Samningar við EB um fiskveiðimál

95. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 12:21:33 (4426)

     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Þeir samningar tveir um fiskveiðimál sem liggja fyrir eiga sér langan aðdraganda. Þeir eru í raun lyktir viðræðna sem hafa staðið yfir með alllöngum hléum allar götur síðan árið 1972 þegar fríverslunarsamningarnir voru gerðir. Þessar viðræður hafa verið slitróttar og tafsamar og engum dylst að erfiðleikarnir við að ná sameiginlegu landi hafa verið til trafala og óþæginda í öllum samskiptum okkar við EB um hartnær tveggja áratuga skeið. Samræðurnar hafa ýmsum hætti verið teknar upp, en jafnóðum hefur upp úr slitnað. Ástæðan hefur ævinlega verið sú hin sama: Óbilgirni EB sem hefur gert stríðar kröfur um veiðiheimildir í efnahagslögsögunni í stað viðskiptafríðinda. Gegn því hafa Íslendingar ævinlega borið gæfu til þess að standa sameinaðir.
    Fyrir röskum áratug lágu fyrir drög að rammasamningi þegar upp úr slitnaði vegna fráleitrar kröfu EB um að bandalagið fengi í sinn hlut helming loðnustofnsins milli Grænlands og Íslands. Slitróttar viðræður áttu sér stað eftir það, allt fram til ársins 1990. Þegar skriður komst á samningana um EES um mitt árið 1991 var afráðið að hefja að nýju viðræður um rammasamning sem varðaði fiskveiðar og lífríki hafsins. Grunnur þeirra var sá rammi sem lá fyrir 1981 þegar upp úr slitnaði vegna ásælni EB í loðnustofninn á norðurslóðum.
    Í október 1991 náðist svo samkomulag um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum. Sá samningur var síðan útfærður nánar milli samninganefnda aðilanna veturinn 1991--1992 og formlegar lyktir af samningaferlinu urðu loks með erindaskiptum milli Íslands og Evrópubandalagsins á Óportó-fundinum 2. maí 1992. Í erindaskiptunum var mælt fyrir um gerð sérstaks rammasamnings um samstarf á sviði fiskveiðimála og jafnframt nefndir til sérstakir þættir sem þyrfti að útfæra og skilgreina í honum. Rammasamningurinn var síðan undirritaður í Brussel 27. nóv. 1992.
    Til að draga saman meginþætti samninganna tveggja má segja að þeir tengist með þeim hætti að samningurinn sem var undirritaður í Óportó tilgreinir það magn veiðiheimilda sem skipst verður á að hámarki, en samningurinn frá Brussel um fiskveiðimál og lífríki hafsins skilgreinir rammann um þau skipti. Árlegt samkomulag er síðan gert um framkvæmdina og það samkomulag sem náðist fyrir 1993 fylgir þeim tveimur samningum sem hér liggja fyrir til umræðu.
    Það er rétt að ítreka að samningarnir um fiskveiðimál eiga sér sjálfstæða tilveru frá EES-samningnum. Hér er um aðskilda lagalega gerninga. Samningamenn Íslands hafa ævinlega haldið sjávarútvegssamningunum stranglega aðskildum frá EES og af hálfu Íslendinga hefur þess verið gætt að gildistaka og rekstur fiskveiðisamninganna tengist með engu móti EES þó samningarnir hafi vissulega tekist í því jákvæða andrúmslofti sem skapaðist milli EFTA-ríkjanna og EB í tilefni af því samstarfi sem aðilar áttu að undirbúningi og vinnslu Evrópska efnahagssvæðisins. Í bréfaskiptum í tengslum við fiskveiðisamningana er þessa raunar getið sérstaklega og vísað til þess að samskipti Íslands og EB hafi verið treyst enn frekar við gerð EES-samningsins.
    EB hefur hins vegar fyrir sitt leyti kosið að líta svo á að þó fiskveiðisamningarnir standi lagalega á eigin fótum og séu aðgreindir frá samningum um EES séu þeir eigi að síður hluti af heildarniðurstöðu og grundvallarþáttur í samþykki bandalagsins á EES-samningnum. Þetta kemur fram í sérstakri einhliða yfirlýsingu bandalagsins sem hefur nokkuð verið rætt í þessum umræðum og fjallar um tvíhliða samninga bandalagsins og einstakra EFTA-ríkja. Þar kemur fram að tvíhliða samningurinn um fiskveiðimál við Ísland sé á meðal þeirra samninga sem bandalagið telur að séu, svo vitnað sé orðrétt í hina einhliða bókun, með leyfi forseta: ,,hluti af heildarniðurstöðu samningaviðræðnanna og grundvallarþáttur í samþykki þess á EES-samningnum, enda þótt þessir samningar séu aðgreindir lagalegir gerningar.``
    Í einhliða yfirlýsingunni segir bandalagið síðan, með leyfi forseta:
    ,,Bandalagið áskilur sér því rétt til að fresta gerð EES-samningsins uns hlutaðeigandi EFTA-ríki hafa tilkynnt bandalaginu um fullgildingu ofantalinna tvíhliða samninga.``
    Það er því ljóst, virðulegi forseti, að kjósi Alþingi að fresta staðfestingu þeirra samninga sem hér liggja fyrir vofir sú hætta yfir að EB fresti gildistöku alls EES-samningsins með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir Ísland og önnur EFTA-ríki sem hafa þegar staðfest EES-samninginn fyrir sitt leyti. Þetta svarar að nokkru leyti þeirri spurningu, sem hér hefur komið fram, hvers vegna nokkuð liggur við að samþykkja fiskveiðisamninginn nú.
