Samningar við EB um fiskveiðimál

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 14:01:46 (4366)


     Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Það voru stoltir Íslendingar sem færðu út fiskveiðilögsöguna á sjötta og áttunda áratug og buðu þá byrginn stórþjóðum og létu ekki ginnast af gylliboðum. En nú aðeins 20 árum síðar, og reyndar ekki það eftir fullnaðarsigur í landhelgisdeilunni, telur hæstv. ríkisstjórn að hún sé að gera góðan samning með því að hleypa á ný fiskiskipum Evrópubandalagsins inn í íslenska fiskveiðilögsögu til að veiða þar í samkeppni við íslensk fiskiskip að fiskstofnum sem eru fullnýttir. Og ég legg mikla áherslu á það: sem eru fullnýttir.
    Það kemur í minn hlut að mæla fyrir áliti minni hluta utanrmn. sem leggst gegn þessum samningi og leggur til að hann verði felldur. Hv. formaður utanrmn. gerði allítarlega grein fyrir sögu þessa máls og skal ég því ekki endurtaka það en vil þó draga fram fáein atriði. Það er rétt sem hv. þm. sagði að í bókun 6 frá 1972 setti Evrópubandalagið fram það skilyrði af sinni hálfu, við getum sagt þá yfirlýsingu, að það áskildi sér rétt til þess að fresta framkvæmd bókunar 6 ef ekki næðist viðunandi lausn, eins og þeir sögðu, á þeim efnahagsvanda sem Íslendingar hefðu valdið nokkrum ríkjum bandalagsins með útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Það var síðan alloft reynt á næstu árum að ná samkomulagi um einhverja lausn á þessu máli, tókst ekki, lengst komst það, eins og kom fram hjá hv. þm. árið 1981 þegar drög voru gerð að rammasamningi. Hv. þm. gerði töluvert úr þessum rammasamningi en ég tel það mjög á misskilningi byggt. Aðstæður voru þá allt aðrar en þær eru nú. Grænlendingar voru þá aðilar að Evrópubandalaginu þannig að fiskveiðilögsaga Íslands og Evrópubandalagsins, þ.e. Grænlands, Evrópubandalagsins fyrir hönd Grænlands, lágu saman eins og allir vita á mjög stóru svæði. Og það var því afar mikill samgangur bæði fiskstofna og fiskiskipa á milli þessara samliggjandi fiskveiðilögsagna og afar eðlilegt að gerð væri tilraun til þess að ná tökum á því sem við Íslendingar töldum vera ofveiði á sumum sameiginlegum fiskstofnum í lögsögu Grænlands eða Evrópubandalagsins.
    Ég get þó upplýst það að eftir að þessi drög lágu fyrir, ég sat þá í ríkisstjórn sem sjávarútvegsráðherra, kom fram hjá ýmsum allmikil óánægja um sum ákvæði þessara samningsdraga, einkum það að veruleg skylda var lögð á herðar Íslendingum að tilkynna Evrópubandalaginu um breytingar á reglum sem við kynnum að ákveða í sambandi við veiðar innan íslenskrar lögsögu. Það er hins vegar hárrétt sem fram kom hjá hv. þm. að formlega strandaði þetta samkomulag á því að ekki náðist saman um veiðiheimildir Evrópubandalagsins í íslenskri fiskveiðilögsögu. Lögð var áhersla á af Íslendinga hálfu að eingöngu væri unnt að benda á fiskstofna sem væru vannýttir og á þeirri stundu þegar þessi drög lágu fyrir var eingöngu, að því að við töldum, unnt að benda á kolmunnann. Hv. þm. taldi það undarlegt að benda á kolmunnann sem er sameiginlegur fiskstofn. Það er alls ekki undarlegt því að það getur verið mikið hagræði í því fyrir þau fiskiskip sem sérhæfa sig t.d. í veiðum á kolmunna að geta elt stofninn á milli fiskveiðilögsagna hinna ýmsu ríkja, þ.e. frá Norðursjónum, gegnum fiskveiðilögsögu Færeyja og inn í íslenska fiskveiðilögsögu. Það er hins vegar rétt að Evrópubandalagið taldi þetta ekki nægjanlegt og á því strandaði formlega að gengið var frá samkomulaginu. Hv. þm. gerði nokkuð úr því að 1989 og m.a. 18. apríl 1990 þegar ég ásamt hæstv. utanrrh. átti fund í Brussel með framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins, átti reyndar einnig viðræður við þann meðlim framkvæmdastjórnarinnar sem fór með sjávarútvegsmál, Marin minnir mig að hann heiti. Það er rétt að þá tjáðum við okkur fúsa til þess að reyna enn að ná samkomulagi og meira að segja gekk ég svo langt að bjóða formalega framkvæmdastjóra sjávarútvegssviðsins