Brottvísun 400 Palestínumanna frá Ísrael

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 15:30:25 (4374)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Mér þætti vænt um að hæstv. forsrh. yrði einnig gert aðvart um að þessi umræða sé að hefjast.
    Ég kveð mér hér hljóðs utan dagskrár vegna þeirrar dæmalausu uppákomu, þeirra dæmalausu atburða sem heimsbyggðin mátti horfa upp á rétt fyrir jólin, að ísraelsk stjórnvöld tóku þá rúmlega 400 Palestínumenn af svæðum í Palestínu sem þau hafa hernumið og fluttu nauðuga yfir á einskismannsland við landamæri Ísraels og Líbanons, reyndar yfir á svonefnt hernumið öryggissvæði við landamærin sem Ísraelsher bannar umferð á. Þar hírast nú þessir menn, eins og við höfum nú fengið að sjá af myndum í fjölmiðlum, við

hörmulegan aðbúnað, matarlitlir eða matarlausir í óupphituðum tjöldum eða jafnvel algjörlega á berangri. Það er mat hjálparstofnana að verði engin breyting á högum þeirra á næstu dögum sé eins víst að einhverjir þessara manna muni láta lífið á næstunni úr hungri og kulda. Með þessu framferði þverbrýtur Ísraelsstjórn margar grundvallarreglur um mannréttindi og réttaröryggi og sanngjarna málsmeðferð og skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða óbreytta borgara eða sakamenn, né hvort um væri að ræða stríðstíma eða friðar. Þessi framkoma þverbrýtur einfaldlega ýmsar grundvallarmannréttindareglur sem taka til allra manna hvort sem um óbreytta borgara, sakamenn, stríðsfanga eða aðra er að ræða.
    Þetta kemur m.a. skýrt fram í ályktun öryggisráðsins frá 18. des., ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 799. Þar eru þessar aðgerðir harðlega fordæmdar. Í bréfi sem ríkisstjórn Íslands sendi 30. des., og mér hefur ekki tekist að fá afrit af en í fréttatilkynningu utanrrn. er vísað í, lýsir ríkisstjórnin áhyggjum sínum yfir þessari framgöngu ísraelskra stjórnvalda. Ég tel að til þurfi að koma mikið afdráttarlausara orðalag af hálfu íslenskra stjórnvalda. Það vekur athygli mína þegar borin er saman ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna annars vegar, sem samþykkt var einróma, og hins vegar bréf íslenska utanrrh., ef marka má fréttatilkynningu utanrrn., að þar er um allt annað og mikið vægara orðalag að ræða.
    Íslensk stjórnvöld lýsa áhyggjum sínum, íslensk stjórnvöld hvetja til og íslensk stjórnvöld láta í ljósi von um --- að ákvörðun um brottvísum Palestínumannanna verði afturkölluð. En í ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 799 er með óvenju afdráttarlausu orðalagi þessari framkomu ísraelskra stjórnvalda mótmælt. Þar segir öryggisráðið einfaldlega, með leyfi forseta: ,,The Security Council strongly condemns the action taken by Israel the occupying power to deport hundreds of Palestinean citizens`` o.s.frv. Með öðrum orðum, öryggisráð Sameinuðu þjóðanna einróma fordæmir harðlega framgöngu ísraelskra stjórnvalda. Og tekur svo fram að ráðið muni halda áfram að fylgjast með framgangi mála og krefst þess að ísraelsk stjórnvöld leyfi mönnunum þegar í stað að snúa til baka.
    Ég vil því í fyrsta lagi eindregið skora á hæstv. ríkisstjórn að fordæma afdráttarlaust meðferð ísraelskra stjórnvalda á Palestínumönnunum 415 og einnig framgöngu hers og stjórnvalda á hernumdu svæðunum en þar hefur orðið mikið mannfall síðan mótmæli hófust gegn þessum brottvísunum. Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. hvort ríkisstjórnin sé tilbúin til slíkrar algerrar fordæmingar og afdráttarlausrar fordæmingar á framferði Ísraelsstjórnar og ég fullyrði að til þess hefði ríkisstjórnin stuðning þings og þjóðar.
    Ég vil í öðru lagi spyrja hvort því megi ekki treysta að Íslendingar muni styðja að gripið verði til aðgerða gagnvart Ísrael ef þeir, þ.e. Ísraelsmenn, ekki leyfa hinum brottvísuðu mönnum að snúa til baka og Ísraelsmenn beittir þrýstingi eða refsiaðgerðum sem dugi til þess að ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nái fram að ganga. Í ályktuninni sjálfri er vísað til þess að öryggisráðið muni halda áfram að sinna þessu máli. Ég spyr því í öðru lagi: Má treysta því að íslensk stjórnvöld muni styðja að gripið verði til aðgerða gagnvart Ísrael til að knýja þá til að framfylgja ályktun öryggisráðsins?
    Og í þriðja lagi vil ég spyrja hvort íslensk stjórnvöld hyggist á næstunni milliliðalaust reyna að hafa áhrif á stjórnvöld í Ísrael. Innan ríkisstjórnarinnar eru menn sem farið hafa í sérstakar kurteisisheimsóknir til Ísraels, bæði hæstv. forsrh. og núv. formaður Sjálfstfl. og einnig fyrrv. formaður Sjálfstfl. og núv. hæstv. sjútvrh., hafa á undanförnum árum farið í sérstakar kurteisisheimsóknir til Ísraels og ættu því að hafa þar sæmileg sambönd. Þessi framkoma er með öllu óþolandi og hvergi á að líða slíkt á byggðu bóli í heiminum að menn séu gerðir útlægir og landlausir með þessum hætti og jafnvel látnir deyja Drottni sínum úr hungri og kulda. Þjóðir heimsins verða að taka höndum saman til þess að stöðva þetta framferði Ísraels. Ég vona að Íslendingar láti sitt ekki eftir liggja í þeim efnum.