    Þessi einhliða bókun bandalagsins undirstrikar mikilvægi þess að málið sé afgreitt til fullnustu af hálfu Íslands, en hún sýnir líka að þrátt fyrir að bandalagið viðurkenni í bókun sinni að samningarnir um fiskveiðimál séu lagalega aðgreindir frá EES-samningnum er þar tilhneiging af hálfu bandalagsins til að tengja þessa gerninga. Eins og fyrr segir hafa Íslendingar ævinlega lagst gegn slíkri tengingu. Hún er andstæð hagsmunum Íslands, ekki síst með tilliti til þess að við munum um langa framtíð eiga í miklum viðskiptum við EB-löndin og væntanlega þurfa einhvern tímann að standa í einhvers konar samningum sem

þeim tengjast. Í því ljósi er það óæskilegt að mínu viti, svo ekki sé meira sagt, að tengja gildistöku samninganna um fiskveiðimál annars vegar og hins vegar um EES. Af þeim sökum er rétt að bíða ekki með gildistöku þessa samnings þó EES-samningurinn tefjist.
    Sá samningur sem hér liggur fyrir í útfærðu formi er í fjölmörgum þáttum. Einn sá mikilvægasti, sem varðar samninginn sérstaklega um gagnkvæmar veiðar Íslands og EB, er sá þáttur sem varðar framkvæmd og eftirlit. Hann hefur ekki sætt teljandi gagnrýni, enda virðist sem helstu kröfur Íslendinga í þeim efnum hafi náðst fram, þó ævinlega megi gera betur. Það er eðli samninga, þó þeir geti verið ásættanlegir og viðunandi, að samningamenn hljóta við endurskoðun ævinlega að reyna að ná fram betri kjörum. Ekki síst þess vegna bendir meiri hluti sjútvn. á það í áliti sínu að það eru ýmis mál sem við þyrftum að berjast fyrir og ná betri kjörum, þó að samningurinn í heild sé að okkar að mati ásættanlegur.
    Ein af höfuðkröfum Íslendinga var að mjög strangt eftirlit yrði haft með veiðum hinna erlendu skipa. Það er mjög nauðsynlegt að traustar upplýsingar liggi fyrir um hvaða afli næst innan þeirra svæða sem skipin mega veiða á innan lögsögunnar. Í tengslum við þetta náðu Íslendingar fram þeirri kröfu að veiðiferðir hinna erlendu skipa yrðu hreinar, þ.e. að hafi skipin verið að veiðum utan lögsögunnar áður en þau halda inn á veiðisvæðin, þá ber þeim skylda til að halda til íslenskrar hafnar og láta landa og vigta aflann. Sömuleiðis verða upplýsingar um aflamagn sem vigtað er upp úr skipunum erlendis að vera trúverðugar. Að því marki er eftirlit með aflabrögðum einnig fullnægjandi því fiskveiðisamningnum fyrir árið 1993 fylgir listi með nafngreindum höfnum í löndum EB sem veiðiskip bandalagsins mega landa í.
    Nú er það hins vegar svo að íslenskir aðilar í sjávarútvegi hafa ekki alltaf borið fullt traust til þeirra upplýsinga sem koma frá höfnum í ríkjum Evrópubandalagsins. Þess vegna er rétt að það komi fram, virðulegi forseti, að á fundi í sjútvn., þar sem forsvarsmenn hagsmunasamtaka í sjávarútvegi komu til viðræðu, voru þeir sérstaklega spurðir um traust þeirra í ljósi reynslu þeirra af umræddum höfnum. Svör þeirra voru á þá lund að við sem myndum meiri hluta sjútvn. teljum engar ástæður til að vefengja upplýsingar sem munu koma frá yfirvöldum þessara hafna. Eftirliti með aflabrögðum virðist því fullnægt með samningnum eins og hann endanlega varð.
    Þá náðist einnig fram krafa Íslendinga um að íslenskur eftirlitsmaður verður um borð í skipunum þegar þau eru að veiðum innan lögsögunnar. Hann mun annaðhvort fljúga út til heimahafnar skipsins eða annars staðar sem samkomulag verður um og honum verður skilað aftur að veiðiferð lokinni. Það kemur líka til greina, ef svo ber undir, að þá verði viðkomandi eftirlitsmaður sóttur til hafnar á Íslandi áður en veiðiferð hefst. Það er mikilvægt í þessu sambandi að allur kostnaður við ferðir, laun og uppihald er greiddur af útgerð skipsins. Hér er um að ræða atriði sem menn gera sér ekki nægilega grein fyrir þegar verið er að ræða, eins og gert var hér í morgun, líkurnar á því að EB-skipin muni nýta sér þessar veiðiheimildir. Ég tel að þetta torveldi allverulega möguleika þeirra á því.
