Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 17:32:24 (4404)

     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Það var meginmarkmið okkar Íslendinga þegar viðræður hófust um Evrópskt efnahagssvæði að tryggja okkur fríverslun með fisk. Það náðist ekki. Við gerðum okkur vonir um að ríkisstyrkir til sjávarútvegs á Evrópska efnahagssvæðinu yrðu bannaðir eins og bannað er að styrkja iðnað. Það fékkst ekki. Evrópubandalagið mun áfram halda niðri lífskjörum Íslendinga með því að greiða niður verð á sínum sjávarafurðum. Evrópska efnahagssvæðið varð ekki, eins og til stóð, bandalag sjálfstæðra aðila, EFTA og Evrópubandalagsins, heldur millilending EFTA-ríkja á leið til fullrar aðildar í Evrópubandalaginu. Í þeim hópi eigum við Íslendingar ekki heima.
    Takmarkaðar tollalækkanir á sjávarafurðum samkvæmt þessum samningi eru of dýru verði keyptar. Við eigum ekki að hleypa togurum EB-ríkja inn í íslenska landhelgi. Það er óhagstætt og tvísýnt fyrir okkur að veita 350 milljónum manna þegnrétt á Íslandi, rétt til atvinnu, rétt til að kaupa jarðir og útivistarsvæði til jafns við Íslendinga. Evrópska efnahagssvæðið er því tilraun sem mistókst. Við eigum frekar að gera raunverulegan samning um viðskipti við Evrópubandalagið, tvíhliða samning á jafnréttisgrundvelli. Þingflokkur Alþb. hafnar því þessum samningi einróma. Ég segi nei.