Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 13:08:07 (4359)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Svarið við fyrstu spurningu hv. þm. er einfalt. Það er já. Þetta staðfestingarfrv. ef að lögum verður er engin markleysa. Það hefur verið leitað álits lagasérfræðinga á því. Forseti Alþingis hefur kveðið upp sinn úrskurð í því efni og við höfum hliðstæður sem ég hef vísað til áður varðandi staðfestingu forseta Finnlands á óbreyttu staðfestingarfrv. og þjóðaratkvæðagreiðslunni í Liechtenstein.
    Önnur spurning var um afstöðu EFTA-ríkjanna varðandi þróunarsjóðinn. Hún liggur fyrir. Af hálfu EFTA-ríkjanna hefur verið sett fram sú krafa að heildarframlagið verði lækkað um sem svarar framlagi Sviss. Af hálfu framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins hefur verið tekið undir það sjónarmið. Það er ein ástæða þess að mikilvægt er að lúka málinu og hafa það ekki opið að það auðveldar þessa niðurstöðu því ella bjóðum við þeirri hættu heim að kröfugerðarþjóðir, eins og t.d. Spánn, geti með þeim rökum að málið sé enn opið haldið kröfum sínum til streitu.
    Af því að hv. þm. nefndi dómareifanirnar er rétt að bæta því við að það er með öðrum orðum ekki okkar áform að þýða þessar dómareifanir með vísan til þeirra raka sem ég flutti áðan. Hins vegar er unnið að því að gera það dómareifunarrit sem hv. þm. vitnaði til sjálfur fyllra og gefa það út í endanlegri útgáfu á næstu vikum þannig að það geti verið lögmönnum, dómurum og laganemum bæði til gagns og skemmtunar.