Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 13:29:48 (4362)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Reykv. vitnaði í tveggja ára gömul ummæli sem Gunnar G. Schram stjórnlagaprófessor mun hafa látið falla í frægum sjónvarpsþætti hjá Ingimar Ingimarssyni. Í framhaldi af því spurði hv. þm. hvort umræddur lagaprófessor væri eða hefði verið ráðgjafi minn og hvort þessi ummæli væru á mína ábyrgð.
    Svörin eru þessi: Hv. stjórnlagaprófessor var ekki ráðgjafi minn á þessum tíma. Í þessum sjónvarpsþætti voru þrjár reginfirrurnar sem þar komu fram bornar til baka sameiginlega af þremur mönnum. Þáv. hæstv. forsrh., Steingrími Hermannssyni og þáv. hæstv. fjmrh. Ólafi Ragnari Grímssyni auk þess sem hér stendur. En allir þrír andmæltum við mjög harkalega rangtúlkunum sem fram komu í þessum ummælum og bárum þær til baka.
    Í annan stað. Umræddur prófessor var ekki ráðgjafi minn á þessum tíma og var það út af fyrir sig heldur ekki síðar. Hins vegar er þess að geta að hann er einn þeirra fjögurra manna, sjálfstæðu fræðimanna, sem tilnefndir voru í nefnd til þess að svara mjög einfaldri spurningu: Hvort EES-samningurinn samræmdist íslensku stjórnarskránni. Þessir fjórir lagasérfræðingar voru allir sammála í svörum sínum við því. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að EES-samningurinn stæðist fullkomlega stjórnarskrána. Þannig að það fer þá ekki milli mála að umræddur prófessor hefur dregið til baka þau sjónarmið sem hann reifaði í

þesum þætti.
    Þriðja atriðið, hv. þm., var þetta: Þingmaðurinn sagði eitthvað á þá leið að hann skyldi ekki hvaða nauður ræki til að hraða málinu. Ég mun nú vera búinn að svara því einum þrisvar sinnum hér að undanförnu og svarið er ákaflega einfalt. Við stöndum frammi fyrir því að eiga aðild að viðbótarbókun sem tekur á því hvert verði framhald samningsins eftir brottfall Sviss. Að því er stefnt að efni og form þessarar viðbótarbókunar liggi fyrir nú um miðjan mánuðinn. Hafi Alþingi Íslendinga ekki afgreitt málið þá vekur það upp spurningu um hvort Alþingi Íslendinga eða hvort Ísland ætli sér nokkra aðild að eiga að þessum samningi. Það er eins skýrt eins og verið getur. Að sjálfsögðu getur sá sem hér stendur ekkert fullyrt að það samkomulag takist á þessum fundi. En það verður látið reyna. Og að því er varðar EFTA-hliðina þá er ein spurning sem er ósvarað: Verður Ísland með eða ekki?