Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 17:19:29 (4397)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :

    Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi er það frv. sem við erum að greiða atkvæði um ekki lengur í takt við raunveruleikann. Í því er vitnað til staðreynda sem gerðust á fundi í Óportó hinn 2. maí 1992 eins og þær séu enn í gildi. Svo er ekki og því strangt tiltekið ekki hægt að greiða atkvæði um það sem ekki stenst lengur.
    Í öðru lagi brýtur samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði í bága við stjórnarskrána. Það valdaframsal sem þar er um að ræða er ekki heimilt samkvæmt óbreyttri stjórnarskrá.
    Í þriðja lagi var ekki leitað álits þjóðarinnar um þennan samning eins og aðrar þjóðir hafa talið sér skylt að gera.
    Í fjórða lagi opna samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði og fiskveiðisamningar þeir sem honum tengjast fiskveiðilögsögu okkar fyrir skipum Evrópubandalagsins. Það hefur þó verið stefna okkar til þessa að láta ekki fiskveiðiheimildir fyrir tollaívilnanir. Það er hins vegar gert með þessum samningi og því er ég algerlega mótfallin.
    Í fimmta lagi er í víðtækum málaflokkum ekki hugað að hagsmunum Íslands svo sem í landakaupum útlendinga og hugsanlegum viðskiptum með aðrar auðlindir okkar eins og jarðhita og vatnsorku. Þar eru ekki settir þeir fyrirvarar sem eðlilegt hefði verið að Ísland setti til að tryggja sinn rétt.
    Í sjötta lagi tel ég að þátttaka okkar í Evrópsku efnahagssvæði verði okkur allt of kostnaðarsöm og sá hagnaður sem við eigum að hafa af því sé sáralítill eða enginn þegar upp er staðið. Þar að auki erum við jaðarbyggð í Evrópu og velta fjármagnsins mun ekki leita til okkar heldur frá okkur.
    Að öllu samanlögðu sé ég svo mikla og stóra galla á þessu frv. og þeim samningum sem því tengjast að ég tel það í heild algerlega óviðunandi. Það hefur verið haldið illa á okkar málum í þessum samningaviðæræðum en EB hefur fengð það sem það sóttist eftir, þ.e. fiskveiðiheimildir úr okkar fiskveiðistofnum og frjálsan aðgang að landi og öðrum auðlindum. Ég segi nei.