    Evrópubandalagið lagði líka mikla áherslu á, eins og mönnum er kunnugt um, að fá sem flest veiðileyfi og geta dreift þeim sem víðast. Endirinn varð hins vegar sá að einungis tvö afmörkuð veiðisvæði eru heimil fyrir skip EB og hvað áhrærir fjölda veiðileyfa varð niðurstaðan sú að alls mega 18 skip veiða við Ísland en þó aldrei fleiri en fimm í einu, tvö á öðru svæðinu og þrjú á hinu. Þá féllst EB líka á að skipin verða að tilkynna sig þegar þau koma inn á veiðisvæðin og fara út úr lögsögunni. Það er að sjálfsögðu í þágu íslenskra hagsmuna að Landhelgisgæslan, sem fylgist með þessu, geti í senn sannreynt upplýsingar skipanna með sem minnstu erfiði og tilkostnaði og helst fylgst með því líka hvort skipin eru að veiðum eða hvort þau eru á siglingu. Nú vill svo til að hraðfleyg tækniþróun veldur því að hægt er að nýta saman alþjóðlegt staðsetningarkerfi sem er um borð í flestum nútímafiskiskipum og alþjóðalega fjarskiptakerfið INMARSAT sem Íslendingar eiga aðild að.
    Við sem skipum meiri hluta sjútvn. teljum að við þær endurskoðanir sem munu fara fram millum aðilanna á hinum árlega fiskveiðisamningi sé það rétt, sé það ákjósanlegt að Íslendingar athugi gaumgæfilega hvort ekki sé rétt að gera kröfu um að þau skip sem koma hingað til veiða verði búin tækjakosti sem geti nýtt þessa alþjóðlegu fjarskiptatækni þannig að í stjórnstöð gæslunnar verði hægt að fylgjast með ferðum skipanna og m.a. því hvort þau eru á siglingu eða að veiðum. Við teljum þetta ákjósanlegt, en sú staðreynd að það er ekki inni í samningnum núna þýðir alls ekki og gefur okkur alls ekki tilefni til að ætla að samningurinn sé ekki nógu góður. Við bendum þarna á bætur sem við eigum að stefna að í komandi endurskoðunum sem eiga að fara fram.
    Samningurinn hefur verið gagnrýndur m.a. á þeim grunni að með honum sé verið að opna togurum Evrópubandalagsins leið inn í íslenska lögsögu og því jafnframt haldið fram að þar með sé yfirráðum Íslendinga yfir fiskveiðilögsögunni stefnt í hættu. Þetta kom m.a. fram í máli hv. þm. Önnu Ólafsdóttur Björnsson fyrr á þessum morgni. Þetta viðhorf skýtur líka upp kolli í nál. minni hluta utanrmn., en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Með þessum samningi, sem hér er til umræðu, er því brotið í blað og fiskiskipum, m.a. togurum Evrópubandalagsins, hleypt á ný inn í íslenska fiskveiðilögsögu til að keppa í veiðum við íslensk fiskiskip úr fiskstofnum sem eru fullnýttir.``
    Þetta, virðulegi forseti, verð ég að dæma sem furðuleg ummæli. Ég tel af þessu tilefni rétt að rifja það upp að nú þegar eru í gildi fiskveiðisamningar við erlendar þjóðir þannig að erlend fiskiskip hafa verið árum saman að veiðum innan lögsögunnar. Norðmenn og Grænlendingar hafa til að mynda samkvæmt

milliríkjasamningum rétt til loðnuveiða í íslenskri lögsögu. Færeyingar hafa jafnframt samning um fiskveiðar sem jafngildir einhliða veiðiheimildum við Ísland og það er ekki óalgengt að við Ísland séu í einu 15--20 færeysk skip og stundum á þriðja tug. Sömuleiðis er það líka furðulegt ef menn hafa ekki gert sér grein fyrir því að nú þegar eru tilteknir togarar frá Evrópubandalaginu sem hafa haft um árabil einhliða veiðiheimildir --- ég undirstrika einhliða veiðiheimildir --- innan íslensku lögsögunnar og hafa haft allar götur frá því árið 1975. En í áliti minni hluta utanrmn. er því haldið fram fullum fetum að með tvíhliða samningnum sé í fyrsta skipti verið að hleypa togurum Evrópubandalagsins á ný inn í íslenska fiskveiðilögsögu.
    Þetta er furðulegur málflutningur. Menn hljóta að vita að árið 1975 var tólf nafngreindum belgískum togurum veitt leyfi til að veiða við Ísland. Þeim var jafnframt úthlutað aflakvóta og á þeim árum sem síðan eru liðin hafa hinir belgísku togarar sem tilheyra flota Evrópubandalagsins veitt hér hartnær 50 þús. tonn af tegundum sem allar teljast til fullnýttra stofna af Íslands hálfu. Þessi samningur er enn í fullu gildi. Af þessum upphaflegu tólf togurum eru þrír starfandi enn þá og hafa einhliða veiðiheimildir við Ísland. Með öðrum orðum, það er búinn að vera við lýði samningur frá 1975 sem heimilar togurum frá landi innan Evrópubandalagsins að veiða hér við land.
