Samningar við EB um fiskveiðimál

95. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 12:03:20 (4425)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir Alþingi að fullgilda samninga við Efnahagsbandalag Evrópu um fiskveiðimál og lífríki hafsins. Það hefur verið rakið áður í þessari umræðu nokkuð ítarlega fyrst og fremst af hálfu frsm. fyrir áliti minni hluta sjútvn., hvernig þessi samningur snýr að Íslendingum og hversu óhagkvæmur hann er. Með tilliti til þess vildi ég aðeins láta í ljós undrun mína á því að nú skuli eiga að keyra þessa þáltill. hér í gegn á þinginu til að samþykkja þessa samninga og á erfitt með að skilja rök ríkisstjórnarinnar fyrir því.
    Í þessum samningum er gert ráð fyrir að opna íslensku fiskveiðilögsöguna fyrir togurum Evrópubandalagsins. Sennilega verða það fyrst og fremst togarar Spánverja því að þeir munu hafa sótt það einna fastast að fá þessar veiðiheimildir hjá okkur. Við höfum heyrt frá Evrópubandalaginu sjálfu að það sér erfitt að hafa taumhald á Spánverjum þegar þeir eru komnir til veiða, það sé reynsla þeirra sjálfra gagnvart samningum. Hér hefur verið reynt að ganga nokkuð tryggilega frá eftirliti með því hvernig veiðum verður háttað og verður að vona að það takist. En hitt er annað mál að hér er verið að opna fyrir þá inn í landhelgina og við vitum að það er nokkuð sama hvort lykill er stór eða lítill. Ef hann gengur að hurð, þá er hægt að opna hana með honum. Þó að hér sé um lítið magn að ræða í upphafi getur það falið í sér sömu hættu fyrir okkur.
    Það er ekki svo að hér sé um endanlegan samning að ræða því að gert er ráð fyrir að þetta verði endurskoðað árlega á ýmsan hátt og við höfum nú þegar kynnst því beinlínis í sambandi við þennan samning hvernig Evrópubandalagið vinnur. Þegar þessi samningur var fyrst kynntur hér var sagt að 2 / 3 hlutar þess magns, sem Evrópubandalagið ætti að veiða hér, ættu að vera langhali. En hvort sem það hefur verið þegar í upphafi um misskiling hjá hæstv. utanrrh. að ræða eða að þarna hafi verið látið undan kröfu frá Evrópubandalaginu sem síðar kom fram, þá segir það sína sögu og gefur fyrirheit um hvernig verður að eiga við þessi mál í framtíðinni.
    Mér finnst líka fróðlegt að rifja aðeins upp lokasetningar úr greinargerð Van der Pas til viðskiptanefndar Evrópubandalagsins þegar hann var að kynna EES-samninginn þar, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég vil nefna eitt atriði að því er varðar mögulegan skoðanaágreining og þá í nokkuð víðara samhengi. T.d. er mögulegt að EFTA-ríkin eigi í vandkvæðum með að afnema höft svo sem varðandi fólks-

