Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 17:16:49 (4396)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til afgreiðslu eftir 2. umr. er eitt það mikilvægasta sem Alþingi Íslendinga hefur haft til umfjöllunar. Málið snýst um það á hvern hátt Íslendingar tengist þeirri viðskiptaheild sem nú er að myndast í Evrópu. Inn á Evrópumarkað fara í dag 70--80% af okkar útflutningi og samskipti okkar við Evrópu á öðrum sviðum fara vaxandi með hverju ári. Á þessum forsendum eru nánast allir sammála um að við verðum að ná hagstæðum viðskiptasamningum við Evrópusamfélagið.
    Í dag bendir flest til þess að samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði verði einungis stuttur kafli í viðskiptasögu Evrópu. Önnur EFTA-ríki hafa ákveðið að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Það er skoðun mín að þar með skilji leiðir með Íslendingum og þeim. Inn í EB eigum við ekkert erindi.
    Í dag snýst málið um það á hvern hátt við getum tryggt viðskiptahagsmuni okkar við Evrópu sem best. Ég tel að það verði best gert með því að fara nú þegar fram á að teknar verði upp viðræður um að breyta viðskiptaþætti EES-samningsins hvað okkur Íslendinga varðar í tvíhliða samning við EB. Fyrir því getum við fært full rök og um slíka málsmeðferð gæti að mínu mati náðst pólitísk sátt í þjóðfélaginu. Og ég skora á hæstv. forsrh. að beita sér fyrir slíkri málmsmeðferð.
    Virðulegi forseti. Það er skoðun mín að það að fella samninginn á Alþingi á þessu stigi geti skaðað hagsmuni okkar í þeim viðræðum sem fram undan eru auk þess sem það mundi gefa þeim öflum sem vilja sækja um aðild að EB byr undir báða vængi. Ég vil hins vegar ekki bera pólitíska ábyrgð á vinnubrögðum núv. ríkisstjórnar og þá sérstaklega hæstv. utanrrh. við lokafrágang samningsins. Ég sit því hjá við atkvæðagreiðslu um málið og greiði ekki atkvæði.