    Í því ljósi er furðulegt, virðulegi forseti, að halda því fram að þessi samningur brjóti í blað að þessu leyti.
    Það er enn fremur rétt að benda á að þrátt fyrir að Belgum hafi með þessum samningi verið hleypt inn í lögsöguna allt frá því 1975 hefur það alls ekki leitt til þess að EB hafi náð stærri samningum um veiðar við Ísland og það er sömuleiðis afar hæpið að leiða getum að því að þær mjög svo takmörkuðu veiðiheimildir sem togarar EB fá hér við Ísland muni stefna yfirráðum Íslendinga yfir eigin lögsögu í einhvers konar hættu.
    Þetta tel ég rétt að skoða sérstaklega í samhengi við það magn sem EB má taka hér við land. En samkvæmt margræddum verðmætastuðlum sjútvrn. er það magn sem þeir mega veiða hér einungis ígildi 1.230 tonna af þorski.
    Samkvæmt upplýsingum sjútvrn. var heildarafli Íslendinga á síðasta ári í ígildum þorsktonna talið 473 þús. þorsktonna þannig að veiðiheimildirnar sem Íslendingar eru að láta í skiptum við Evrópubandalagið eru því aðeins um fjórðungur úr prósenti eða 0,26% af heildarafla síðasta árs. Þessi afar takmörkuðu skipti gefa því ekki nokkurt tilefni til þess að draga þá ályktun að í kjölfar þessa muni hingað stefnt stórum flota evrópskra togara. Slík ályktun er einungis fráleit. (Gripið fram í.)
    Ég vil líka, hv. þm. Eggert Haukdal, geta þess í þessu samhengi að það hefur legið fyrir allar götur síðan 1981, eins og ég veit að þingmanninum er kunnugt en sennilega ekki ljúft, að íslensk stjórnvöld hafa verið til viðræðu um skipti á takmörkuðum gagnkvæmum veiðiheimildum. Það var t.d. síðasta ríkisstjórn undir forustu þáv. forsrh. Steingríms Hermannssonar, þar sem núv. hv. þm. Halldór Ásgrímsson var sjútvrh., sem hóf viðræður um skipti á veiðiheimildum við EB. Af þeim fimm stjórnmálaflokkum sem nú sitja á Alþingi hafa því fjórir setið í ríkisstjórnum sem hafa átt viðræður við EB sem varða skipti á gagnkvæmum veiðheimildum. Ég hef hvergi fundið merki þess að fimmti stjórnmálaflokkurinn sem hér situr en á því miður engan fulltrúa í þessum salarkynnum í dag, Samtök um kvennalista, hafi tekið afstöðu gegn slíkum skiptum á gagnkvæmum veiðiheimildum. Ég hlýt því að draga þá ályktun að þeir flokkar sem nú eiga fulltrúa á þinginu séu ekki í grundvallaratriðum andsnúnir slíkum skiptum. Hvaða ályktun má draga af því, virðulegi forseti? (Gripið fram í.) Það þýðir að þessir flokkar eru sjálfir tilbúnir í að leyfa skipum EB að koma inn í íslenska lögsögu. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hljóta nefnilega að vera mér sammála um að gagnkvæmar veiðiheimildir er á hvorugan bóginn hægt að nýta nema með skipum og séu menn ekki í grundvallaratriðum á móti gagnkvæmum veiðiheimildum eru þeir ekki heldur í grundvallaratriðum á móti því að hleypa skipum EB inn í íslenska lögsögu. Röksemdafærsla stjórnarandstöðunnar um þessi mál fellur því einfaldlega um sjálfa sig og fráleitt af henni tel ég að reka upp ramakvein og berja bumbur og halda því fram að núv. ríkisstjórn hafi hleypt hingað skipum EB þegar stjórnarandstaðan sjálf er ekki í grundvallaratriðum á móti þessu.
    Ég tel, virðulegi forseti, rétt að benda á að þessi röksemdafærsla stenst einfaldlega ekki.
    Þau viðhorf hafa komið fram að í ljósi þess sem kallað er breyttar aðstæður, þ.e. vegna niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Sviss um aðild landsins að EES, sé rétt að fresta gildistöku tvíhliða samningsins. Það tel ég alveg fráleitt. Í fyrsta lagi gerir samningurinn ráð fyrir að loðnuveiðar Íslendinga standi frá janúar og fram í apríl, en veiðar EB á karfa eiga hins vegar að fara fram milli júlí og desember. Þess vegna liggur í augum uppi að taki Íslendingar ákvörðun um að fresta gildistöku tvíhliða samningsins fram á árið 1993 stórminnka líkurnar á að Íslendingar nái að nýta loðnuheimildirnar. Frestun gildistökunnar getur þess vegna leitt til þeirrar niðurstöðu að meðan EB hefur tök á að veiða sinn karfa hér við land töpum við af okkar tækifærum til að veiða loðnukvótann fyrir árið 1993. Sú staða er að mínu mati algjörlega óásættanleg og er ærin ástæða til að fresta ekki gildistöku þessa samnings.
