttarheimildar á íslensku og dómstólarnir munu ekki taka við lélegum þýðingum og óljósum okkar lögmanna heldur krefjast þess að við vitnum í réttarheimildir á dómsmálinu. Þess vegna eru þessar réttarheimildir ekki fram komnar og það er óhjákvæmilegt að þær verði lagðar fyrir Alþingi áður en afstaða verður tekin til samningsins.``
    Þetta er tilvitnun í hæstaréttarlögmanninn. Og varðandi stöðu málsins mætti kannski einhverju síðar bæta.