Samningar við EB um fiskveiðimál

95. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 11:10:42 (4422)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er nauðsynlegt að hv. þm. Össur Skarphéðinsson geri sér grein fyrir því að þetta mál var ekki komið á það stig að hafnar væru formlegar samningaviðræður um málið. Það hafði átt sér stað einn fundur í Reykjavík þar sem var um óformlegan fund að ræða milli aðila til að kanna möguleika á því hvort það væru aðstæður til þess að einn af framkvæmdastjórum Evrópubandalagsins, Manuel Marin, sem utanrrh. hefur upplýst þingheim um að er spánskur, gæti komið hingað eða hvort það væru einhverjir möguleikar á því að hann kæmi hingað. Niðurstaðan varð sú að af því varð ekki. Þar af leiðandi var þetta mál ekki tekið upp. Ég vil hins vegar upplýsa hv. þm. um að þegar Lúxemborgarfundinum lauk vorið 1991 tók ég þetta mál strax upp, m.a. við hæstv. utanrrh. í samtalsþætti sem við áttum saman á Stöð 2. Þá var hins vegar allt annað uppi, hv. þm., eins og hv. þm. man og má í því sambandi rifja upp mat þingmannsins á þeirri niðurstöðu í umræðum á Alþingi þegar langhalinn var uppi á borðinu og þingmaðurinn gat vart ráðið við gleði sína því hann taldi þá, það var hans mat þá, að við hefðum fengið eitthvað fyrir ekkert. Það var sem sagt mat Alþfl. á þeim samningi að þá hefðum við fengið eitthvað, loðnuna, og hefðum í reynd ekki látið neitt í staðinn sem var að sjálfsögðu rangt mat því langhalinn er þrátt fyrir allt nokkurs virði.