Evrópskt efnahagssvæði

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 17:42:31 (4409)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þjóðin ætlast til þess af Alþingi að það leysi vandamál og einmitt á þessum myrku janúardögum er horft til Alþingis hvarvetna af landinu öllu af allri þjóðinni. Þá er Alþingi að fjalla um samning um EES. Hann leysir engan vanda fyrir Íslendinga. Hann leysir ekki vanda sjávarútvegsins. Hann eykur vanda sjávarútvegsins þegar til lengri tíma er litið, ekki síst vegna þess að gert er ráð fyrir því að hleypa útlendingum inn í fiskveiðilögsöguna. Samningurinn um EES leysir ekki vandann í atvinnulífinu almennt. Þvert á móti bendir allt til þess að atvinnuleysi fari vaxandi á þessu ári á Íslandi og á öllu Evrópska efnahagssvæðinu.
    Samningurinn um EES opnar fyrir kaup útlendinga á íslenskum jörðum. Samningurinn um EES opnar fyrir hömlulaust erlent fjármagn til að nýta orkulindir okkar þegar afurðir þeirra hafa hækkað í verði á ný. Samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði veikir stöðu verkalýðshreyfingarinnar og samtaka launafólks en styrkir hana ekki. Samningurinn um EES styrkir ekki stöðu íslensks iðnaðar heldur veikir stöðu íslensks iðnaðar til lengri tíma litið. Samningurinn um EES breytir Alþingi Íslendinga í færibandastofnun fyrir Evrópubandalagið. Samningurinn um EES gerir EB-réttinn að forsendu íslenskra dómstóla.
    Samningurinn um EES er talinn stjórnarskrárbrot að mati fremsta þjóðréttarsérfræðings Íslendinga. Og samningurinn um EES opnar leiðina fyrir þá sem vilja troða Íslandi inn í Evrópubandalagið. Verði þessi samningur samþykktur munu EB-sinnar stíga fram fyrir lok þessa árs með beinar tillögur um aðild Íslands að Evrópubandalaginu. Þeir sem vilja ekki EB, eins og sagt var í síðustu kosningum, eiga því að hafna EES en hvorki samþykkja EES né heldur sitja hjá. Svona samningi á Alþingi að hafna. Alþingismenn Íslendinga eiga að hafa manndóm til þess að verja heiður Íslands mót tryllri öld. Ég segi nei, virðulegi forseti.