Brottvísun 400 Palestínumanna frá Ísrael

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 16:01:49 (4384)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu hér og sérstaklega undirtektir hv. þm. En að sama skapi verð ég að lýsa mikilli óánægju minni með svör og viðbrögð hæstv. utanrrh. Ég tel það hneyksli að hæstv. utanrrh. skuli í stað þess að svara spurningum sem bornar eru fram nota ræðutíma sinn hér í málsbætur og málsvörn fyrir Ísrael. Það varð ekki öðruvísi tekið en skilaboð um slíkt, að hæstv. utanrrh. teldi Ísraelsstjórn hafa sér ýmislegt til málsbóta, að hann fór að tíunda þau rök. Og þó svo væri að einhverjir af þessum mönnum væru félagsmenn í Hamas eða Jihad eru það engar málsbætur, hæstv. utanrrh. Með eigin rökum hæstv. ráðherra eiga þessir menn eftir sem áður, án tillits til þess hvaða stöðu þeir gegna í sínu heimalandi, hvaða réttarstöðu þeir hafa þar sem borgarar, þá eiga þeir að fá þar sanngjarna málsmeðferð.
    Það vekur einnig undrun að hæstv. utanrrh. var ekki að bregðast við með sjálfstæðum hætti fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands heldur að svara bréfi sem borist hafði frá ríkisstjórn Ísraels. Og ber þá að skilja það svo að ef ekki hefði þurft að svara bréfinu og búið hefði verið að opna póstinn þá hefði ríkisstjórn Íslands alls ekkert aðhafst í málinu? Enn verri er þá hlutur hæstv. ríkisstjórnar ef svo er.
    Ég minni aftur á að orðalag bréfsins samkvæmt fréttatilkynningu utanrrn. --- ég hef ekki fengið bréfið í hendur og er þó sólarhringur síðan að ég ósakði eftir því í utanrrn. að fá afrit af bréfinu. Og mér var reyndar ekki heldur send ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og varð sjálfur að láta senda mér hana frá New York. Þannig var nú þjónustan sem ég fékk frá utanrrn. á þessum sólarhring til að undirbúa þessa umræðu. En ég vek athygli á því að orðalag bréfsins er þarna allt annað og mikið linara heldur en ályktunar Sameinuðu þjóðanna. Ég spurði um hvort ríkisstjórn Íslands væri tilbúin til að fordæma afdráttarlaust þetta framferði og ég spurði um í öðru lagi hvort ríkisstjórn Íslands vildi taka þátt í refsiaðgerðum gegn Ísrael. Ég bið um svör en ekki málsvörn fyrir fasistana í Ísrael.
    Og svo að lokum verð ég að segja það að ég sé ekki annað ráð, hæstv. forseti, en að Alþingi Íslendinga taki þetta mál sjálft til eigin meðhöndlunar og ég mun skoða það í

framhaldi af þessari umræðu og í ljósi linkulegra viðbragða hæstv. ríkisstjórnar að leggja fram tillögu um afdráttarlausa fordæmingu á þessum aðgerðum sem Alþingi taki þá til sjálfstæðrar skoðunar.