Brottvísun 400 Palestínumanna frá Ísrael

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 16:04:39 (4385)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingímur Hermannsson komst að orði á þá leið að stundum vildi það við brenna að því er varðar afstöðu íslenskra stjórnvalda á alþjóðavettvangi að menn vildu ekki kynna sér tvær hliðar erfiðra og djúpstæðra deilumála. Vera kann að svo sé. Af Íslendinga hálfu ber okkur að líta á tvennt. Í fyrsta lagi kröfuna um það að grundvallarmannréttindi séu virt. Í annan stað þá grundvallarreglu í alþjóðasamstarfi að fordæma skilyrðislaust hryðjuverkasamtök og ódæðisverk.
    Ég taldi mér skylt að láta koma hér fram hverju hefur verið fram haldið til málsbóta af hálfu ísraelskra stjórnvalda og biðst ekkert velvirðingar á því og vísa á bug þeim fráleita samanburði sem fram kom hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að líkja því við það að hlusta á málsbætur nasista. (Gripið fram í.) Það sem um málið er að segja er einfaldlega þetta, virðulegi forseti, að þessi samtök, það er óumdeilt, það liggja fyrir yfirlýsingar um það, þessi samtök sem hér um ræðir, samtökin sem slík, Jihad og Hamas, eru hryðjuverkasamtök, eru ábyrg fyrir hverju ódæðisverkinu á fætur öðru, hafa lýst sig sem algjöra andstæðinga friðarviðræðna sem vonir um einhverjar pólitískar viti bornar lausnir í þessum heimshluta eru bundnar við, og það ber að láta það koma fram.
    Hitt stendur eftir (Gripið fram í.), virðulegi forseti, ef ég má ljúka máli mínu, ( Forseti: Þögn á fundinum.) að á grundvelli þeirrar staðreyndar að ísraelsk stjórnvöld hafa brotið grundvallarreglur Genfarsáttmálans þá hafa íslensk stjórnvöld sagt við þau eftirfarandi: Afturkallið þessa ákvörðun, það er nú það fyrsta. Í öðru lagi, ef um er að ræða að sekt einhverra einstaklinga í þessum hópi liggi fyrir eða sé rökstuddur grunur um það, þá ber að leiða þá fyrir dómstóla í opnum réttarhöldum að hætti réttarríkja. Og þeim kröfum hefur verið komið á framfæri. Þessu til viðbótar þá hafa ísraelsk stjórnvöld auðvitað siðferðilega ábyrgð á velferð þess fólks sem þessari meðhöndlun hefur sætt og þeirri kröfur hefur líka verið komið á framfæri.
    Í framhaldi af þessum umræðum mun ég að sjálfsögðu svara bréfi utanríkisráðherra Ísraels og árétta þessi grundvallarsjónarmið.