    Þess ber að geta til þess að halda öllu til haga að gegn þessum rökum hafa andstæðingar samningsins teflt því að við getum þá altént frestað gildistöku tvíhliða samningsins um heilt ár. Það tel ég ekki aðgengilega lausn af þeirri ástæðu sem kemur fram í þeirri einhliða bókun sem ég las áðan, en þar birtist skýrt að bandalagið áskilur sér rétt til að fresta gildistöku alls EES-samningsins ef tilteknir tvíhliða samningar, þar á meðal sjávarútvegssamningur bandalagsins við Ísland, hafi ekki öðlast fullgildingu þegar EES-samningurinn tekur loks gildi. Af þeim sökum gæti frestun á fullgildingu tvíhliða samningsins um heilt ár stefnt öllum EES-samningnum í mikla hættu. Það væri ekki einungis fráleitt í ljósi íslenskra hagsmuna heldur væri það einnig andstætt hagsmunum og vilja samstarfsþjóða okkar í EFTA.
    Í öðru lagi tel ég afar nauðsynlegt með tilliti til framtíðarhagsmuna Íslands í samningum við Evrópubandalagið að hafna öllum tengingum tvíhliða samningsins um fiskveiðimál við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Ég tel að það sé mjög hættulegt þegar ýjað er að því að það eigi að láta þessa tvo samninga fylgjast að. En þó virðist mér einmitt að sumir hv. þm. séu þeirrar skoðunar.
    Íslendingar hafa alltaf lagt gríðarlega áherslu á að það sé ekkert samband á milli samninganna. Menn geta deilt um það, en við höfum eigi að síður lagt mikla áherslu á þetta og engum sem hér er blandast hugur um að samskipti Íslands og Evrópubandalagsins munu aukast á næstu árum. Samningar um margvísleg málefni sem varða hag beggja eiga eftir að fara fram og ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að treysta þær undirstöður sem Íslendingar munu standa á í þeim samningum. Af þeim sökum tel ég að það sé erfitt að undirstrika nógsamlega mikilvægi þess að hafna öllum tengingum á milli viðskiptafríðinda innan bandalagsins annars vegar og samningum sem varða samstarf á sviði fiskveiða og sjávarútvegs hins vegar.
    Þeir sem vilja festa saman gildistöku samninganna eru að aðstoða EB við að tengja þetta tvennt og ég tel að það sé andstætt hagsmunum Íslendinga.
    Það er ljóst núna að gildistaka EES mun tefjast fram á þetta ár. Með því hins vegar að staðfesta tvíhliða samninginn núna eins og upphaflega var ætlað gefst að minni hyggju mikilvægt tækifæri til að skilja enn rækilegar en áður á milli EES og sjávarútvegssamningsins. Ég tel einboðið að þetta tækifæri sé nýtt. Ég tel að það þjóni margvíslegum hagsmunum Íslendinga og ég er þeirrar skoðunar að allar vangaveltur um að fresta gildistökunni þangað til EES tekur gildi séu byggðar á hrapallegum misskilningi á því sem Íslandi er fyrir bestu.
    Því hefur verið haldið fram að loðnan sem Íslendingar fá samkvæmt tvíhliða samningnum sé einskis virði því Íslendingarnir fái hana hvort eð er í lok vertíðar. Þessar staðhæfingar þarfnast nánari skoðunar, enda ærið hæpnar. Loðnustofninn sem Íslendingar veiða úr er sameiginlegur með okkur Norðmönnum og Grænlendingum. Á grundvelli 20 ára reynslu og með hliðsjón af lífsháttum loðnunnar hafa þessar þrjár þjóðir skipt með sér nýtingu stofnsins þannig að Íslendingar veiða 78% heildaraflans en Norðmenn og Grænlendingar 11% hvorir. Loðnan veiddist áður við Grænland m.a., hún var líka um tíma í talsverðum mæli við Jan Mayen og á yfirráðasvæði Norðmanna. Á þessum svæðum, sérstaklega úti fyrir Grænlandi, var hún fiturík og væn og því hlutfallslega verðmæt þegar hún veiddist þar. Eðli loðnunnar er hins vegar eðli farandfisks, hegðun hennar er breytileg og hún er næm fyrir breytingum á umhverfi sjávarins. Síðustu árin hafa aðstæður á hinum hefðbundnu veiðisvæðum loðnunnar breyst þannig að síðustu vertíðir hefur hún einkum fundist í veiðanlegu ástandi við Ísland. Sú var hins vegar ekki reyndin áður.
    Þeir sem halda því fram að loðnukvóti okkar frá EB sé lítils virði byggja það á tveimur forsendum. Í fyrsta lagi að ástandið í sjónum og göngur loðnunnar haldist óbreytt. Í öðru lagi að Grænlendingar geri ekki alvarlega tilraun til að ná sínum kvóta. Ég tel að þessar forsendur standist ekki skoðun, ég tel að á þeim séu brotalamir.