að koma til Íslands. En hvers vegna halda menn að hann hafi ekki þáð það? Hann þáði ekki að koma til Íslands vegna þess að í viðræðum við hann tók ég skýrt fram að við gætum ekki með nokkru móti samþykkt veiðar á öðrum fiskstofnum en þeim sem vannýttir væru. Það hefur alltaf verið grundvallaratriði hjá okkur Íslendingum að eingöngu gæti orðið um að ræða fiskstofna sem vannýttir væru. Þá var það reyndar talið vera kolmunninn. Síðan hefur komið í ljós að hér eru fleiri fiskstofnar eins og t.d. langhali og búri sem þá kæmi til greina að skoða veiðar á. En hvers vegna töldum við ekki annað fært en að samþykkja veiðar á vannýttum fiskstofnum? Eins og kemur fram í nál. minni hlutans og eins og reyndar kom fram í framsögu formanns utanrmn. þá erum við að vissu leyti skuldbundnir hafréttarsáttmálanum að heimila nýtingu fiskstofna í þágu mannkyns, minnir mig að það sé orðað, eða með öðrum orðum að þeir fiskstofnar sem við veiðum ekki geta aðrir gert kröfu til að veiða í þágu mannkyns eins og þar er orðað. Því töldum við okkur ekki stætt á öðru en að samþykkja veiðar á slíkum fiskstofnum. Hér er því um mjög mikinn mun að ræða á þessu tvennu. Með þessum samningi er verið að samþykkja veiðar á karfa sem er tvímælalaust fullnýttur og að margra mati ofnýttur fiskstofn á Íslandsmiðum. Ég hygg að það sé ekki nokkur vafi á því að með því að leyfa veiðar á karfa hlýtur að þurfa að draga úr veiðum íslenskra fiskiskipa á þessum sama stofni. Hér er því um svo gjörólíkan gjörning að ræða að mér sýnist það varla sambærilegt.
    Í sambandi við þessi drög sem lágu fyrir 1981, og ég hef þegar vakið athygli á þeim reginmun sem var þá og nú, vil ég aðeins við það bæta að við leggjumst einnig gegn þessum rammasamningi. Eins og kom fram hjá hv. frsm. meiri hlutans er hann nánast að bursta rykið, eins og hann orðaði það ef ég man rétt, af þessum gamla samningi en þá voru hins vegar eins og ég hef þegar rakið aðstæður allt aðrar og því enn óeðlilegra að við Íslendingar séum bundnir af því nú að gera Evrópubandalaginu grein fyrir ýmsum þeim reglum við kunnum að setja innan fiskveiðilögsögu okkar í sambandi við veiðar. Það getur út af fyrir sig enginn haft á móti því að hafa samráð við hvaða þjóð sem er um fiskveiðar á heimsins höfum o.s.frv. en þarna er burstað ryk af samningi sem gerður var við allt aðrar aðstæður en nú eru. Að mínu mati hefði átt að byrja alveg frá grunni og taka fullt tillit til þess í slíkum drögum eða slíkum samningi að nú liggja fiskveiðilögsögur Íslands og Evrópubandalagsins hvergi saman. Á því er vitanlega mikill munur. Eins og kom reyndar fram í ræðu hv. frsm. meiri hlutans þá mun kolmunninn vera sú eina fisktegund sem vitað er um að gangi á milli fiskveiðilögsagna þessara ríkja og við getum að sjálfsögðu ekkert haft á móti því að hafa samráð við Evrópubandalagið um hvernig kolmunninn er nýttur en það ætti þá að takmarka þann samning við það.
    Ég vil geta þess að í áliti minni hlutans fylgir álit minni hluta sjútvn. sem við erum að öllu leyti sammála og ég geri ráð fyrir því að fyrir því verði gerð nánari grein hér á eftir. Ég skal ekki lengja mál mitt mjög um það. En nokkur atriði vil ég þó draga fram.

    Fyrst þegar rætt var um þennan samning var talað um að skipt yrði á 30.000 lestum af loðnu fyrir 3.000 karfaígildi og fullyrt þá að þessi ígildi yrðu að tveimur þriðju hlutum langhali og einum þriðja hluta karfi. Við þetta sættu aðilar í sjávarútvegi sig. Það kom fram nokkur stuðningur við þetta. Ég lýsti þeirri persónulegu skoðun minni að ég taldi þarna vera um hugmynd að ræða sem mætti skoða því að ég hygg að það sé almennt viðurkennt að langhalinn sé vannýttur enn þá þótt svo verði vonandi ekki á næstu árum þá hefur hann verið talinn vannýttur. Þarna kæmi til greina að skipta á slíkum heimildum þótt mér þætti reyndar of mikið af karfa lagt í púkkið. En þetta breyttist og furðufljótt. Nú er eru það orðnar 3.000 lestir af karfa fyrir 30.000 lestir af loðnu.
