Brottvísun 400 Palestínumanna frá Ísrael

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 15:59:53 (4383)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það er tvímælalaust að framferði Ísraelsmanna er fordæmanlegt. Og það er sorglegt til þess að vita að það skuli ekki vera skoðun ríkisstjórnar Íslands.
    Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna starfar hópur þjóða, Vestur-Evrópuríki og önnur, minnir mig að þau séu kölluð. Ríkin hafa forustu fyrir þessum hópi til skiptis. Ísraelsmenn hafa hvað eftir annað sótt hart að fá að komast í þennan hóp en því hefur verið þunglega tekið af flestum ríkjunum í hópnum, þar á meðal Íslandi. Og við höfum greitt atkvæði gegn því að þeir væru teknir í hópinn.
    En nú í haust komu hins vegar til sendinefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum fyrirmæli frá utanrrh. um það að greiða atkvæði með inngöngu Ísraels í þennan hóp. Og þar með jafnframt að stuðla að því að Ísrael yrði í vissum tilfellum sérstakur talsmaður, sérstakur málsvari, sérstakur formælandi fyrir Ísland á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þetta tel ég að sé mjög misráðið hjá ríkisstjórninni og tel að utanrrh. ætti að breyta þessari ákvörðun hið fyrsta. Ég geri mér hins vegar engar vonir um að núv. ríkisstjórn fáist til þess að beita Ísraelsmenn eðlilegum þrýstingi til þess að sýna mannúð og eðlilega og siðlega framkomu við þá menntamenn, palestínska menntamenn, sem hún er nú að ofsækja og drepa úr kulda úti í eyðimörkinni.