    Það er afskaplega vel þekkt að aðstæður í sjónum geta breyst tiltölulega hratt með litlum fyrirvara, ekki síst þess vegna er það fiskifræðileg staðreynd að ferðir loðnunnar og hegðun almennt er afar breytileg. Fyrr en varir getur hún veiðst aftur við Grænland og Grænlendingar hafa þá fullan rétt til þess að selja allan sinn hluta úr stofninum til hvers sem er án nokkurs sérstaks samráðs við Íslendinga. Þeir þurfa þá aðeins að tilkynna það samkvæmt 4. gr. loðnuveiðisamningsins. Menn hljóta því að vera sammála um að falli hegðun og göngur loðnunnar aftur í hið fyrra far sé hagur Íslendinga af tvíhliða samningnum óvefengjanlegur.
    Það er jafnframt óeðlilegt að ætla að Grænlendingar muni ekki í allra nánustu framtíð gera mjög alvarlegar tilraunir til að ná sínum kvóta. Við vitum að þeir hafa í hyggju að styrkja mjög sína útgerð, þeir hafa nú þegar fest kaup á fyrsta hringnótaskipinu og þeir hyggja á frekari uppbyggingu loðnuveiða. Í því sambandi má minna sérstaklega á að þríhliða samningurinn um loðnuveiðarnar heimilar Grænlendingum að landa afla sínum í íslenskum höfnum til vinnslu, en það atriði skiptir talsvert miklu máli.
    Það er líka vitað að hrunið í Færeyjum hefur leitt til þess að bæði Færeyingar og Grænlendingar hafa mikinn hug á að efla sitt samstarf í útgerð og nota verkefnalausa hringnótabáta frá Færeyjum til að veiða loðnu Grænlendinga. Það er líklegt að þróun af þessu tagi verði hröð á næstu missirum.
    Því hefur líka verið haldið fram að meðan loðnan veiðist lítt utan íslenskrar lögsögu séu heimildir okkar frá EB sérstaklega lítils virði. Um þetta atriði verður að skoða hvað þríhliða samningur okkar, Grænlendinga og Norðmanna segir um framsal veiðiheimilda. Samningurinn er ótvíræður að því leyti að aðilum er heimilt að framselja aflahlutdeild sína úr stofnunum að fullu eða hluta og þurfa aðeins að tilkynna það hinum aðilunum. Það er enginn ágreiningur um að ef einhver þeirra fær framseldar heimildir beint frá öðrum hinna aðilanna getur hann veitt það með sama hætti og eigin kvóta.
    Það hefur hins vegar ekki reynt á samninginn í því tilviki að þriðji aðili framselji einhverjum samningsaðilanna loðnuheimildir sem hann hefur til ráðstöfunar. Á því tekur samningurinn ekki með beinum hætti. Grænlensk og færeysk stjórnvöld sóttu á sínum tíma um heimildir fyrir færeysk veiðiskip til að veiða

loðnu innan íslensku lögsögunnar, en íslensk stjórnvöld höfnuðu á þeirri forsendu að kvótinn sem færeysku skipin áttu að nýta væri kvóti sem Evrópubandalagið hefði fengið framseldan frá Grænlandi. EB gæti hins vegar framselt sinn kvóta til Norðmanna eða endurframselt til Grænlendinga. Eins og fyrr segir hefur ekki á það reynt og því vandmeðfarið að reifa þann möguleika í þessari umræðu þar sem allar túlkanir sem hér eru gerðar á samningnum gætu haft áhrif á niðurstöðu samningaviðræðna um þetta tiltekna atriði síðar. Um þetta segjum við í meiri hluta sjútvn. í áliti okkar:
    ,,EB er í lófa lagið að framselja loðnuheimildir sínar Norðmönnum. Kynni þá að rísa deila um rétt Norðmanna til að veiða þá loðnu innan íslenskrar lögsögu, en Íslendingar hafa ávallt andmælt þeim rétti að þriðji aðili gæti ráðstafað loðnu innan íslenskrar lögsögu.``
    Af þeim ástæðum sem ég drap á áðan vil ég síður fara út í í umræðunum hvernig túlka megi samninginn þar sem þetta tilvik hefur ekki enn komið upp, en kynni að koma upp og þá á eftir að túlka samninginn. Ég tel það fyllilega eðlilegt að samningamenn Íslands gangi til slíkra viðræðna með það viðhorf sem látið er uppi í áliti meiri hlutans að veganesti. Þar er hins vegar um túlkun að ræða sem á eftir að reyna á og Íslendingar eiga eftir að finna stað í samningnum. Í þessu efni er alls ekki hægt að vísa til ofangreinds dæmis af Færeyingum vegna þess að munurinn á þeim annars vegar og Norðmönnum og Grænlendingum hins vegar er sá að hinir síðarnefndu hafa sjálfstæðan rétt.