    Hv. frsm. meiri hlutans taldi að þetta væri sambærilegt og vísaði þá í tölur. Nú er reyndar oft sagt að vísa megi í tölur flestu máli til stuðnings en ég held að í þessu tilfelli sé afar auðvelt að hrekja þær tölur sem hv. framsögumaður rakti hér áðan. Ég hygg að það sé á allra vitorði að hin erlendu skip munu ekki landa sínum karfa á íslenskum mörkuðum. Þeim er jafnvel leyft að frysta hann og geta líka flutt hann ferskan á markaði í Evrópu svo það virðist eðlilegra að bera þetta magn annars vegar af loðnu og hins vegar af karfa saman á grundvelli þess verðs sem fæst fyrir fiskinn á þeim mörkuðum þar sem hann verður seldur. Þetta kemur einnig greinilega fram í töflum sem fylgja áliti minni hluta sjútvn. M.a. er þar tafla sem sýnir meðalverð eða heildarverð, eins og þar er nefnt, þegar aflinn er reiknaður þar sem hann er seldur eða með öðrum orðum karfinn erlendis sá sem er seldur erlendis og innan lands sá sem þar er seldur. Og þar kemur fram að miðað við verðgildið 1991 0,7 á karfa er verðgildið á loðnu 0,04 eða með öðrum orðum svona einhvers staðar á bilinu 1.500--2.000 lestir af karfa. Það nær reyndar ekki 2.000 lestum, er um 1.700 lestir. Þannig að ég held að það fari ekkert á milli mála að hér er mjög vel gert og ríflega boðið Evrópubandalaginu og alls ekki jafngildi. Einnig kemur greinilega fram í áliti minni hluta sjútvn. að vafasamt er að reikna loðnuna á þessu verðgildi því að hún kemur varla til veiða hjá okkur fyrr en í lok veiðitímabilsins og þá er hún að sjálfsögðu verðminni.
    Ekki þótti mér síður athyglisvert það sem kom fram hjá Jakobi Jakobssyni, forstöðumanni Hafrannsóknastofnunar, sem vakti athygli á því að lítið sem ekkert hefur veiðst af loðnu á Grænlandsmiðum undanfarin ár og eins og skýrt er tekið fram í þeim samningi sem við höfum nýlega staðfest hér á Alþingi við Norðmenn og Dani fyrir hönd Grænlendinga um skipti á loðnukvóta þá höfum við heimild til að veiða þá loðnu sem út af gengur eftir að þessir aðilar hafa fullnýtt þær heimildir sem þeir fá samkvæmt samningnum. Og á síðasta ári fengu Íslendingar í sinn hlut til viðbótar eða það sem út af gekk 114 þús. lestir. Og reyndar síðan 50.000 enn til viðbótar vegna mælinga sem sýndu meiri loðnu en áður hafði verið talið. Okkur tókst ekki að ná þessu magni og munaði töluverðu. Þannig að það er æðimargt sem bendir til þess að við mundum hvort eð er fá það magn sem hér er um að ræða til veiða.
    Um það hefur nokkuð verið rætt hvort umræddur 30.000 tonna loðnukvóti Evrópubandalagsins sem það fær frá Grænlendingum mætti framseljast t.d. til Norðmanna og þeir síðan nota sín réttindi til að veiða hann innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Þetta var rætt í utanrmn. og nefndin er fullkomlega sammála um það að þannig sé alls ekki unnt að túlka samninginn heldur séu veiðar Norðmanna eingöngu bundnar við þann hluta loðnukvótans sem þeir fá samkvæmt samningnum eða sem þeir fá beint frá öðrum aðila að samningnum, þ.e. t.d. frá Grænlendingum. Þetta er vitanlega ákaflega mikilvægt atriði og styður það enn mjög svo að umrædd 30.000 tonn sem Evrópubandalagið hefur keypt og ekki getað nýtt kæmu í hlut okkar Íslendinga og þess vegna sé eftir heldur litlu að seilast, þetta kæmi í hlut okkar Íslendinga hvort eð er. Þetta rýrir vitanlega mjög allt það hlutfall milli 30.000 tonna af loðnu og karfa sem menn hafa verið að reyna að meta hér samkvæmt tölum svo þetta er tvímælalaust langt þarna fyrir neðan.
