Brottvísun 400 Palestínumanna frá Ísrael

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 15:44:25 (4377)

     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Ég tek undir það með hæstv. utanrrh. að það eigi ekki að refsa mönnum með því að vísa þeim úr landi eða svipta þá búseturétti. Hafi þeir rúmlega 400 karlmenn, sem nú eru landlausir í Suður-Líbanon, gerst sekir um hryðjuverk á að sækja þá fyrir réttum dómstólum og láta þá sæta refsingu samkvæmt lögum síns lands. Ég held að þetta séu þau grundvallaratriði varðandi mannréttindi sem við Íslendingar aðhyllumst, við erum réttarríki og viljum að aðrar þjóðir hafi lög og rétt í hávegum. Þessar kröfur eigum við að setja fram af einurð og sjá til þess að þær nái fram að ganga því að það er ekki aðeins í þágu þessara manna sem þarna er um að ræða heldur þess alþjóðlega samfélags sem við viljum að upp sé byggt í heiminum.
    Ég tel að ríkisstjórnin eigi að halda þessu máli til streitu með þeim hætti sem gert hefur verið. Sem betur fer eru lýðræðislega kjörin stjórnvöld í Ísrael og þau hljóta að taka tillit til þess sem fram kemur á alþjóðavettvangi, og þar finnst mér að sumu leyti þessir menn betur settir heldur en þeir sem nú búa við ennþá þrengri kost og verri, t.d. í Júgóslavíu fyrrverandi þar sem menn geta enga björg sér veitt og erfitt er halda að nokkrum lögmætum stjórnvöldum kröfum um að því fólki sé þyrmt eða því séu einhverjar bjargir veittar. Þess vegna er það sú von í þessu máli að hin löglega kjörnu stjórnvöld í Ísrael láti undan réttmætum þrýstingi og sjái til þess að þessir menn, ef þeir hafi gerst brotlegir við lögin, verði látnir sæta refsingu og mál þeirra skoðað af réttum yfirvöldum en þeim ekki vísað úr landi og þeir gerðir landlausir eins og raun ber vitni um nú.