    Virðulegi forseti. Viðræður okkar og Evrópubandalagsins snerust lengi dags um hvernig eðlilegast væri að tryggja að kvótar breyttust með gagnkvæmum hætti ef nauðsynlegt reyndist að skerða kvóta annars aðilans vegna ófyrirsjáanlegra lífræðilegra ástæðna. Af Íslands hálfu náðust fram ákvæði sem tryggja að nægi útgefinn kvóti ekki til að EB geti keypt af Grænlendingum tilskildar heimildir fyrir Íslendinga minnki karfakvóti þeirra hér við land samsvarandi. Sömuleiðis er tryggt að leiði nýtt stofnmat til þess að loðnukvóti Íslendinga skerðist að ráði fiskifræðinga skerðist karfakvótinn handa EB með sama hætti. Af þessu leiðir t.d. að framlengi Grænlendingar ekki samning sinn við EB um kaup þeirra á loðnukvóta er samningurinn að mínu viti um gagnkvæmar veiðiheimildir sjálffallinn nema því aðeins að EB geti komið með einhverjar aðrar veiðiheimildir annars staðar sem Íslendingar fella sig við, telja jafngildar.
    Stóra álitamálið varðandi þennan þátt samningsins er, ef upp kæmi, að EB framseldi Íslendingum kvóta sem þeir gætu ekki nýtt sér, þ.e. Íslendingar næðu ekki að veiða upp í kvótann. Sú staða er að vísu afar sjaldgæf og hefur ekki skapast nema örsjaldan síðustu áratugi. Mat Kristjáns Ragnarssonar formanns LÍÚ í viðtali við Ríkissjónvarpið 28. nóvember sl. var að líkur á slíku væru hverfandi litlar. Ég tek þetta viðhorf Kristjáns til þess að sýna fram á viðhorf forvígismanna í sjávarútvegi gagnvart þessu tiltekna atriði.
    Það má hins vegar segja að samningurinn er ekki nægilega skýr um þetta atriði, enda vitað og viðurkennt að kröfur Íslendinga um að kvóti EB skertist þá að sama marki náðu ekki fram að ganga. Það tókst málamiðlun sem fólgin er í 1. málsgr. 2. gr. viðauka A þar sem kveðið er á um að komi upp ófyrirséðar aðstæður geti annar aðili óskað viðræðna. Það hlýtur að vera ótvíræður skilningur Íslendinga að þetta beri að tengja 1. tölul. 4. gr. rammasamningsins frá 27. nóv. þar sem mælt er fyrir um samráð um úthlutanir á veiðiheimildum með það í huga að ná ásættanlegu jafnvægi. Við þær aðstæður tel ég að það hlyti að vera tvímælalaus krafa Íslendinga á grunni þessara greina að kvóti EB yrði þá skertur í sama mæli.
    Ég vil hins vegar segja í tilefni af þeim spurningum sem hér hafa komið fram frá hv. þm. Jóni Helgasyni, sem hefur drepið á að meiri hluti sjútvn. hefur bent á ýmis atriði sem hann telur að eigi að leggja áherslu á í komandi samningum, að ég tel og við teljum að það beri að leggja sérstaka áherslu á umrædd atriði. Við teljum hins vegar alls ekki að sú staðreynd að Íslendingar náðu ekki fram ýtrustu kröfum sínum í þessu efni gefi tilefni til að hafna þessum samningi. Og ég ítreka að á þeirri skoðun eru forustumenn í sjávarútvegi einnig.
    Virðulegur forseti. Ein harkalegasta gagnrýnin á tvíhliða samninginn felst í því að hinar gagnkvæmu veiðiheimildir samningsaðilanna, Íslands og Evrópubandalagsins, séu ekki jafngildar. Staðhæft er að verðmæti þeirrar loðnu sem fellur í hlut Íslendinga með samningnum sé minna en verðmæti karfans sem EB fær að veiða. Um þetta er það að segja að við samningsgerðina studdist utanrrn. vitanlega við þá verðmætastuðla sem gefnir eru á ári hverju út af sjútvrn. og eru notaðir til að umreikna aflamagn veiddra tegunda yfir í þorskígildi. Um þetta atriði var talsvert deilt við 1. umr. málsins þann 3. des. á sl. ári. Í orðaskiptum hæstv. sjútvrh. Þorsteins Pálssonar og hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar fórust Þorsteini Pálssyni sjútvrh. svofelld orð:
    ,,Ég lít svo á að okkur sé rétt og skylt að miða við þá verðmætastuðla sem út eru gefnir á grundvelli laga sem hv. þm. beitti sér fyrir að yrðu sett og gaf mörgum sinnum út á meðan hann gegndi embætti sjútvrh. Það eru engin rök til að hafa aðrar viðmiðanir í þessu efni.``
    Ég er þessari skoðun hæstv. sjútvrh., sem lögð var til grundvallar í samningunum við EB, fyllilega sammála. Verðmætastuðlarnir byggjast á innlendu markaðsverði síðustu tólf mánuðina á undan. Á því fiskveiðiári sem nú stendur yfir er verðmætastuðull þorsks 1,00, loðnu 0,05 og karfa 0,41. Samkvæmt því eru 30.000 tonn af loðnu ígildi 1.500 tonna af þorski en hin 3.000 karfatonn sem EB fær í sinn hlut ígildi 1.230 tonna af þorski. Evrópubandalagið styðst við svipaðar umreiknireglur. Samkvæmt upplýsingum framkvæmdastjórnar þess í Brussel er verðmætastuðull þeirra þannig að þorskur hefur 1,00, loðnan hins vegar 0,10 og karfinn 0,87. Á þeim grunni eru 30.000 tonn af loðnu ígildi 3.000 tonna af þorski og 3.000

tonn af karfa ígildi 2.610 tonna af þorski. Ég tel að það sé varhugavert að staðhæfa á grundvelli samanburðar sem þessa að annar aðilinn fari mun betur út úr skiptunum en hinn. Það er einfaldlega svo að það er erfitt að meta með óyggjandi vissu hvert er raunverulegt innbyrðis vægi tegundanna tveggja. Það er hins vegar athyglisvert að bæði samkvæmt þeim reglum sem lagðar voru til af sjútvrn. og þeim sem EB beitir sjálft er hlutur Íslendinga ívið betri.