og fjármagnsflutninga. Allan tímann sem samningaviðræðurnar stóðu yfir lýstu EFTA-ríkin yfir miklum áhyggjum af alls konar innrásartilburðum af hálfu bandalagsins. Þið munið eflaust eftir umræðum af þessu tagi í sjálfu bandalaginu forðum þegar aðildarríkin höfðu svipaðar áhyggjur og EFTA-ríkin nú. Af þessum sökum hafa verið sett öryggisákvæði í samninginn. Þau eru fremur almenns eðlis og tilefni skírskotunar EFTA-ríkis til öryggisákvæðanna er í raun mál viðkomandi EFTA-ríkis sjálfs og erfitt er að setja nákvæm skilyrði um það hvenær EFTA-ríki getur skírskotað til þessara ákvæða. En frelsi bandalagsins í þessum efnum er til jafns við frelsi EFTA. Í hvert sinn sem öryggisákvæðin valda misvægi höfum við rétt til að fá það misvægi leiðrétt með því að grípa til gagnráðstafana. Slíkt demóklesarsverð mun án efa fá EFTA-ríkin til að gerhugsa þær ráðstafanir sem þau hyggjast grípa til.``
    Það er þessi síðasta setning sem mér finnst sérstaklega athyglisverð. Hún lýsir því hvernig Evrópubandalagið ætlar að halda á samskiptum sínum við EFTA-þjóðirnar, þær sem minni máttar eru. Þar á að hafa á lofti demóklesarsverð til að ógna ef þær gera ekki það sem Evrópubandalagið vill. Það er kannski eitthvert slíkt sverð sem hefur þegar verið haft á lofti og þess vegna hafi þessum langhalaveiðirétti verið breytt strax í karfa.
    En af hverju liggur svo á að afgreiða þann samning sem hér er til umræðu? Hvað er það sem rekur svo á eftir? Það kemur fram í áliti meiri hluta sjútvn. um sambandið á milli þessa samnings og EES-samningsins og þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Það er hins vegar afar mikilvægt að rugla ekki saman skiptum á veiðiheimildum og viðskiptafríðindum annars vegar og hins vegar skiptum á takmörkuðum jafngildum veiðiheimildum.``
    En í viðtali sem hæstv. sjútvrh. átti við Morgunblaðið 29. nóv. 1991 kemur hins vegar fram allt annað viðhorf um að þarna sé ekki nein tenging á milli því hæstv. ráðherra segir þar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,, . . .  að EB fengi sinn karfakvóta, enda væri utanríkisráðherra búinn að gefa það út hver niðurstaðan yrði og þá væri samningsstaðan ekki sterk. Menn yrðu að vega og meta meiri hagsmuni og minni og vissulega væri sjálfur EES-samningurinn miklu stærra hagsmunamál en 3.000 tonn af karfa.``
    Hér fer ekkert á milli mála að hæstv. sjútvrh. tengir þessa tvo samninga beint saman í sínum málflutningi og það, eins og ég segi, stangast algjörlega á við það sem segir í áliti meiri hluta sjútvn.
    En í þessari tilvitnun kvartar hæstv. sjútvrh. reyndar líka undan því að hæstv. utanrrh. sé búinn að gefa út hver niðurstaðan eigi að verða áður en samningum er endanlega lokið eins og hv. 1. þm. Austurl. rakti ítarlega í sinni ræðu.
    En þá vildi ég vekja athygli á því sem hv. síðasti ræðumaður gerði reyndar líka, sem kemur fram í áliti meiri hluta sjútvn., að það séu ýmsir annmarkar á þessum samningi. Viðkvæðið í því áliti er að þetta þurfi að lagfæra síðar. En hvernig í ósköpunum dettur mönnum í hug að það sé betra að samþykkja fyrst samninginn eins og hann liggur fyrir og koma síðan og biðja hinn samningsaðilann góðfúslega að lagfæra þá hluti sem séu slæmir, en gera það ekki strax, áður en menn eru búnir að binda sig? Er betra að setja sig í snöruna fyrst og ætla svo að fara að reyna að sprikla og lagfæra en ganga hreint til verks og segja strax: Þetta er ekki nógu gott, við getum ekki fallist á þetta og því verður að lagfæra þetta áður en Alþingi fullgildir það? Ég get ekki séð af hverju menn hugsa sér að hafa önnur vinnubrögð og láta sér detta í hug að þeir nái einhverjum árangri til lagfæringar síðar með hið stóra sverð Evrópubandalagsins hangandi yfir höfði sér.
    Það er vissulega rétt að við getum ekki girt af okkar fiskveiðilandhelgi þannig að fiskurinn haldist örugglega innan hennar og þeir fiskstofnar sem á annað borð eru á hreyfingu milli fjarlægra svæða. Af þeim sökum höfum við gert samninga m.a. um loðnuna sem hreyfir sig þar á milli. En hér er ekki verið að gera slíkan samning. Karfinn er staðbundinn hjá okkur og við fáum engan rétt til veiða í fiskveiðilögsögu Evrópubandalagsins. Þetta er svo fjarstætt og svo furðuleg vinnubrögð að það er óskiljanlegt að alþingismenn ætli nú að ganga að þeim slæmu kostum sem meiri hluti sjútvn. segir að séu vissulega og frsm. hennar mun vafalaust gera grein fyrir því á eftir.
    En ég ítreka þessa spurningu: Er ekki betra að fá þessar leiðréttingar áður en Alþingi samþykkir samninginn? Hvað liggur á að gera þennan samning? Er þarna ekki miklu meira í húfi en þau loðnutonn sem sagt er að hugsanlega gætu glatast fyrri hluta þessa árs ef samningurinn verður ekki genginn í gildi en sem búið er að sýna fram á að falla í okkar hlut hvort sem er? Af hverju ekki að bíða með fullgildinguna ( ÖS: Hve lengi?) þangað til búið er að fá þær lagfæringar sem hv. 17. þm. Reykv. segir í sínu nál. að æskilegt sé að fá, að við göngum til þeirra samninga sem frjálsir menn en ekki bundnir af þessum samningi? Eins og hv. 10. þm. Reykv. las upp áðan er á allmörgum stöðum vitnað til þess að við endurskoðun þurfi að fá lagfæringar. Ég get ekki skilið þennan málflutning og þessi vinnubrögð.
    Ég vil því að lokum undirstrika að ég tel að hér sé um ákaflega óskynsamleg vinnubrögð að ræða og alveg furðulegt ef meiri hluti Alþingis ætlar að hrapa að því að samþykkja þetta án þess að það séu neinar nauður sem reka okkur til að gera það. Segjum svo, sem kannski er ólíklegt, að ekki gangi saman um nýjan samning um Evrópskt efnahagssvæði þannig að Íslendingar yrðu að ganga beint til samninga um tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið. Stæðum við þar betur að vígi ef við værum búnir að ganga frá þessum samningi, sem er Evrópubandalaginu svo hagstæður, stæðum við þá betur að vígi í þeim viðræðum ef við værum búin að afsala okkur möguleikanum af því að hafa þennan samning ógerðan? Hvað

sem meiri hluti sjútvn. segir tengir Evrópubandalagið þessa samninga saman, viðskiptasamninga og fiskveiðisamninga. Það kemur greinilega fram í þeirra bókunum og undan því getum við ekki sloppið, hvaða yfirlýsingar sem við reynum að gefa sjálfir. En eins og ég sagði áður stangast það á við það sem hæstv. sjútvrh. hefur látið eftir sér að hafa.