Samningar við EB um fiskveiðimál

95. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 13:07:23 (4431)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér þykir afskaplega miður ef það hefur komið svona hastarlega við tilfinningalíf hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar að menn hafa bent á að hann var sjútvrh. sem m.a. gaf út þessa verðmætastuðla. Ef hann telur að þeir séu ekki réttir og taki ekki rétt mið af markaðnum hvers vegna í ósköpunum beitti hann sér þá ekki fyrir því að þeim væri breytt á meðan maðurinn var ráðherra? Mér finnst það afskaplega skrýtið.
    Að því er varðar karfategundirnar er það hárrétt hjá hv. þm. að það eru þrjár karfategundir, litli karfi, gullkarfi og síðan er sebastes mentella, en af honum eru tvö afbrigði svo að ég bæti því við, úthafskarfi (Gripið fram í.) og djúpkarfi. Hv. þm. þarf ekkert að leiðbeina mér um þessar skýrslur, ég kann þær jafn vel og hann. En af því hann er að spyrja um djúpkarfa og spyr mig hvaðan í ósköpunum mér berist vitneskja um að það sé til nóg af djúpkarfa, þá vil ég leyfa mér að lesa upp úr viðtali við fyrrverandi starfsmann þingmannsins, Jakob Magnússon, frá 16. júlí 1992:
    ,,,,Niðurstaðan var mjög jákvæð``, segir Jakob Magnússon, ,,því við fundum djúpkarfa alls staðar þar sem við settum niður troll á stórum svæðum á sunnanverðu Grænlandshafi``, sagði Jakob Magnússon sérfræðingur um karfa og starfandi forstjóri Hafrannsóknastofnunar en rannsóknaskip hennar Bjarni Sæmundsson er nýkomið úr leiðangri.``
    Ég gæti haldið áfram að lesa ef þingmaðurinn vill. Það vill svo til að þetta eru staðreyndir. Mig

dreymir að vísu fallega, virðulegur þingmaður, en ég spinn ekki svona upp. Þetta eru staðreyndir. Þetta birtist í því ágæta blaði, sem Framsfl. hefur nú verið talsvert tíðrætt um síðustu dægrin, Alþýðublaðinu, 16. júlí 1992.