    Ég vil ekki, virðulegur forseti, setja mikla þrætubók á um þetta mál við stjórnarandstöðuna. Mér finnst hún samt seilast helst til langt um rök og fyrst menn eru farnir að teygja sig svona langt langar mig líka til að teygja mig líka svolítið langt og bæta örlitlu við.
    Í enska frumtextanum er sá fiskur sem EB á að fá í sinn hlut nefndur ,,redfish``. Það er þýtt í íslenska textanum sem karfi. Það er ekki getið neitt sérstaklega um um hvers konar karfa er að ræða. En það er á allra vitorði að Íslendingar veiða þrjá stofna af karfa, hinn hefðbundna gullkarfa sem ber latneska heitið sebastes marinus og tvö afbrigði af sebastes mentella, djúpkarfa og úthafskarfa. Af þessum þremur stofnum er djúpkarfinn stærstur, þ.e. fiskarnir sem eru í stofninum eru stærstir, og mér er tjáð að þeir séu líka eftirsóttastir á mörkuðum t.d. í Þýskalandi.
    Karfinn sem íslensk skip mega veiða er blanda af gullkarfa og djúpkarfa og kvótinn sem sjútvrn. hefur gefið út til að mynda 1991 er blanda af þessum tveimur tegundum. Það kom í ljós í umræðum í gær að allir voru ekki fyllilega meðvitaðir um þetta. Fyrir síðasta fiskveiðiár gaf ráðuneytið út heildarkvóta upp á 90.000 tonn af karfa, þ.e. sumarið 1991, sem skiptist þannig að veiða mátti 65.000 tonn af gullkarfanum en 25.000 tonn af djúpkarfa. Síðan hafa rannsóknarleiðangrar leitt í ljós að það er til miklu meira af djúpkarfa í sjónum umhverfis Ísland en menn höfðu áður haft hugmynd um. Engum þarf því að blandast hugur um að djúpkarfinn er í dag vannýttur stofn sem Íslendingar gætu veitt talsvert meira af og ættu löngu að vera byrjaðir á.
    Í nál. minni hluta utanrmn. kemur fram sú skoðun að loðnan sem Íslendingar fá í sinn hlut sé í raun ekki jafngildi nema 1.500--2.000 tonnum af karfa. Gott og vel. Þar kemur líka fram sú afstaða að það hefði verið miklu nær að láta EB í té stofn sem er vannýttur og hv. þm. Steingrímur Hermannsson ítrekaði það viðhorf nokkrum sinnum í sinni ræðu í gær. Djúpkarfinn er í dag vannýttur stofn. Og af því að menn hafa verið að fleygja upp dæmum ætla ég að leyfa mér að hugsa upphátt og fleygja upp dæmi líka.
    Sá hluti karfaafla EB-skipanna hér við land sem samanstendur af djúpkarfa er okkur því eins og mál standa í dag heldur ódýr á meðan við fullnýtum hann ekki sjálfir. Ef við hugsum upphátt og gefum okkur að veiðar EB-skipanna á karfa skiptist í sömu hlutföllum og voru á milli kvótanna á þessar tvær tegundir í karfakvóta ráðuneytisins sem var gefinn út árið 1991, þá má draga þá ályktun að 38% af karfaafla EB-skipanna kunni að verða djúpkarfi sem Íslendingar í dag hvort eð er vannýta. Samkvæmt því er stærsti hluti þess raunverulega kostnaðar sem við berum í skiptunum gullkarfahlutinn, þ.e. þau 62% af þeim 3.000 tonnum sem þeir fá í sinn hlut. Það jafngildir því 1.860 tonnum af gullkarfa. Með öðrum orðum: á þessum grundvelli og samkvæmt þeim verðmiða sem stjórnarandstaðan hefur sjálf kosið að setja á loðnuna er afskaplega erfitt með tilliti til þeirra staðreynda sem nú liggja fyrir að halda því fram að loðnan sé miklu minna virði en karfinn sem við tökum úr fullnýtta stofninum og látum EB í té.
    Virðulegur forseti. Ég hef rakið þau rök sem fram hafa komið með og á móti þessum samningi. Ég hef verið fullkomlega ærlegur og við í meiri hluta sjútvn. Við höfum bent á að þessi samningur er alls ekki fullkominn. Við höfum bent á að það eru ýmis atriði sem ber að leggja áherslu á í þeim árlegu endurskoðunum sem fram undan eru á næstu árum. En við teljum að það sé rétt, virðulegur forseti, að leggja til að þessi samningur verði staðfestur.