Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 17:04:14 (4389)

     Eggert Haukdal :
    Virðulegi forseti. Í kvæðinu ,,Gamalt lag`` spyr skáldið Einar Benediktsson sig þessarar spurningar:

        Því braust ég frá sókn þeirra vinnandi vega
        á vonlausu klifin um hrapandi fell?

    Skáldið svarar þessari spurningu ekki síðar í kvæðinu þótt hann sæi miklu lengra fram á við en við hin. Það hendir okkur mannanna börn stundum á lífsleiðinni, skáld ekki síður en aðra, að villast af vegi og þá þurfum við oft að spyrja ýmissa spurninga. Spurning skáldsins er áleitin við mig og okkur alla hv. alþm. þegar við nú göngum til örlagaríkrar atkvæðagreiðslu þar sem um er að ræða visst afsal á sjálfstæði okkar og opnun landhelginnar fyrir EB, einnig að lögleiða fjórfrelsið milljónum í Evrópu jafnt og okkar í eigin landi og úrskurðarvald flutt út til Brussel. Eigum við að halda á vonlausu klifin um hrapandi fell?
    Ég beini máli mínu til ýmissa flokksbræðra minna. Ég beini máli mínu til hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar og fleiri framsóknarmanna. Ég beini máli mínu til hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Þótt ýmsir, það eru nú raunar fáir enn, séu þegar búnir að greiða atkvæði um 1. gr., þá er enn eftir atkvæðagreiðsla við 3. umr. málsins. Enn er tími til að taka sig á. Síðar í kvæðinu, er ég vitnaði fyrr til, standa þessar ljóðlínur:

        Og bliki þér sjónir af bjartari degi
        að bera þær varlega á annarra vegi.

    Stór hluti íslensku þjóðarinnar sér ekki blika af bjartari degi við inngöngu í EES og þessi hópur krefst þess að þau rök sem utanrrh. beitir í þessu máli fari fram eftir ljóðlínum skáldsins að bera þær varlega á annarra vegi.
    Við þurfum vissulega viðskiptasamning við Evrópu en við þurfum að gá að víðar og minnast þess sem skáldið segir og þá er enn að ég vitna í Einar Ben., þar sem hann segir um land og þjóð:

        Áttvís á tvennar álfu strendur
        einbýl jafnvíg á báðar hendur
        situr hún hafsins höfuðmið.

    Virðulegi forseti. Ég neita að hverfa frá sókn þeirra vinnandi vega og halda út á vonlausu klifin um hrapandi fell. Ég segi nei við Evrópsku efnahagssvæði.