    Á þessum fundi, sem haldinn var sameiginlega með sjútvn. og á mættu Jakob Jakobsson forstjóri og Árni Kolbeinsson ráðuneytisstjóri, þá vakti það athygli að því var ekki mótmælt að líklega væri þetta eini gagnkvæmi samningurinn um veiðiheimildir sem hefur verið gerður sem að öllu leyti fer fram innan fiskveiðilögsögu annars aðilans. Að minnsta kosti var um þetta spurt og fræðimenn sem þar voru gátu ekki bent á nein slík tilfelli. Þannig hnígur allt að því sama að hér er um mjög lélegan samning fyrir okkur Íslendinga að ræða, hér er ekki sá góði samningur sem ráðherrar hafa viljað telja hann.
    Ég sagði áðan að að verulegu leyti vil ég vísa í álit minni hluta sjútvn. og verður mælt fyrir því áliti hér á eftir.
    Eitt er það atriði sem ég vil taka undir með framsögumanni meiri hlutans að við lítum svo á eða viljum líta svo á að ekki séu bein tengsl á milli slíks samnings sem hér er lagt til að gera og tollaívilnana fyrir okkar útflutning til landa Evrópubandalagsins. Þetta hefur alltaf verið okkar stefna. Hins vegar er fullkomlega ljóst að Evrópubandalagið lítur allt öðruvísi á þessi mál. Það kemur náttúrlega fram með yfirlýsingu þess sem er liður af bókun 6 frá 1972 þar sem þeir beinlínis segja að þetta hangi saman og áskilja sér rétt til að fresta tollalækkunum ef ekki verði leyst úr þessu máli. Og það kemur því miður einnig mjög greinilega fram í yfirlýsingu Evrópubandalagsins sem fylgir með drögum að samningi um hið Evrópska efnahagssvæði þar sem Evrópubandalagið áskilur sér rétt til að staðfesta ekki samninginn við Ísland án þess að þetta deilumál verði leyst ,,á viðunandi máta`` eins og þeir segja. Og það sem mér þykir illt er að það er engin gagnyfirlýsing frá íslensku ríkisstjórninni. Það hefði styrkt okkur að sjálfsögðu mjög í þessu máli ef íslenska ríkisstjórnin hefði gagnlýst því yfir að hún liti alls ekki svo á. Einnig hlýtur það nú að stinga nokkuð í augu að báðir samningarnir, þ.e. samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði og samningurinn sem kallaður er hér grundvöllurinn að skiptingu á veiðiheimildum eru undirritaðir í Óportó sama daginn, 2. maí sl. Þannig að ég held að menn hljóti nú í hjarta sínu að gera sér grein fyrir því að hér er um þvingunaraðgerð af hálfu Evrópubandalagsins að ræða og þá er spurning: Eigum við að láta þvinga okkur þannig? Væri Evrópubandalaginu stætt á því að halda því til streitu að þeir fái hér veiðiheimildir á fullnýttum fiskstofni og neita að skrifa undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eða hvað annað sem þeir kjósa að gera? Ég held satt að segja ekki. Ég held satt að segja að þörfin fyrir fisk í Evrópubandalaginu sé svo mikil að við mundum fljótlega njóta þar allra þeirra fríðinda sem unnt er að veita til að þeir fái íslenskan fisk. Ég held að það hafi átt að reyna á þetta miklu ákveðnar og tel reyndar að enn þá beri að vísa þessum samningi frá og láta reyna á þetta meira heldur en gert hefur verið. Því er það þannig að þótt við í minni hlutanum séum því sammála að þetta eigi ekki að tengja saman þá þykir okkur afar óvarlega hafa verið haldið á þessum málum að þessu leyti.
    Við leggjumst þá jafnframt gegn því að sá samningur sem undirritaður var í Óportó verði samþykktur hér á hinu háa Alþingi.
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég held að ég hafi komið flestu því að sem við viljum leggja áherslu á en aðrir nefndarmenn munu að sjálfsögðu bæta hér við. Og sömuleiðis mun minni hluti sjútvn. að sjálfsögðu ræða um þetta mál. Ég vil taka undir það sem hefur komið fram hjá ýmsum að hér er um afar stórt og mikið mál að ræða. Og raunar sorglegt það undanhald sem felst í þessum samningi frá því að við náðum fullum yfirráðum yfir íslenskri fiskveiðilögsögu og höfum talið okkur fullkomlega sjálfráða um það hvernig hún verður nýtt. Ég vil leyfa mér að vona að þetta sé ekki byrjun á einhverju jafnvel enn meira og verra. Það er nú staðreyndin sú að þegar skrattanum er réttur litli fingur, eins og ég hef stundum sagt, þá grípur hann gjarnan alla höndina. Ég er ekki í nokkrum vafa um að eftir að hafa fengið þennan litla fingur þá mun Evrópubandalagið sækja stíft um að fá meiri fiskveiðiheimildir. Ég lýsi eindregið þeirri von minni og ég vona að allir geti tekið undir það að þá verði hvergi nokkurs staðar hvikað ef þessi slæmi samningur verður þá staðfestur.