Samningar við EB um fiskveiðimál

95. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 12:59:50 (4427)

     Jón Helgason (andsvar) :
    Herra forseti. Það sýnir hvernig rökin eru hjá hv. stjórnarliði þegar hv. 17. þm. Reykv. ber saman heimildir fyrir belgísku togarana og þann samning sem núna er verið að gera. Eins og allir vita og reyndar kom fram óbeint í máli hv. þm. var samningurinn við Belgíu með sjálfvirku sólarlagsákvæði, þ.e. þetta var bundið við ákveðna togara og heimildirnar féllu niður með þeim. Nú eru aðeins eftir þrír af tólf. Það er því verið að loka hurðinni. Hún er hér um bil komin alveg aftur. Hins vegar er með þessum samningi verið að opna nýja hurð upp á gátt. Í henni er ekkert sólarlagsákvæði. Og meira en það. Það á að halda uppi árlegu stríði við Evrópubandalagið um þessi mál og þá undir því stóra sverði sem það ætlar alltaf að sveifla yfir höfðum okkar í þessum samskiptum.
    Í öðru lagi vil ég benda á að hv. þm. vill ekki tengja saman þennan samning við EES-samninginn þó Evrópubandalagið virðist ekki þurfa neina hjálp til þess. En ég held að það ætti ekki að fresta gildistöku EES-samningsins þar sem hann tekur ekki gildi hvort sem er á næstu mánuðum þó að þessum samningi yrði nú vísað aftur til ríkisstjórnarinnar og henni sagt að gera betur á meðan við erum frjálsir menn, á meðan við erum ekki komnir í samningssnöruna. Það er það sem ég vil leggja áherslu á að gert sé svo að það verði hrundið einhverju af þeim óbilgjörnu kröfum Evrópubandalagsins, eins og þingmaðurinn orðaði það, sem varð að verða við.