Samningar við EB um fiskveiðimál

95. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 11:09:41 (4421)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það hefur komið fram við fyrstu umræðu og einnig í þessari umræðu að hv. þm. Halldór Ásgrímsson telur það ljóð á ráði þessa samnings að ekki sé gert ráð fyrir því í honum að Íslendingar geti látið EB í té heimildir sem við kynnum að afla okkur í lögsögu annarra ríkja. Ég get tekið undir þetta sjónarmið og gerði það raunar á sameiginlegum fundi sjútvn. og utanrmn. skömmu fyrir jól. En með tilliti til þess að viðræður við EB hófust í tíð fyrrv. ríkisstjórnar væri fróðlegt að fá það upplýst, þó ekki væri nema af sögulegum ástæðum, hvort þetta atriði hafi þá verið ámálgað af hálfu fyrrv. sjútvrh. eða þess ráðuneytis sem hann stýrði þá.